Djákninn í Glerárkirkju var spurður í tilefni afmælis kirkjunnar úr hvaða landi lóðin sem kirkjan stæði á væri. Hann svaraði drjúgur: ,,Úr landi Sjálfsbjargar" en áttaði sig um leið á því hve vitlaust þetta rétta svar var. Vissulega fékk Lögmannshlíðarsókn úthlutað lóð fyrir nýja kirkju útúr lóð Sjálfsbjargar á sínum tíma. En spurningin snéri að mun eldri landamerkjum. Þau sem hafa áhuga á sögu og tilurð byggðar norðan ár á Akureyri velta jú meðal annars fyrir sér hvar gömlu bæirnir stóðu og hver hafi átt hvaða tún. Umræðan skilar sér svo í að gömul þekking er dregin fram í dagsljósið.
Að sjálfsögðu reyndi djákninn að komast að hinu sanna með því að ræða við fólk, bæði auglitis til auglitis, en einnig með notkun samskiptamiðla á netinu. Fljótlega þóttist djákninn sannfærður um að mjög sennilega hefði túnið tilheyrt Bandagerði, sem aftur var hjáleiga út úr Lögmannshlíð og seinna erfðafestuland. Þá frétti djákninn að Jón í Höfða hefði slegið túnið sem kirkjan stendur á um langt árabil og fyrrum íbúi í Vallholti sagðist hafa sem drengur hjálpað til við mótekju norðan við þann stað sem Glerárkirkja stendur á í dag. En svo birtist fasteignasali á skrifstofu djáknans með eitthvað skriflegt:
Á manntalsþingi í Glæsibæjarhreppi 28. maí 1889 var lesin upp greinargerð sem Jón Sigfússon bóndi á Espihóli hafði unnið um landamerki Lögmannshlíðar með hjáleigum. Þar stendur orðrétt:
Landamerki Lögmannshlíðar með hjáleigunum Kollugerði, Rangárvöllum og Bandagerði ásamt kirkjujörðunum Efri og Neðri Glerá, einnig jarðarinnar Titlingur (um sameiginlegt landi við torfuna) innan Glæsibæjarhrepps.
Að norðan: Úr Ódrykkjulæk, sem rennur fyrir sunnan Syðra Krossanes, þaðan beina stefnu í mitt Viðarholtsvík, svo beina stefnu þaðan í vörðu utaná svokölluðum Guddumel, er stendur rjett austan við lónið. Svo ræður lónið merkjum niður að læk, sem fellur í það og sem rennur fyrir sunnan túnið á Hesjuvöllum, síðan eru merki eptir honum í gróf í fjallinu, svo eptir henni í vörðu er stendur efst á fjallsbrún.
Að vestan ræður mitt fjallið að ofan.
Að sunnan frá upptökum Glerár og alla leið eptir henni að klöpp þeirri er stendur syðst og austast norðan við ána, þar sem melarnir fara að beygjast til norðausturs.
Að austan: Úr áðurnefndri klöpp að sunnan og þaðan beina stefnu rjett neðan undir melunum í Hringingarklöpp og svo frá Hringingarklöpp að sjó fram, en þaðan ræður sjórinn að áður nefndum Ódrykkjulæk.
Espihóli, 13. maí 1889
Jón Sigfússon
Þinglesið í manntalsþingi Glæsibæjar 28. maí 1889