Hátíðardagskrá í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju hófst í kvöld með listsýningu Díönu Bryndísar og kaffihúsakvöldi kvenfélagsins Baldursbrár þar sem þau Jokka, Linda og Reynir sáu um tónlistina auk þess sem Valmar Väljaots tók nokkur lög á fiðluna með þeim. Gunnhildur Helgadóttir opnaði sýninguna og kaffihúsið formlega með ávarpi sem birt er hér í heild sinni.
Ágætu gestir, Gunnhildur heiti ég og vil fyrir hönd afmælisnefndar bjóða ykkur velkomin hingað í Glerárkirkju. Þessi stund markar upphaf afmælishátíðar sem standa mun yfir hér í kirkjunnni fram á sunnudag. Hér í anddyrinu hefur verið sett upp sýning á verkum Díönu Bryndísar handverkskonu og ljósmyndanema. Díana Bryndís líka þekkt sem Mammadreki leggur stund á nám í ljósmyndun við New York Institute of Photography og býr hér í Glerárhverfi ásamt fjölskyldu sinni. Hún er einnig meðlimur í Álfkonunum sem er áhugaljósmyndarafélag kvenna hér á Akureyri. Díana er stúdent frá listnámsbraut VMA og í því námi kynntist hún tækni sem hún notar í dag við sköpun sína. Við gerð myndanna sem hér eru til sýnis, blandar Díana saman nokkrum aðferðum en þetta eru ljósmyndir sem hún prentar út á mismunandi efni, allt frá fínni bómull og upp í grófgerðan hör. Síðan ýmist saumar hún út í myndirnar, þæfir í þær eða notar púffefni sem hún litar til að gefa verkinu meiri dýpt. Einnig grípur hún stundum pensilinn og málar í myndirnar. Ég vil sérstaklega vekja athygli ykkar á verki nr. 13 sem heitir Sjálfsmynd í auga en þegar Díana fór að vinna myndina sem er af syni hennar á góðri stundu, þá tók hún eftir að hún sjálf, ljósmyndarinn, speglaðist í auga barnsins og vann hún síðan verkið út frá því. Okkur í afmælisnefndinni þykir það áhugavert að fá listakonu úr hverfinu til að sýna hér í kirkjunni á aðventunni og vonum að fólk sem hingað kemur eigi eftir að njóta verkanna. Sýningin verður opin alla virka daga á milli kl. 11 og 16 fram í febrúar 2013 auk þess sem hægt er að skoða verkin þegar athafnir eru í kirkjunni.
Ég vil líka vekja athygli ykkar á kaffihúsinu okkar hérna í safnaðarsalnum sem verður opið til kl. 11 í kvöld. Þar hefur Kvenfélagið Baldursbrá tilbúnar veitingar á vægu verði fyrir þá sem það vilja og þær Jokka og Linda ásamt Reyni Schiöth ætla að flytja fyrir okkur seyðandi tónlist með aðventuívafi og mögulega kíkir til þeirra leynigestur.
Áður en ég lýk máli mínu hér vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn við undirbúning þessarar afmælishátíðar. Sérstaklega vil ég þakka starfsfólki Glerárkirkju fyrir sitt framlag en þau leggja sig fram við að koma hugmyndum afmælisnefndar og fleiri, til framkvæmda.
Einnig vil ég benda ykkur á dagskrá helgarinnar sem hangir uppi hér í andyrinu og er í safnaðarblaðinu sem liggur hér á borðunum og er aðgengileg á glerarkirkja.is
Að þessu sögðu þá segi ég listasýningu Mömmudreka formlega opna og kaffihúsið einnig og vona að við eigum notalega kvöldstund hér saman.
Þakk´ykkur fyrir.