Á síðasta ári kom út ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi, íslensk þýðing á Diakonia in Context sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu árið 2009. Í formála Ragnheiðar Sverrisdóttur, djákna á Biskupsstofu sem hafði umsjón með útgáfu íslensku þýðingarinnar, kemur fram að markmiðið með þýðingunni er að efni um þjónustuna, díakoníuna, sé aðgengilegt fyrir alla og auðveldi umræður um hana í og utan kirkju.
Undir þetta tekur fyrrverandi biskups Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson sem telur að með ritinu hafi kirkjan fengið í hendur handbók sem er gagnlegt og gott verkfæri til umræðu í söfnuðum og stofnunum kirkjunnar. Það er álit hans að umræða byggð á þessu riti muni styrkja köllun kirkjunnar til þjónustu og skerpa vitund safnaðanna um samfélagslega ábyrgð.
Það er einmitt þessi samfélagslega ábyrgð safnaðarins sem er dr. Ishmael Noko, aðalritara Lúterska heimssambandsins (þegar ritið kom út), hugleikin í formála að ritinu. Þar minnir hann á að þó að það sé vissulega mikilvægt fyrir söfnuðina að hafa fagfólk á sínum snærum, þá sé það fyrst og fremst söfnuðurinn sjálfur, fólkið í kirkjunni, sem þurfi að gera díakoníuna sér hjartfólgna. Að hans mati má það ekki gerast að söfnuðurinn vísi bara á sérfræðingana, slíkt breyti kirkjunni úr samfélagi í hjálparstofnun.
En vissulega eru uppi mismunandi fræðikenningar og skoðanir á því um hvað díakonían eigi að snúast, þ.e. hvernig haga eigi kærleiksþjónustunni í kirkjunni. Besta dæmið um það hér heima er að við höfum ekki ennþá komið okkur upp sameiginlegum orðaforða, skilningi á því hvernig við viljum og ætlum að orða það sem að baki díakoníunnar býr. Þetta rit er stefnumarkandi í þá átt, öll þýðingarvinna til fyrirmyndar og faglega í alla staði að útgáfunni staðið. Sérstaklega þykir mér það fagnaðarefni að með ritinu er orðið díakonía innleitt á markvissan hátt inn í íslenska tungu, hefur það þó hingað til þótt sem verið sé að sletta ef notast er við hugtakið. Ragnheiður Sverrisdóttir kemur einmitt inn á þessa áskorun og greinir frá því að við þýðingu þessa rits hafi verið ákveðið að nota sem víðast orðið díakonía, sem oftast hefur hingað til verið þýtt sem kærleiksþjónusta, stundum sem þjónusta og einstaka sinnum sem líknarþjónusta. Hér minnir Ragnheiður á að inntakið sé hið sama: Trú í verki.
Af lestri ritsins verður ljóst að það er ekki verk eins manns, enda er það fætt í deiglu skapandi ferlis á meðal þátttakenda í vinnuhópum víðsvegar um heim sem og á samráðsfundi um díakoníuna í Addis Ababa í Eþíópíu í október 2008. Þá hefur ritstjórinn, dr. Kjell Nordstokke haft stýrihóp sér við hlið sem hefur haft umsjón með vinnslu ritsins og tekið þátt í sköpun þess. Auk þess sendu aðildarkirkjur og einstaklingar inn ýmsar athugasemdir við drögum ritsins. Mikilvægt er líka að átta sig á því að þetta rit er gefið út af Lúterska heimssambandinu, en þar var á þessum ´tima dr. Kjell Nordstokke forstöðumaður Boðunar- og þróunarsamvinnudeildarinnar og hafði hann Stefan Niederberger aðstoðarmann sinn sem og annað starfsfólk sér innan handar við vinnslu ritsins.
Með ritinu er ætlunin að þessi deigla smiti út frá sér, vonast er til þess að umræðan haldi áfram. Í þessu samhengi tekur dr. Nordstokke sérstaklega fram í inngangi ritsins að valið hafi verið að skilgreina hugtakið díakonía ekki of þröngt í ritinu, því að við séum alltaf að læra, umræðan þurfi að geta haldið áfram að mótast og blómstra. Þó sé þarft að hafa í huga að
Þetta skapandi ferli hefur nú leitt af sér það rit sem fyrir liggur. Því er skipt í þrjá megin kafla. Í þeim fyrsta er samhengi díakoníunnar á heimsvísu lýst stuttlega. Í kafla tvö er rýnt með tækjum guðfræðinnar í hugtakið díakonía og það sett í biblíulegt samhengi. Loks er svo horft á praktísku hliðina í þriðja kaflanum og skoðað hvernig þjónustan er veitt og þá í hvaða samhengi.