Lögmannshlíðarkirkja

Fyrir rúmum 150 árum, á jólaföstuinnganginn, árið 1860 er Lögmannshlíðarkirkja, eins og í bókum segir í “messufæru standi” og vígð af sóknarprestinum, sr. Sveinbirni Hallgrímssyni í Glæsibæ. Yfirsmiður var Jóhann Einarsson í Syðri-Haga á Árskógsströnd, orðlagður skipa-og húsasmiður.
Auk Jóhanns unnu að kirkjusmíðinni meira og minna níu aðrir smiðir og verkamenn. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, eins og sagt er, sóknarprestur situr ekki lengur í Glæsibæ, sóknin varð síðar hluti af Akureyrarprestakalli, með nýrri prestakalla- og sóknaskipan, árið 1880. Sú skipan hélst í rúm 100 ár, en árið 1981 er prestakallinu skipt þegar sr. Pétur Sigurgeirsson var gerður að biskup Íslands og til verður Glerárprestakall, sem Lögmannshlíðarsókn tilheyrir síðan.
Þótt sóknin hafi nú eignast nýja og veglega kirkju, þar sem Glerárkirkja er, þá er það einlægur vilji allra sem láta sig málið varða að gamla kirkjan í Lögmannshlíð fái enn að standa með reisn svo lengi sem kostur er. Þar hefur kirkja staðið frá fornu fari og segir sr. Sigurður Stefánsson, sem var vígslubiskup Hólastiftis, á einum stað að sennilega hafi staðið þar kirkja frá því fljótlega eftir kristnitöku.
Ýmislegt hefur verið gert til viðhalds Lögmannshlíðarkirkju nýverið. Kirkjuturninn hefur verið réttur við og endurbyggður að hluta, þá hefur raflögnin verið endurnýjuð og nýir ofnar verið settir í kirkjuna. Margt er þó ógert enn. Viðhald er kostnaðarsamt en sjóðir rýrir og því eru velunnarar allir sem aflögufærir eru beðnir að minnast kirkjunnar.
Helgihald er að jafnaði einu sinni í mánuði yfir sumartímann, frá maí og fram í október. 140 ára vígsluafmælis kirkjunnar var minnst við hátíðarmessu á vori 2001.

Saga Lögmannshlíðarkirkju

Í Lögmannshlíð hefur kirkja staðið frá fornu fari. Núverandi kirkja er arftaki torfkirkju, sem reist var 1792 og var orðin "mjög gölluð, varla messufær” upp úr miðri 19. öld. Lögmannshlið var gjarnan í eigu höfðingja og valdsmanna eins og nafnið bendir til og fylgdu henni lengi fleiri jarðir í nágrenninu, svokölluð Lögmannshliðartorfa. Bændur héldu kirkjustaðinn og var hann aldrei eiginlegt prestssetur.

Laust eftir miðja síðustu öld komst Lögmannshliðartorfa í eigu eigna og athafnamannsins Þorsteins Daníelssonar á Skipalóni (1796-1882)1 og stóð hann fyrir byggingu kirkjunnar sem enn stendur. Hann mun þó ekki hafa unnið að smíðinni sjálfur eins og lengi var talið, en hafði alla forsögn um verkið, útvegaði efni og réð smiði. Yfirsmiður var Jóhann Einarsson í Syðri-Haga á Árskógsströnd. Smíðin hófst árið 1860 og í desember sama ár var hún nógu langt komin til að unnt væri að messa í hinu nýja húsi og á aðventusunnudag vígði séra Sveinbjörn Hallgrímsson2 kirkjuna, þá nýskipaður sóknarprestur.

Eitthvað hefur svo dregist að ljúka kirkjusmíðinni að fullu, því að tveimur árum síðar þegar kirkjan var vísiteruð var ýmsum mikilvægum atriðum enn ólokið, þakið var aðeins einföld skarsúð og gluggar ófrágengnir að utan. (sjá hér á eftir). Endanlegur reikningur fyrir smíðina var ekki gerður fyrr en 31. ágúst 1866, og samkvæmt honum kostaði kirkjan alls 1.157 ríkisdali og 11 skildinga.

Í upphafi var kirkjan án forkirkju og turns, en forkirkjan var byggð 1886 þá var Lögmannshlíð í eigu Jóns Sigfússonar á Espihóli. 1892 fékk söfnuðurinn full umráð yfir kirkjunni.

Nokkrir fleiri áfangar, sem getið er í fornum heimildum: 1929 Kirkjan eignast nýtt orgel, sem er í notkun enn í dag. 1931 Gerðar stórfelldar umbætur á grunni og þaki og allt húsið vandlega málað. 1952 Raflýsing sett í kirkjuna 1956 Kirkjan öll máluð 1958 Rafhitun komið fyrir í kirkjunni 1987 Ný kirkja vígð í Glerárþorpi í ársbyrjun. Hún tók við hlutverki Lögmannshlíðarkirkju, en ætlunin er þó að viðhalda gömlu kirkjunni og að þar geti minni athafnir farið fram.

Úr Vísitasíubókum

Í vísitasíubók Eyjarfjarðarprófastsdæmis (AA/11) er eftirfarandi lýsing frá 1862, þegar kirkjan var nýbyggð: “Á 1862, þann 29. dag ágústmánaðar, var Daníel prófastur Halldórsson staddur að Lögmannshlið til að visitera og uppskrifa lýsingu á hinni nýbyggðu kirkju þar með hennar pertinentibus.3

Kirkja þessi, sem er timburkirkja, er að lengd 15 ½ al. Þar af er kórinn 5 al. 8 þuml. og frá neðri bitabrún tilmænis 5 al. 1 þuml., allt að innan mælt. Sperrur eru 9 og jafnmargir bitar er hvíla á lausholtum yfir 18 stoðum. Húsið er byggt á fótstykkjum með bindingsverki allt um kring, klætt að utan með slagborðum og að innan alþiljað bæði til hliða og á báðum stöfnum frá gólfi upp í gegn með plægðu póstaþili; þakið er enn þá einfalt og er það skarsúð, en vantar ytra þak. Í þrem (?) stöðum á hvorri hlið ganga sterkir skrúfgaddar í gegnum sperrutærnar, bitana og lausholtin, undir húsinu er djúpt niðurgrafinn og upphlaðinn grjótgrundvöllur og ofan í hann eru á öllum hornum hússins festar stoðir sem standa upp úr jafnt fótstykkjunum, og eru sínir 2 skrúfgaddar reknir í gegnum hverja stoð og fótstykkin, annar þeirra gegnum hliðarfótstykkið og stoðina, en hinn gegnum gaflfótstykkið og stoðina og gjörir þetta bæði það að festa fótstykkin saman, og líka undireins að tryggja húsið á grundvellinum.

Í allri kirkjunni er nýtt þilgólf, plægt, sem hvílir á aurstokkum, jafnmörgum og bitarnir eru. Sín 3 gluggafög (!) eru á hvorri hlið hússins, hvert um sig með 2 þriggja rúðu gluggum og pósti á milli þeirra. Á kórstafni yfir bita er 1 gluggafag af sömu stærð og lögun en á framstafni yfir bita er 1 fjögra rúðu gluggi minni en hinir, með listum í kring að utan og innan, hinir allir gluggarnir eru aðeins listaðir að innan en vantar enn þá listana að utanverðu. Í kórnum eru fastir bekkir umhverfis, með styttum undir, auk tveggja lausabekkja. Á hinum föstu bekkjum eru bríkur beggja megin altaris og beggja megin kórdyra. Trappa er upp að prjedikunarstólnum með bríkum til beggja hliða og uppstöndurum (?). Kórdyrnar myndast af tveimur súlum frá gólfi upp undir bita: frá neðri kafla þeirra gengur plægt spjaldaþil að norðarnverðu út til hliðar á húsinu, en að sunnanverðu til prjedikunarstóls uppgöngu. Fyrir ofan þetta skilrúmsþil eru 22 heilir og 4 hálfir eða klofnir pílarar renndir, grópaðir í slár að ofan og neðan. Í framkirkjunni eru að sunnanverðu 7 en að norðarverðu 8 bekkir með bakslám og bríkum listuðum að ofan og styttum undir, að neðan eru þei grópaðir í gólfslár; að norðarverðu er einn fastur bekkur framan við kórdyr, og hjer að auki 2 krókbekkir, sinn hvoru megin kirkjudyra. Fyrir kirkjunni er spjaldahurð með 5 spjöldum, á sterkum járnum, með inngrópaðri tvílæstri skrá, lykli og handgripi. Altari kirkjunnar er nýtt, með 2 spjöldum (fyldingar) á hvorri hlið og vængjahurð að framan með 3 spjöldum, skrálæstri, listar eru allt um kring á altarinu að ofan og neðan. Grátupallur er og nýr og grátur með 21 heilum og 4 hálfum renndum pílárum, grátuhurð er á hjörum.

Smíðið á húsinu er vandað og máttarviðir þess sterkir. En það sem enn vantar til þess að kirkjan sje fullgjör, óskar prófasturinn að verði gjört svo fljótt sem mögulegt er, einkum að leggja yfirþakið á, þar húsið annars liggur undir skemmdum. Á ornamenta og instrumenta verður ekki minnst að þessu sinni, þar eð ýmislegt hefir verið selt af þessu sem óbrúkanlegt var, en skýrsla um það er nú ekki fyrir hendi. Austurhluti kirkjugarðsins, sem byrjað hefur verið að hlaða upp af nýju, þarf að hækkast og fullgjörast hið fyrsta, sem orðið getur. Þar eð ekki kom fleira fyrir athugavert, endast þessi visitazía ut supra 4.

Daníel Halldórsson Th Daníelsson (?? Hallgrímsson” (Þorsteinn Daníelsson og Sveinbjörn Hallgrímsson sóknarprestur undirrita auk prófasts). Vísitasía 1887 (útdr.): “...... Síðan kirkjan var vísiteruð seinast hefur hún fengið góða aðgerð á þakinu beggja vegna, þar sem allur fúi hefur verið úrþví tekinn og ný borð sett í stað hinna fúnu, svo hefir og bik verið skafið af allri kirkjunni og hún máluð að utan hátt og lágt með hvítleitu máli. ... Auk þeirra nútöldu aðgerða hefir kirkjan fengið nýja forkirkju, sem kirkjuklukkunum er komið fyrir í, en áður voru inni í kirkjunni. Allt framþilið á kirkjunni hefir og verið endurbætt og nýr dyraumbúnaður gerður, velsterklegu...”

Vísitasíu 1889 (útdr.): “.... Að innan er það helst að telja til galla að málningin á henni er tekið að fyrnast, enda hefir liturinn aldrei verið fallegur, svo er og eitt borð gengið úr gróp í kórnum ... (Kirkjan) hefir ... eignast síðan síðast var hér vísiterað nýtt harmoníum. ... Bréf biskups um nirðurfestingu kirkna var lesið og talaðist svo til, að kirkjunni skyldi krækt niður með járnkrækingum á báðum vesturhornunum. ...”

Vísitasía 1891 (útdr.): “... Það þykir og mega merkja bæði á gólfum og bitum að austurstafn hússins sé allur farinn að síga niður. Er svo fyrir lagt að vandlega verði að þessu gætt áður spjöll verði að því er skaða kunni allt húsið. Aðrar aðgerðir, sem kirkjan nauðsynlega þarf að fá fljótlega eru gluggi yfir predikunarstól ... þar sem mjög svo dimmt er á stólnum ævinlega og þá ekki síst í skammdegi, svo þarf og kirkjan að fá loft fyrir hljóðfæri sitt og söngflokk og virðist þá best samsvara þörfum tímans að hvelfing verði sett í kirkjuna innar frá lofti.”

Lýsing nú

Sjálf kirkjan er 8 sperrufög að lengd, klædd með reisifjöl að utan en þak er bárujárnsklætt. Sunnan á þaki vestarlega er einn kvistur, Sökkull er nú múrhúðaður og er ótrúverðug eftirlíking af hleðslumynstri mótuð í múrhúðina. Útbygging með turni við vesturstafn er klædd utan með lóðréttri borðaklæðningu úr 20 cm breiðum borðum, strikuðum á brúnum, með listum á milli með fjöðrum báðu megin, sem falla í nótir á borðunum. Útbyggingin er óþiljuð að innan, nema neðri hæðin.

Loft er yfir 2 bitafögum í vesturenda kirkjunnar og er gengið upp á það um brattan stiga í útbyggingunni. Loftið er opið til kirkjurýmisins og er þar handrið með renndum pílárum. Að öðru leyti er aðeins einn bitil yfir kirkjurýminu (þriðja austanfrá) og skilur hann á milli kórs og kirkju. Undir honum eru þiljaðir að innan með “plægðu póstaþili” en neðan á sperrur og skammbita er klætt með sléttum panel. Þar sem veggirnir mæta þakinu er skrautfaldur.

Veggir og þil, bitar, stoðir og pílárar eru hvítlökkuð, gólfið er grámálað en panell í þaki er blár og skreyttur með gullbronsuðum stjörnum. Bekkir, handrið og hurð til forkirkju eru eikarmáluð, sömuleiðis útihurðin að innan, en fordyrið er með gráum veggjum og hvítu lofti. Að utan er kirkjan gulhvít, en þak og gerekti eru rauð.

Á predikunarstól stendur ártalið 1781, hann er talinn gerður af Jóni Hallgrímssyni frá Naustum og er skammstöfunin JHS máluð á hann. Á örðum stað er skammstöfunin JOS. Altaristaflan er með tveimur vængjum á hjörum, sem geta lokast yfir miðstykkið. Í kirkjuskrá Matthíasar Þórðarsonar frá 1918 segir að ártalið 1648 sé letrað á hana.
 

Gamaldags rafhitunarbúnaður er undir kirkjubekkjunum. Í kirkjunni eru engin afdrep eða snyrtiaðstaða, en fyrir nokkrum árum var byggt hús ofan við kirkjugarðinn með snyrtingum og kaffistofu m.a.

Samanburður við lýsingu frá 1862 leiðir í ljós eftirtaldar breytingar sem kirkjan hefur tekið í tímans rás:
Forkirkja með turni er seinni tíma viðbót eins og áður er getið. Forkirkjan var gerð 1886, en margt bendir til þess að turninum hafi verið bætt voð síðar og að forkirkjan hafi í fyrstu ekki náð upp á þakbrún kirkjunnar. Öruggt er að kirkjuloftið var ekki gert um leið og forkirkjan sbr. Visitasíu frá 1889 og gæti það hafa komið um leið og forkirkjan var hækkuð. Sama er að segja um kvistinn en hann gæti þó hafa komið enn seinna. Sjálfsagt má finna öruggar heimildir um þetta við ítarlegri leit, t.d. í vísitasíubókum. Rétt er að benda á að kór og hljóðfæri fluttust aldrei upp á kirkjuloftið þótt sú hafi upphaflega verið áætlunin og má geta sér þess til að pláss þar hafi þótt og lítið og uppgangan og brött og þröng.

Skv. Lýsingum hefur skarsúðin á þakinu verið ber að neðan í upphafi og er því panillinn í hvelfingunni síðari tíma viðbót - líklega frá sama tíma og kirkjuloftið og turninn. Fjórir þverbitanna hafa verið fjarlægðir en einn skilinn eftir, milli kórs og kirkju.

Skilrúmi milli kórs og kirkju hefur verið breytt. Nú er ekkert skilrúm að norðan en þar var áður spjaldþil næst gólfi en þar ofan ávið pílárar grópaðir í slár að ofan og neðan. Sá frágangur sem þannig er lýst er e.t.v. sá sami og en er upp við suðurvegginn. Tvæ súlur voru áður undir bitanum fyrir miðju og mynduðu kórdyr, þar gæti verið um að ræða sömu súlur og nú eru undir bitanum sunnantil. Altari og grátur virðast ekki hafa verið hreyfð.

Uppganga í predikunarstól var með handriði sem nú er horfið. Líklegt er að predikunarstólinn hafi staðið öðruvísi í upphafi og frelsarinn sjálfur snúið beint fram að söfnuðinum, en hann horfir nú til norðurs. Þiljað hefur verið fyrir stafnglugga að austan, en þar sem áður var stafngluggi að vestan eru nú dyr til kirkjuloftsins. Í öllum gluggum eru yngri grindur sem eru í megindráttum eins og þær gömlu hafa verið en engin strik eru á innri brúnum þeirra heldur einungis flái, og þær eru glerjaðar með rúnnuðum listum.

Bekkir að norðan hafa verið færðir og þeim fækkað. Að sunna eru enn jafnmargir bekkir og lýst er 1862, og gætu þeir verið óhreyfðir.
Múrhúðin á sökklinum er frá seinni árum e.t.v. 1931, en áður hefur grjóthleðslan trúlega verið sýnileg. Þá er og líklegt að vatnsbretti hafi verið neðan klæðningarinnar.

Bárujárnið gæti hafa verið sett á þakið 1931, en ekki er ósennilegt að áður hafi verið búið að pappaklæða þakið. E.t.v. lægi beinast við að álíta að í fyrstu hafi þakið’ verið með rennisúð, en borðaklæðningin sem sést á þakbrúnunum undir bárujárninu staðfestir það þó ekki. Það sést í liggjandi borð (langsum eftir þaki) næst ofan á skarsúðinni og þéttklædda standandi klæðningu þar ofan á, næst undir járninu. Ef ekki hefur verið hreyft við þessu þegar bárujárnið var sett á hefur timbur þakið því verið sléttur flötur úr standandi borðum. Ekki skal fullyrt hér að svo hafi verið.
  
Kirkjugarðar Akureyrar - Lögmannshlíð