Útför

Við missi ástvinar er sorg í huga og hjarta. Mikilvægt er að aðstandendur standi saman og tali um þá atburði sem orðið hafa og leiti styrks hjá hvert öðru. Mikilvægt er að ræða við börnin og passa að þau verði ekki útundan eða afskipt þegar atburðir og tilfinningar eru ræddar. Þegar leita skal til prests er oft eðlilegast að hafa samband við þann prest sem starfar nálægt heimilinu eða tengsl eru við af öðrum ástæðum. 

Ef óskað er eftir þjónustu hjá prestum Glerárkirkju er best að hringja beint í þá:

•    Sr. Sindri Geir Óskarsson 866-8489
•    Sr. Helga Bragadóttir 846-5079

Á sama tíma og tekist er á við sorgina kalla ýmis úrlausnarefni á athygli í sambandi við jarðarför. Starfsfólk útfararstofanna er mjög hjálplegt við að aðstoða. Á Akureyri er starfrækt Útfaraþjónusta Kirkjugarða Akureyrar. Skrifstofan er opin kl. 8-17 virka daga, tímapantanir í síma 461-4060.

Í Lögmannshlíðarsókn er einn kirkjugarður og stendur hann við Lögmannshlíðarkirkju, en hann tilheyrir Kirkjugörðum Akureyrar rétt eins og garðurinn á Naustahöfða. Nánari upplýsingar gefur starfsfólk Kirkjugarða Akureyrar.

Útför er sérstök tegund guðsþjónustu, þar sem látinn er kvaddur með bæn og þakkargjörð og falinn vernd Guðs í trú á sigur hins upprisna Drottins og frelsara. Bænin og orðið skipa öndvegið í útförinni og í þá þjónustu sækja aðstandendur sér styrk og huggun. Form á útför getur verið breytilegt en oftast fer útför fram með eftirfarandi hætti:

Forspil / upphafslag - Bæn - Sálmur - Ritningarlestur - Sálmur - Guðspjall - Sálmur / söngur / tónlist - Ræða - Sálmur / söngur / tónlist - Bæn og Faðir vor - Sálmur - Moldun - Sálmur - Blessun - Eftirspil/útgöngulag

Þetta form eða þessu líkt er algengasta formið á útför. Stundum eru fengnir einsöngvarar eða einleikarar til að flytja tónlist. Ástvinir sitja venjulega fremst til vinstri í kirkjunni en líkmenn, þ.e. þeir sem bera kistuna fremst hægra megin. Líkmenn eru annaðhvort 6 eða 8. Við undirbúning á útfararathöfn eru prestur og organisti aðstandendum til aðstoðar á frekari útfærslu athafnarinnar. Útfararstofur sjá um allan ytri umbúnað athafnarinnar og aðstoða aðstandendur eins og kostur er. Frá kirkju er kistan flutt með viðhafnarbíl að kirkjugarði. Nánustu aðstandendur taka þátt í líkfylgdinni í garðinn. Óski aðstandendur þess getur útfararstjóri stýrt athöfn í kirkju.

Hér eru nokkrir minnispunktar til leiðbeiningar:
•    Æskilegt er að hafa samband við prest sem fyrst, hvort heldur er, áður en haft er samband við útfarastofu eða í beinu framhaldi þar af.
•    Útfaradagur, tímasetning og kirkja er ákveðin í samráði við prest og útfarastofu.
•    Ef óskað er eftir að erfidrykkja fari fram í safnaðarsal að athöfn lokinni þarf að taka það sérstaklega fram við útfararstofu og þau sjá um að hafa samband við Veislubakstur sem þjónustar safnaðarheimili kirkjunnar.

Sjá einnig minnismiða á vef Útfarastofu KGA.