Um árabil hefur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi í samstarfi við Glerárkirkju staðið fyrir átta fræðslukvöldum á hverri haustönn og átta fræðslukvöldum á hverri vorönn. Tilgangurinn með þeim hefur verið að skapa vettvang til samtals um kirkju og kristni og hafa kvöldin verið ókeypis og opin öllu áhugasömu fólki, en beðið hefur verið um frjáls framlög í kaffisjóð. Dagskráin hvert kvöld hefur tekið tvær klukkustundir og þó svo að aðsóknin á einstök kvöld hafi verið misjöfn er hægt að tala um að jafnaði 15 til 20 þátttakendur. Sá fjöldi segir þó engan veginn alla söguna um fjölda áheyrenda hin síðustu ár, því að hvert erindi er tekið upp á myndband og birt jafnóðum á vefnum. Sá hópur sem horfir á myndböndin á vefnum er alla jafna stærri en hópurinn sem mætir á sjálft fræðslukvöldið. Og efnið lifir á vefnum en nú eru um 40 myndbönd með fræðslu um kristna trú og kirkjutengd málefni aðgengileg hér á vef Glerárkirkju.
Vorið 2013 snérust fræðslukvöldin um hina biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Til grundvallar umræðunni lágu tvær skýrslur Lútherska heimssambandsins, annars vegar Þjónusta í síbreytilegu samhengi og hins vegar Boðun í síbreytilegu samhengi. Auk þess var notast við Bænabandið í helgistundum kvöldanna og snéri fræðslan síðasta kvöldið að kristinni íhugun og bænahaldi í anda þess sem kynnt er í bókinni Bænabandið. Að þessu sinni voru fræðslukvöldin í samstarfi við Starfs- og leikmannaskóla þjóðkirkjunnar og upptökur frá kvöldunum birtar á vef kirkjunnar. Sjá nánar á yfirlitssíðu um fræðslukvöldin vorið 2013.
Haustið 2012 var yfirskrift fræðslukvöldanna ,,Hvað er kristin trú" þar sem samnefnd bók Halvor Moxnes lá til grundvallar umræðunni. Bókin kom út hjá Skálholtsútgáfunni árið 2010 í íslenskri þýðingu sr. Hreins Hákonarsonar. Erindi fluttu: Sr. Hreinn Hákonarson (inngangserindi), sr. María Ágústsdóttir (biblíutúlkun), Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur (guðshugmyndir), sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir (sjálfsskilningur), dr. Gunnlaugur A. Jónsson (trúfélagið), sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir (sjálfsvirðing), Höskuldur Þórhallsson (stjórnmál og kirkja) og Jónas Þórisson (hnattvæðingin). Nálgast má upptökur frá haustinu 2012 með því að smella hér. (Alls sjö myndbönd)
Vorið 2012 var yfirskrift fræðslukvöldanna „Vegur trúarinnar“ þar sem unnið var með Sæluboðin, Fjallræðuna og hliðstæða biblíutexta og hin andlega vegferð hins trúaða einstaklings skoðuð. Erindi fluttu: Sr. Gunnlaugur Garðarsson (inngangserindi og guðrækni, að biðja og iðja), sr. Guðmundur Guðmundsson (guðleg vídd tilverunnar og gleði í mótlæti), sr. Guðrún Eggertsdóttir (þverstæður lífsins), Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni (hógværð og handleiðsla), sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir (æðruleysi í friðar og sáttarstarfi) og hjónin sr. Bolli Pétur Bollason og Sunna Dóra Möller (Vegurinn framundan, nútíminn og framtíðin). Nálgast má upptökur frá vorinu 2012 með því að smella hér. (Alls níu myndbönd).
Haustið 2011 stóð Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi í samstarfi við Glerárkirkju fyrir samræðukvöldum á miðvikudögum kl. 20:00. Að þessu sinni var bók páfa ,,Jesús frá Nasaret" lögð til grundvallar umræðunni. Í bókinni birtist áhugaverð samfélagsrýni fræðimannsins Josephs Ratzinger, en þetta er fyrsta bók hans eftir að hann settist á páfastól sem Benedikt XVI. Bókin er innlegg í samtalið milli samfélagsins og kristninnar. Framsögu önnuðust: Sr. Jón Ármann Gíslason, Jón Valur Jensson, dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, sr. Haukur Ágústsson, sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, sr. Örnólfur Jóhann Ólafsson, Kristín Ástgeirsdóttir, dr. Hjalti Hugason, sr. Gunnlaugur Garðarsson, sr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir og sr. Gunnar Jóhannesson. Nálgast má upptökur frá haustinu 2011 með því að smella hér (Alls átta myndbönd).
Á vordögum 2011 snérust umræðukvöld prófastsdæmisins í samstarfi við Glerárkirkju um þjóðgildin og hófust þau mánudagskvöldið 7. febrúar í Glerárkirkju með framsögu Gunnars Hersveins, höfundar bókarinnar ÞJÓÐGILDIN. 35 manns sóttu fundinn og sköpuðust lifandi umræður um þau gildi og það samfélag sem við viljum búa við. Með þessu framtaki vildi prófastsdæmið efla samtalið milli fólks um nútíð og framtíð okkar allra. Að lokinni helgistund gengu þátttakendur í safnaðarsalinn þar sem Gunnar flutti erindi sitt. Hann hóf mál sitt með því að benda á að gildi er víðtækt siðferðilegt hugtak sem fjallar um þau verðmæti sem bæta einstaklinga og samfélag. Þá benti hann á að dyggðir eru lærðir mannkostir, siðferðilegur eiginleiki fólks sem það hefur áunnið sér og æft sig í. Þannig væru dyggðirnar sammannlegir þættir sem gera gott fólk úr börnum, þ.e. eiginleikar sem vert er að hrósa fyrir. Sjá nánar á vef prófastsdæmisins. Að loknu þessu upphafskvöldi tóku við sjö umræðukvöld sem öll voru tekin upp á myndbönd og má nálgast þau með því að smella hér. Framsögu á þessum kvöldum höfðu Baldur Dýrfjörð, Hlín Bolladóttir, Hermann Jón Tómasson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Andrea Hjálmsdóttir og Sigurður Guðmundsson en síðasta kvöldið sáu Guðmundur Guðmundsson og Pétur Björgvin Þorsteinsson um samantekt frá kvöldunum. (Alls sjö myndbönd).
Haustið 2010 var yfirskrift fræðslukvöldanna ,,Fylgjum kindagötunni fyrst hún er þarna" en þar var tekist á um nokkur af stefnumálum kirkjunnar. Erindi fluttu sr. Þorgrímur Daníelsson (Kirkja, kristni og hugmyndalandslag á Íslandi), sr. Halldór Reynisson (Dugar fræðsla og boðun kirkjunnar?), sr. Kristján Valur Ingólfsson (Handbók og helgisiðir), Sigríður Dögg Geirsdóttir (Fjármál kirkjunnar), Magnea Sverrisdóttir djákni (Lútherska heimssambandið) og sr. Jón A. Baldvinsson (Hvert stefnum við). Nálgast má myndbönd frá umræðukvöldunum með því að smella hér. (Alls 6 myndbönd)