Saga Kórs Glerárkirkju áður Kórs Lögmannshlíðarsóknar í stuttu máli.
Kór og kórstjórar
Á árinu 2024, voru 80 ár síðan Kór Lögmannshlíðarsóknar var stofnaður. Upphafið að stofnun kórsins var að söngmál í Lögmannshlíðarsókn voru í hálfgerðum ólestri undir lok Seinni-Heimsstyrjaldarinnar. Organistinn hafði sagt upp störfum svo messuhald var í uppnámi. Þá náðist samkomulag við Jakob Tryggvason um að taka að sér orgelleik og kórstjórn í sókninni. Hann setti það skilyrði að stofnaður yrði formlegur kór til að annast söng í messum. Að þessu var gengið og var stofn fundur haldinn 12. febrúar 1944 (Fyrsta stjórn Kórs Lögmannshlíðarsóknar: Formaður: Halldór Jónsson Ásbyrgi. Ritari: Guðrún Jóhannesdóttir Sandvík. Gjaldkeri: Halldór Jónsson Gili. Meðstjórnendur: Hrefna Pétursdóttir Ásbyrgi og Sigrún Kristjánsdóttir Kristnesi) Söngfélagið fékk nafnið Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar. Stofnfélagar eru taldir 19, 11 konur og 8 karlar. Kórinn hafði æfingaraðstöðu í barnaskólanum í Glerárþorpi (Síðar Leikskólinn Árholt). Jakob Tryggvason stjórnaði kórnum til ársins 1945. Þá tók Áskell Jónsson við og stjórnaði kórnum til ársins 1987, eða samfleytt í 42 ár. Síðustu árin stjórnaði Áskell í samstarfi við son sinn Jón Hlöðver. Nafni Kirkjukórs Lögmannshlíðarsóknar var breytt á aðalfundi kórsins árið 1990 í Kór Glerárkirkju. Áskell hafði þá látið af störfum sem organisti og söngstjóri árið 1987 og við hafði tekið Jóhann Baldvinsson, kórstjóri. Hann stjórnaði kórnum til ársins 1997. Þá varð kórstjóri Hjörtur Steinbergsson. Hann lét af störfum árið 2009 og við tók Valmar Väljots, núverandi kórstjóri Kórs Glerárkirkju. Árið 2016 barst kórnum ágætur liðsauki þegar Petra Björk Pálsdóttir, organisti var ráðin í hlutastarf við kirkjuna. Hefur hún nýst kórnum vel bæði við stjórnun og söng.
Glerár og Miðgarðaprestakall í Lögmannshlíðarsókn
Árið 1981 var Lögmannshlíðarsókn aðskilin frá Akureyrarprestakalli í tengslum við prestaskipti og fékk heitið Glerár og Miðgarðaprestakall í Lögmannshlíðarsókn. Sr. Pétur Sigurgeirsson, sem hafði verið prestur í Lögmannshlíðarsókn lét af störfum og við tók Sr. Pálmi Matthíasson. Hann þjónaði til ársins 1989. Þá tók Sr. Pétur Þórarinsson við sem sóknarprestur, en hann varð að láta af störfum vegna veikinda árið 1991. Sr. Gunnlaugur Garðarsson var ráðinn sóknarprestur Lögmannshlíðarsóknar árið 1991 og árið eftir, þann 6. desember árið 1992 var Glerárkirkja vígð. Sr. Gunnlaugur lét af störfum sem sóknarprestur árið 2020 og hafði þá þjónað í Glerárkirkju í 29. ár. Núverandi sóknarprestur er Sr. Sindri Geir Óskarsson. Frá árinu 2005 hafa tveir prestar verið þjónandi í Glerárkirkju.
Orgelsjóður Glerárkirkju
Á aðalfundi 10 mars árið 1987 las Áskell Jónsson söngstjóri upp stofnsamning að orgelsjóði sem hann og Sigurbjörg Hlöðversdóttir kona hans hafa stofnað til með höfðinglegu framlagi. Í samningnum kemur fram að orgelsjóðurinn skuli vera í vörslu kórsins og á næsta aðalfundi kórsins í mars 1988 afhenti Áskell Jónsson kórnum endanlega umsjón orgelsjóðsins.
Hægt safnaðist í orgelsjóðinn og ekki varð séð að pípuorgel yrði keypt í nánustu framtíð. Flygill Glerárkirkju var kominn til ára sinna og ástæða þótti til að endurnýja hann og láta frekar minna orgel duga. Því var haft samband við afkomendur Áskels og Sigurbjargar og leitað eftir þeirra skoðun á málinu. Á aðalsafnaðarfundi árið 2022 var síðan samþykkt að leggja niður orgelsjóð Glerárkirkju og nota það fé sem í sjóðinn hafði safnast til kaupa á vönduðum flygli.
Starfsemi kórs Glerárkirkju
Kór Glerárkirkju syngur við messur og aðrar athafnir í Glerárkirkju. Áður en Glerárkirkja var tekin í notkun söng kórinn nær eingöngu í Lögmannshlíðarkirkju. Þann 18. ágúst 1985 söng kórinn í fyrsta sinn hér í Glerárkirkju og var þá kirkjan ekki einu sinni orðin fokheld. Á páskadagsmorgni árið 1987 skartaði kórinn í fyrsta skipti kyrtlunum bláu sem enn eru notaðir við messuhald kirkjunnar.
Litlar heimildir hafa því miður varðveist frá fyrstu áratugum kórsins, en vitað er að hann starfaði ötullega þessi ár og fór meðal annars í söngferðir hér innanlands. Hann söng við útvarpsmessur og að minnsta kosti við eina sjónvarpsmessu.
Fyrir jólin árið 2011 fóru nokkrir kórfélagar um bæinn og sungu jólalög í anda “Carol singers” með dyggri aðstoð búningasafns Leikfélags Akureyrar og tveggja barna sem fengin voru að láni. Þetta var gert til að afla tekna þar sem kórinn stefndi á utanlandsferð til að taka þátt í kórakeppni í Vín. Í einskonar spennufalli eftir þessa törn, réðust tvær ofurkonur í það stórvirki að tileinka sér nótnaskrift í Noteworthy og sköpuðu sér þar með ómælda sjálfboðavinnu um ókomna framtíð.
Söngæfingar hjá Kór Glerárkirkju eru að jafnaði einu sinni í viku yfir vetrartímann og tekur kórinn sér einnig sérstaka æfingadaga. Kór Glerárkirkju heldur að minnsta kosti tvenna tónleika ár hvert. Jólatónleikar eru haldnir í desember og vortónleikar eru yfirleitt í maímánuði. Kórinn hefur í gengum tíðina tekið þátt í ýmsum kóraviðburðum með öðrum kórum og einnig sungið í útvarpsmessum. Ennfremur hefur kórinn lagt land undir fót og sungið á ýmsum stöðum innanlands og utan, bæði í kirkjum og annarsstaðar.
Covid árin voru skrítin hjá Kór Glerárkirkju. Það ýmist mátti eða mátti ekki koma saman og syngja. Ekkert helgihald var um jól og fermingar stóðu yfir meira og minna allt sumarið. Þá var bara lítill hluti kórsins að syngja með minnst eins metra fjarlægð á milli manna, eða jafnvel bara tveir og stundum var enginn kór. Séra Sindri reyndi að bæta úr þessu samkomubanni með því að senda út helgistundir í streymi. En sem betur fer tekur allt enda. Til að bæta upp æfingatíma á Covid tímanum tók kórstjórinn upp á því að syngja raddir með nýju efni inn á hljóðskrár og senda á kórinn á Messenger. Góð viðbót við Noteworty.
Útgáfumál
Á 40 ára afmæli Kórs Glerárkirkju, árið 1984 söng kórinn inn á vínilplötu og er sú plata til hér í kirkjunni, þó í takmörkuðu upplagi. Þar er að finna að minnsta kosti þrjú lög eftir Áskel Jónsson, ásamt annarri fjölbreyttri tónlist. Á plötunni má líka heyra einsöng Eiríks Stefánssonar og Helgu Alfreðsdóttur sem segja má að hafi verið máttarstólpar kórsins í áratugi.
Fyrir jólin árið 1996 gaf Kór Glerárkirkju út kassettu með jólalögum undir Stjórn Jóhanns Baldvinssonar. Upptökur fóru fram á aðventutónleikum Kórs Glerárkirkju 1994 og 1995. Í einu laganna syngur barnakór Glerárkirkju líka með.
í tilefni af 60 ára afmæli Kórs Glerárkirkju, árið 2004 var svo ráðist í það verkefni að syngja inn á geisladisk undir stjórn Hjartar Steinbergssonar. Á diskinum er farið víða um lönd og álfur og mörg tímabil tónlistarsögunnar. Frönsk og ensk lög frá endurreisnartímanum, Síðan eru íslensk þjóðlög og sönglög. Afrísk amerísk trúartónlist og að lokum Argentísk messa, Misa Creolla eftir Ariel Ramires. Eftir að Valmar fór að stjórna kórnum tók kórinn þátt í gerð jólaplötu „Jólastjörnur “ og söng þar kafla í laginu „Ó helga nótt“ með Hvanndalsbræðrum.
Utanlandsferðir
Á þessum 80 árum sem Kór Glerárkirkju hefur starfað, hefur hann sungið með ýmsum öðrum kórum og farið í margar söngferðir bæði innanlands og erlendis. Frá árinu 1992 hefur kórinn að jafnaði farið í utanlandsferð á fimm ára fresti.
Árið 1992 fór Kór Glerárkirkju í tónleikaferð til Þýskalands. Þá var Jóhann Baldvinsson kórstóri. Fimm árum síðar, árið 1997 fór kórinn í ferð til Portúgals með sama kórstjóra.
Næsta utanlandsferð Kórs Glerárkirkju var árið 2002. Þá var farið til Ungverjalands , gegnum Austurríki, Slóveníu og í gegnum Þýskaland, heim á leið. Kórstjóri í þeirri ferð var Hjörtur Steinbergsson. Árið 2007 sló kórinn heldur betur um sig og fór í siglingu með stóru skemmtiferðaskipi um Miðjarðarhafið. Lagt var úr höfn frá Barcelóna á Spáni og komið aftur í höfn þar viku seinna. Í siglingunni var komið við í Suður Frakklandi og á ýmsum stöðum á Ítalíu. Hjörtur kórstjóri veiktist og komst ekki með í ferðina, en Daniel Þorsteinsson, píanóleikari leysti hann af.
Árið 2012 lagði kórinn upp í ferð til Vínarborgar í Austurríki. Tilgangur ferðarinnar var að taka þátt í kórakeppni. Kór Glerárkirkju lenti í þriðja sæti í sinum riðli. Kórstjóri var Valmar Väljots. Á heimleiðinni var stoppað í Munchen í Þýskalandi. Næsta kórferð var farin árið 2016. Þetta var þriggja landa ferð. Flogið var til Stokkhólms í Svíþjóð. Þaðan var siglt til Turku í Finnandi og gist og sungið í bænum Rauma. Haldið var til Helsinki og siglt þaðan til Tallinn í Eistlandi, heimalands Valmars kórstjóra. Við fórum í heimahverfi Valmars, Saku og sungum þar. Frá Tallinn var síðan siglt aftur til Stokkhólms og haldið heim á leið á ný.
Haustið, 2024 sigldi kórinn með Norrænu til Færeyja. Farið var í skoðunarferð um eyjarnar og sungnir einir tónleikar í Ebenezershúsi ásamt heimakór.
Pallasmíði
Á stjórnarfundi árið 1998 tekur Jón Eðvarð að sér að leggja drög að pallasmíði fyrir kórinn og árið eftir var svo ákveðið að skipa nefnd í málið. Með Jóni var settur Tryggvi Geir og þeim ætlað að meta kostnað teikna, hanna og smíða og fá svo liðsauka eftir þörfum. Tveir kórfélagar tóku að sér að smíða pallana í sjálfboðavinnu. Pallarnir voru svo tilbúnir til notkunar árið 2003.
Tveir atburðir
Eftir hádegi þann 28. maí 1995 gerðist sá leiðinda atburður að eldur kom upp í Glerárkirkju. Töluvert tjón varð, aðallega vegna sóts og reyks og sáu kórfélagar að miklu leyti um að þrífa kirkjuna sjálfa. Svo af því má sjá að það er ekki bara sungið í þessum kór.
Árshátíð var haldin í byrjun mars 1998 í Kaupfélagssalnum í kjallara Sunnuhlíðar. það er ekki í frásögur færandi, en þegar stjórnin mætti á staðinn morguninn eftir til að vaska upp og ganga frá sáust grunsamleg ummerki umgangs. Eftir mikil heilabrot og rannsóknir fékkst sú niðurstaða að einhver hefði brotist út en ekki inn. Einskis var saknað og lítið skemmt en málið er enn óupplýst.