Ef þið hafið hug á að ræða við prest Glerárkirkju vegna athafna, hjónavígslu, útfarar, fermingar, skírnar, nafnablessunar, húsblessunar eða einhvers annars er besta mál að hafa samband við okkur, þið finnið netföng og símanúmer starfandi presta við kirkjuna hér.
Á lífsgöngunni getum við öll lent í því að lenda á vegg, vita ekki hvert við eigum að snúa okkur eða hvaða skref við eigum að taka á göngunni áfram. Samtal við prest er ávallt ókeypis þjónusta og mörgum þykir gott að fá að ræða í trúnaði við óháðan aðila, fá áheyrn og speglun til að greiða úr flækjum og erfiðum hugsunum.
Sálgæsla er ekki meðferð, heldur er það samfylgd í gegnum erfið tímabil og sálgæslan er alltaf á forsendum þess sem eftir henni leitar. Fólk þarf ekki að vera trúað til að sækja sálgæslu til presta, en auðvitað er hægt að sækja sálgæslu á trúarlegum forsendum ef fólk vill bæn yfir sínum aðstæðum. Þegar þörf er á meðferðarvinnu vísum við fólki áfram til fagaðila sem geta hjálpað.
Það fer algjörlega eftir því afhverju viðkomandi biður um samtal. Prestar geta veitt fólki áfallahjálp og stutt í gegnum erfiða reynslu, við getum rætt um sorg og sorgarviðbrögð, við getum rætt meðvirkni í fjölskyldunni og þörf á að leita að meiri aðstoð, en samtalið fer þangað sem fólk vill að það fari. Sálgæslan snýst um að setja orð á hlutina, því spyrjum við spurninga og reynum að sleppa tökum á hugsanalestri. Við getum hjálpað fólki að horfast í augu við reynslu, tilfinningar og aðstæður og dæmum hvorki né reynum að leggja fólki lífslínurnar.
Hingað leitar fólk á öllum aldri og af ýmsum ástæðum.
Prestar eru bundnir ströngum trúnaði, ekkert sem rætt er í sálgæslu megum við fara með lengra. Eina undantekningin eru barnaverndarlög, að ef við fáum upplýsingar um að barn búi við óviðunandi eða hættulegar aðstæður ber okkur að tilkynna það til barnaverndar. Eins ber okkur skylda til að leita aðstoðar ef við óttumst það að skjólstæðingur sé við það að vinna sér eða öðrum skaða.
Prestar Glerárkirkju eru ekki með fastan viðtalstíma, heldur er best að heyra í okkur og bóka samtal.
Þið finnið netföng og símanúmer starfandi presta við kirkjuna hér.