Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju
Hugvekja flutt í Lystigarðinum, 17. júní 2012.
Gleðilega hátíð. Það er ánægjulegt að fá að standa hér í dag og flytja okkur öllum stutta hugvekju. Hugvekjum er ætlað að vekja hugann, fá okkur til að breyta andlegum hugsunarhætti okkar, dýpka skilning okkar á lífinu, tilverunni, okkur sjálfum. Þar er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki hlutverk þess sem flytur hugvekjuna að hafa á nokkurn hátt áhrif á hlustandann. Það er hins vegar hlutverk hlustandans að taka persónulega ákvörðun um hvað hann gerir við orðin sem flytjandinn ýtir úr vör.
Að þessu sögðu langar mig að bjóða þér í ferðalag hugans, eða sjóferð á öldum hugmyndaflugsins.
Ímyndaðu þér að þú sért skógarbóndi.
Ímyndaðu þér að á hverjum degi lífs þíns plantir þú einu tré. Að lokinni einni viku hefur þú plantað sjö trjám, eftir tíu vikur eru trén orðin sjötíu, eftir hundrað vikur áttu orðið vísi að skógi með sjö hundruð trjám. Sérðu skóginn fyrir þér? Ímyndaðu þér hve mörg tré við ættum á Akureyri ef við værum öll skógarbændur.
Getum við verið sammála um að ef þú hefðir haft þennan sið í gegnum lífið að gróðursetja eitt tré á dag þá værir þú orðin um margt vísari um hvaða trjáplöntur henta í hvaða jarðvegi og hvernig sé best að haga gróðursetningunni. Þú hefðir jafnvel spurt aðra hvernig þau sinna gróðursetningunni. Auk þess hefðu mörg okkar sest niður og lesið okkur til um trjárækt, farið á námskeið eða menntað okkur í trjárækt.
En við skulum taka þessa ímynduðu sögu lengra. Heim í eldhúsið okkar. Ímyndum okkur að þar ættum við deig í ísskápnum. Þetta er ný tegund, áður óþekkt blanda af súr- og gerdeigi. Á hverjum morgni tekur þú afleggjara af þessu deigi og notar sem græðling fyrir tré dagsins. Við erum því að tala um nýja tegund trjáræktar.
Fyrsta deigið í þessa líkingu sem ég man eftir í ísskápnum hjá mömmu í Þverholtinu hét Hermann. Það þurfti að fóðra Hermann á hverju kvöldi og stundum var það þó nokkuð maus að halda lífi í Hermanni, en kökurnar sem hægt var að baka úr deiginu voru góðar.
Þetta deig sem þú átt núna í þessari ímynduðu sögu í þessum ímyndaða ísskáp er einmitt svona deig. Þú þarft að sinna því á hverju kvöldi. Þú gengur að ísskápnum, opnar ísskápinn og þú og deigið horfist í augu. Það sem deigið sér í augum þér er grunnurinn að innihaldinu að rótum trjánna sem þú munt planta. Og hér þarft þú að svara sjálf/ur hvað það er sem sjá má í augum þér að kvöldi dags. Er það sekt, sjálfsvorkunn, hlýja eða traust? Er það ótryggð, óvild, þakklæti eða góðvild? Getur það verið fyrirlitning, öfund, fyrirgefning eða kærleikur? Jafnvel ótti og öryggisleysi eða miskunnsemi og vingjarnleiki.
Súrnar deigið frekar um nóttina? Eða fá góðar tilfinningar að gerjast í því? Á því byggist innihaldið, þannig verður hráefnið til sem þú notar við gróðursetninguna næsta morgunn.
Sérðu skóginn ennþá fyrir þér? Hvernig trjám ætlar þú að planta?
Móðir Teresa talaði um að trén væru tvennskonar.
Við gætum valið að hnoða saman deig að rótum trés sjálfseyðingarinnar með því að bæta ótta, öryggisleysi, fyrirlitningu, öfund, ótryggð, óvild, sekt, sjálfvorkunn og öðrum álíka niðurbrjótandi tilfinningum í deigið. Þar með plöntum við trjám sem bera tómleika, firringu, kæruleysi, deilur, afbrot, meðvirkni, jafnvel alkóhólisma og vímufíkn á greinum sér. Hvernig skógur er það? Sérðu hann fyrir þér?
Móðir Teresa benti einnig á að til væri tré sjálfsuppbyggingar. Þar notum við miskunnsemi, vingjarnleika, fyrirgefningu, kærleika, þakklæti, góðvild, hlýju og traust í deigið og uppskerum tré sem ber á greinum sér tilgang, heilsu, gleði, áhuga, nægjusemi, fullnægju og sköpunargáfu.
Þú ert skógarbóndinn. Þitt er að hnoða deigið, planta trjám. Hvaða hráefni velur þú?
Sérðu skóginn fyrir þér á Akureyri ef við veljum öll að planta trjám sjálfsuppbyggingar?
Gangi ykkur vel við skógræktina.