Þessa dagana stendur Akureyrarkirkja fyrir ungmennaskiptaverkefni með stuðningi frá Evrópu Unga Fólksins, styrktaráætlun Evrópusambandsins.
Sunnudagsmorguninn 22. júlí kom þessi 60 ungmenna hópur í Glerárkirkju til að taka þátt í mannréttindafræðsluverkefni
byggðu á verkefni úr Kompás - Handbók Evrópuráðsins í mannréttindafræðslu með ungu fólki.
Yfirskrift ungmennaskiptanna er "European Youth and the Icelandic Forces of Nature". Með í för er tæpur tugur leiðtoga sem halda utan um og skipuleggja
ungmennaskiptin undir forystu Sunnu Dóru Möller æskulýðsfulltrúa í Akureyrarkirkju og Ortwin Pfläging, sóknarprests frá Bochum í
Þýskalandi. Þátttakendur eru frá Finnlandi, Eistlandi, Þýskalandi og Íslandi. (Sjá einnig í frétt á kirkjan.is)
Meðal markmiða ungmennaskipta eru að læra um menningu annarra Evrópuþjóða og að hvetja ungt fólk til að skynja sig sem evrópskt,
en ekki eingöngu sem íslenskt, franskt eða pólskt o.s.frv. Í ungmennaskiptum er lögð mikil áhersla á óformlegt
nám. Með óformlegu námi er átt við að skipulagður rammi sé mótaður í dagskrá ungmennaskiptanna sem miðar að
því að ná fram markmiðum verkefnisins með óformlegum námsaðferðum. Þær aðferðir ganga út frá því
að virkja ungmennin í verkefninu til beinnar þátttöku ásamt því að meta síðan það sem þau hafa
lært. Dæmi um óformlegar námsaðferðir eru t.d. hópeflisleikir, hlutverkaleikir, ratleikir o.m.fl. Slíkir leikir verða þó ekki að
óformlegu námi fyrr en sest er niður að leik loknum og upplifunin metin og komið orðum að henni.
Til þess að ná fram settum markmiðum í ungmennaskiptaverkefni Akureyrarkirkju völdu skipuleggjendur meðal annars að nýta sér
aðferðir mannréttindafræðslu, en mannréttindafræðsla er nám og verkefni sem miða að því að skapa jafna virðingu fyrir
öllum mönnum, ásamt annars konar námi, svo sem því sem stuðar að fræðslu um mismunandi menningu og þátttöku í eflingu
minnihlutahópa (Opinber skilgreining í áætlun Evrópuráðsins um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk).
Markmið mannréttindafræðslu til langs tíma er að skapa menningu þar sem skilningur ríkir á mannréttindum og þar sem þau
njóta verndar og virðingar. Skilvirk mannréttindafræðsla er fyrst og fremst þátttakendamiðuð (nemendamiðuð): Hún verður að
miðast við þarfir, óskir, getu og væntingar hvers og eins.
Að þessu sinni varð verkefnið "Hvalveiðar Makah-ættbálksins" fyrir valinu úr þeirri verkefnaflóru sem finna má
í Kompás-bókinni. Í þessu verkefni er fjallað um umhverfismál, hnattvæðingu og almenn
mannréttindi og reynt að komast að samkomulagi um sjálfbæra nýtingu sjávarafurða og rétt frumbyggja til eigin menningar og þróunar.
Slíkri umræðu tengjast réttindi eins og rétturinn að taka þátt í menningarlífi, réttur þjóða til að
ráðstafa náttúruauðlindum sínum að vild og rétturinn til að þróa og nýta náttúruafurðir. Markmið verkefnis
er að skoða hvernig þetta allt getur stangast á. Um leið er unnið með viðhorf þátttakenda í átt að auknum skilningi hvað
menningu varðar og þá um leið að vinna gegn fordómum. Nánar er fjallað um verkefnið í myndbandinu hér fyrir neðan: