Dagurinn styttist óðum og skammdegið ræður ríkjum. Hátíð ljós og friðar er skammt undan. Aðventan er hafin. Margir farnir að
lýsa upp og skreyta híbýli sín með jólaljósum. Það er tilhlökkun í loftinu, jólaundirbúningur er að fara í
fullan gang. Jólagjafainnkaupin eru sjálfsagt byrjuð hjá mörgum og margir að reyna að uppfylla óskir.
En hvers vegna allt þetta umstang? Það eru ekki allir sem hafa ráð á dýrum gjöfum eða geta leyft sér einhvern munað um
hátíðarnar. Gleymum ekki okkar minnsta bróður, og því miður eru margir sem eiga erfitt, ýmist vegna einsemdar, hafa misst nákominn
ástvin eða hafa lítil fjárráð. Við verðum oft meyr og viðkvæmari um jólahátíðina, söknum og hugsum til
ástvina sem eru farnir. Verður meira einmana ef við eigum engan að og meira vonleysi þegar fjárráð eru lítil. Það er ósk mín
að við öll hugsum vel um hvert annað. Það þarf oft ekki mikið til að gleðja einhvern. Lítum til með þeim sem eru einmana og réttum
þeim sem eru þurfi hjálparhönd. Jólin eru hátíð kærleikans, ljóss og friðar. Þá gefst okkur tækifæri til
að sýna kærleik í verki.
Hugsum um það sem aðventan á að færa okkur og njótum hennar. Hún er undirbúningur fyrir jólahátíðina þar sem við
minnumst fæðingu Frelsarans, ljósi heimsins. Tökum á móti ljósinu. Í því felst von, birta og gleði. Hlutverk kirkjunnar er að
beina sjónum okkkar að ljósinu, hinu góða og bjarta.
Starfið í Glerárkirkju er mikið og gott og þangað eru alltaf allir velkomnir. Það er mín von, lesandi góður, að þú finnir
þann frið sem kirkjan getur boðið þér. Megi boðskapur jólanna færa okkur öllum frið og sanna gleði.
Gunnar Sturla Gíslason, formaður sóknarnefndar.
Pistillinn birtist í safnaðarblaði kirkjunnar í desember 2011.