Miðvikudagskvöldið 14. mars kl. 20:00 heldur sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir erindi í safnaðarsal Glerárkirkju sem nefnist: ,,Æðruleysi í
friðar og sáttarstarfi." Að erindi loknu ræðir hún efni kvöldsins við sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprest í Akureyrarkirkju.
Dagskráin er hluti af umræðukvöldaröð prófastsdæmisins og Glerárkirkju. Allir velkomnir, aðgangur ókeypis, tekið er á
móti frjálsum framlögum í kaffisjóð.
Yfirskrift samræðukvöldanna á vorönn 2012 er VEGUR TRÚARINNAR. Þetta er sjötta kvöldið af átta. Markmið kvöldanna er að skapa
vettvang til að ræða um andlegt líf og þýðingu þess fyrir trúað fólk, deila reynslu af vegferðinni og ræða saman um
hana.
Það er Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi í samstarfi við Glerárkirkju sem stendur fyrir samræðukvöldunum eins og undanfarin
misseri. Hvert kvöld hefst með helgistund og innleggi út frá Sæluboðun Meistarans í Fjallræðunni. Að loknu kaffihléi tekur
formælandi kvöldsins upp samtal við annan einstakling um efni kvöldsins. Það samtal leiðir svo inn í almennt samtal viðstaddra.
Á þessu sjötta kvöldi eru eftirfarandi spurningar lagðar til grundvallar:
- Hvernig gildismat elur trúin af sér?
- Er það verðmætamat sem snýst um fólk og náungann?
- Hvernig geta kristnir menn stuðlað að friði og sátt í nærumhverfi sínu sem og þar sem ófriður ríkir?
Nánar má fræðast um umræðukvöldin á vef
prófastsdæmisins.
Upptökur frá erindum fyrri kvölda eru aðgengilegar á einum stað á vef Glerárkirkju.