Af safnaðarstarfi á nýju ári

Frá helgiheik Barna- og Æskulýðskórs Glerárkirkju nú á aðventunni. Yndisleg og vel sótt stund í kirk…
Frá helgiheik Barna- og Æskulýðskórs Glerárkirkju nú á aðventunni. Yndisleg og vel sótt stund í kirkjunni.

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir.

Við mætum nýju ári með von og æðruleysi. Í upphafi Jósúabókar segir „Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast, því að Drottinn Guð þinn er með þér hvert sem þú ferð.“

Þessi orð hafa fylgt okkur í kirkjustarfinu undanfarna mánuði og gera það áfram þegar við tökum ákvarðanir um næstu skref hér í söfnuðinum.

Við erum bjartsýn á að vikulega starfið okkar geti hafist sem fyrst. Þátttakendur í hádegisstundum á miðvikudögum og kyrrðarbænastundum á þriðjudögum eru farnir að kalla eftir því að við komum saman í íhugun og bæn, enda er hvorutveggja mikilvægt verkfæri til að kyrra hugann og leita þess heilaga í hversdeginum.

Línurnar hjá okkur munu skýrast á komandi dögum, en það er ljóst að ekki verður hefðbundið guðsþjónustuhald í janúar, frekar munum við rifja upp gamla takta og nýta streymið.

Fermingarstarfið mun taka örlitlum breytingum til að mæta því hvað margir tímar féllu niður á haustmisseri vegna faraldursins. Í því og öðru starfi munum við áfram fylgja fyrirmælum yfirvalda varðandi barna- og æskulýðsstarf og fara að öllu með gát.

Við vitum að þetta ástand tekur enda, og ég hef fulla trú á því að mikið af okkar vikulega starfi verði komið af stað undir lok janúar eða byrjun febrúar.

Það er þó ekki aðeins veiran sem hefur áhrif á starfið hér innanhúss heldur eru ákveðnar breytingar á starfsmannahópnum. Halldóra Stefánsdóttir var á aðventunni ráðin til að sjá um eldhús kirkjunnar og safnaðarheimilið. Það þýðir að aftur verður hægt að bjóða upp á súpu á miðvikudagsstundunum og við erum afskaplega þakklát fyrir þessa viðbót í hópinn. Eins verða eftirfarandi breytingar á prestaskipan:

Vegna afleysinga við Akureyrarkirkju verður sr. Stefanía Steinsdóttir í leyfi frá Glerárkirkju fram á næsta haust.

Sr. Magnús Gunnarsson fyrrum sóknarprestur á Dalvík er kominn í hálfa stöðu við afleysingar hér á svæðinu og mun hafa starfsaðstöðu í Glerárkirkju. Hann kemur að helgihaldi og safnaðarstarfi kirkjunnar komandi mánuði.

Sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur mun létta undir hjá okkur í Glerárkirkju komandi mánuði og stíga inn í fermingarfræðsluna með mér og Eydísi Ösp, verkefnastjóra fjölskyldu-og fræðslumála kirkjunnar.

Sr. Þorgrímur Daníelsson sóknarprestur í Aðaldal mun áfram vera okkur innan handar og mögulega sjá um helgihald annað slagið fram á vorið.

Við í Glerárkirkju erum þakklát fyrir þennan góða hóp sem kemur að kirkjustarfinu okkar í vetur og hlökkum til að taka á móti ykkur í því fjölbreytta og góða safnaðarstarfi sem í boði verður.

Með góðum kveðjum úr Þorpinu
Sindri Geir Óskarsson
Sóknarprestur.