15.06.2010
Arna Ýrr Sigurðardóttir er nýr prestur í Glerárprestakalli. Innsetningarmessa hennar verður sunnudagskvöldið 20. júní kl. 20:30 en
þar mun sr. Hannes Örn Blandon prófastur setja hana inn í embætti. Vinir og velunnarar kirkjunnar eru hvattir til að mæta. Sr. Arna Ýrr mun predika og
þjóna ásamt sr. Gunnlaugi Garðarssyni sóknarpresti. Kór Glerárkirkju mun leiða sönginn í helgihaldinu undir stjórn organista
kirkjunnar, Valmars Väljaots. Að messu lokinni er boðið upp á kaffi í safnaðarsal.
Sr. Arna Ýrr er fædd og uppalin á Akureyri, gekk í Oddeyrarskóla og lauk stúdentsprófi frá MA. Hún vígðist sem prestur til
Raufarhafnar 20. ágúst 2000 og gegndi því embætti í sex ár, eða allt þar til það var lagt niður árið 2006.
Þá tók hún við starfi sem prestur í tveimur sóknum í Reykjavík, í Langholtssókn og Bústaðasókn, þar
sem hún starfaði við hlið sóknarprestanna. Hún er gift Elvari Árna Lund, sjávarútvegsfræðingi og eiga þau tvo syni, Níels
Árna, 5 ára og Benedikt Árna 2 ára. Fyrir á sr. Arna, Loga sem er 22 ára. Aðspurð segist sr. Arna Ýrr hlakka mikið til að koma til
starfa í söfnuðinum og ekki skemmir fyrir tækifærið að fá að starfa sem prestur í sínum heimabæ.