Næstkomandi sunnudag, 24. júní, vígir Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Viðstaddir verða biskupar frá öllum Norðurlöndunum auk fjögurra biskupa frá Bretlandseyjum. Athöfnin sem fer fram í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti í Reykjavík hefst kl. 14:00 og er öllum opin. Eins og alþjóð er kunnugt er sr. Agnes fyrsta konan til að taka biskupsvígslu á Íslandi.
Agnes er fædd á Ísafirði þann 19. október árið 1954. Foreldar hennar eru sr.Sigurður Kristjánsson, sóknarprestur á Ísafirði og prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi, nú látinn, og Margrét Hagalínsdóttir, ljósmóðir. Börnin hennar eru þrjú, með Hannesi Baldurssyni; dr. Sigurður, stærðfræðingur, Margrét, hagfræðingur og söngnemi og Baldur háskólanemi. Barnabarnið er eitt, ömmudrengurinn Hannes Freyr Berg Baldursson.
Agnes lauk cand.theol. prófi frá guðfræðideild HÍ árið 1981. Þann 20. september árið 1981 vígðist hún til prests og tók þá við embætti æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar. Því starfi gegndi hún í fimm ár þar sem hún kom meðal annars að gerð fræðsluefnis og tók virkan þátt í samstarfi við kirkjur á Norðurlöndunum á sviði æskulýðs- og fræðslumála. Á sama tíma sinnti hún einnig skyldum við Dómkirkjuna í Reykjavík. Árin 1986-1994 var Agnes sóknarprestur í Hvanneyrarprestakalli í Borgarfirði. Síðastliðin 17 ár hefur hún verið sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli og prófastur á Vestfjörðum frá árinu 1999. Auk þessa hefur hún gengt ýmsum trúnaðarstörfum innan Kirkjunnar, meðal annars setið í stjórn Prestafélags Íslands, siðanefnd sama félags, nefnd um starfsþjálfun guðfræðinga, synodalnefnd um vörslu kirkjueigna auk þess sem að sr. Agnes var formaður stjórnar Friðarsetursins í Holti (sjálfseignarstofnun).
Árið 1997 dvaldist sr. Agnes í Uppsala í Svíþjóð þar sem hún las prédikunarfræði við Háskólann þar í borg undir handleiðslu Bo Larsson. Árið 2006 stundaði sr. Agnes rannsókn á félagsmótun prestbarna árið og sótti námskeið í HÍ í tengslum við hana. Þá má geta þess að árin 1963-1976 stundaði hún píanónám og fræðigreinar því tengdar auk þess sem að hún nam pípuorgelleik í einn vetur.