Þessa vikuna er þemavika fermingarbarna í Glerárkirkju. Í boði er fjölbreytt dagskrá sem vert er að kynna sér.
Þriðjudaginn 31. janúar hefst þemavika fermingarbarna. Þetta er fjórða árið sem við í Glerárkirkju bjóðum upp á
slíka viku. Hún er aukatilboð til þeirra sem hafa tíma og áhuga, fermingarfræðslan er óbreytt á sínum stað þessa
viku.
Dagskráin er fjölbreytt og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sumir hafa kannski mikinn tíma og áhuga og mæta á allt
sem í boði er, aðrir velja jafnvel bara eitt atriði. Slíkt verður hver og einn að ákveða sjálfur. Okkur í Glerárkirkju þykir
vænt um ef foreldrar aðstoða fermingarbörnin við að skipuleggja tíma sinn þessa vikuna þannig að þeim sé kleift að sækja
a.m.k. einn viðburð.
Þema vikunnar er ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra." Þemanu er
ætlað að fá okkur öll, jafnt presta, djákna, organista, fermingarbörn, foreldra og aðra sem í kirkjuna koma, til að velta vöngum yfir
því hvernig samfélagi við viljum búa í, sérílagi hvernig við viljum að fólk komi fram hvert við annað.
Hér fyrir neðan eru helstu upplýsingar um dagskrána. Athugið að það þarf að skrá þátttöku í
hádegisverði á sunnudeginum fyrir fimmtudagskvöld á netfangið petur@glerarkirkja.is.
HVAÐ? Listasmiðja - Hópurinn málar listaverk beint á vegg í forstofu á neðri hæð safnaðarheimilisins.
HVENÆR? Þriðjudagur 31. janúar, kl. 16:30 til 18:30.
HVAR? Neðri hæð kirkjunnar.
HVER? Öll fermingarbörn vorsins 2012 sem vilja taka þátt í að gera hóplistaverk.
HVERS VEGNA? Safnaðarheimilið er sameign okkar allra. Þetta er táknrænn gjörningur sem minnir okkur á það. Auk þess verður verkið
augnayndi fyrir alla sem koma í þessa forstofu og mun það minna á þema vikunnar, því verkið er vegprestur með góðum
óskum.
HVAÐ? Danssmiðja - Vakinn er áhugi á dans, talað um dans, dansar dansaðir, ný skref prufuð.
HVENÆR? Miðvikudaginn 1. febrúar kl. 16:30 til 18:30.
HVAR? Í safnaðarsal kirkjunnar.
HVER? Öll fermingarbörn vorsins 2012 sem vilja kynna sér dans, pæla í dansi, hafa gaman af dansi.
HVERS VEGNA? Lífið getur verið gleðidans, það getur verið gott að dansa og hreyfa sig, velta fyrir sér hvernig maður vilji verja tómstundum
sínum. Þá brýtur dansinn oft feimnismúra og hjálpar okkur til að verða vinir.
HVAÐ? Leiklistarsmiðja - Hópurinn æfir sig í leikrænni tjáningu og spuna, prufar sig áfram með hraðar og hægar líkamshreyfingar,
orð, hróp, köll, þögn, leiki, list. Um leið kynnast þátttakendur og undirbúa sig fyrir starfið í leiklistarsmiðju sunnudagsins sem er
framhald á þessari smiðju.
HVENÆR? Föstudaginn 3. febrúar kl. 16:30 til 18:30.
HVAR? Í safnaðarsal kirkjunnar.
HVER? Öll fermingarbörn vorsins 2012 sem hafa áhuga á því að æfa sig í leiklist og taka þátt í að flytja
örþátt í guðsþjónustu á sunnudagskvöldinu.
HVERS VEGNA? Það að tjá sig er æfing. Sumum hjálpar leiklistin, spuninn og leikræna tjáningin til þess að æfa sig í að
tjá sig. Þessi leiklistarsmiðja er líka hluti af þeim undirbúningi sem fermingarbörn taka þátt í vegna helgihalds sunnudagsins 5.
febrúar.
Dagskrá sunnudagins er auglýst sérstaklega á vef kirkjunnar og mun sú auglýsing líka birtast í N4 skránni. Endilega kynnið ykkur
málið.
Smellið hér til að skoða eldri frétt um dagskrána. -
Smellið hér til að skoða auglýsingu sunnudagsins.