Á síðasta ári kom út ritið Þjónusta í síbreytilegu samhengi, íslensk þýðing á Diakonia in Context sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu árið 2009. Markmiðið með þýðingunni er að efni um þjónustuna, díakoníuna, sé aðgengilegt fyrir allt áhugasamt fólk um kirkjulegt starf meðal samborgara okkar. Miðvikudagskvöldið 13. febrúar verður umræðukvöld í Glerárkirkju þar sem hluti þessa rits er lagður til grundvallar umræðunni. Framsögu flytur Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og verkefnisstjóri á Biskupsstofu.
Dagskráin hefst kl. 20:00 með helgistund í kirkjunni í umsjón Péturs Björgvins Þorsteinssonar, djákna. Þar fá þátttakendur tækifæri til að kynnast notkun bænabandsins. Að helgistund lokinni er gengið í safnaðarsalinn og hlýtt á erindi Ragnheiðar. Erindi sitt byggir hún meðal annars á bls. 29, 42-44 og 61 til 62 úr fyrrnefndu riti sem er aðgengilegt hér á vefnum.
Fræðslukvöldið er hluti af átta kvölda dagskrá á vegum Starfs- og leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju. Fræðast má nánar um kvöldin með því að smella hér.
Sem fyrr eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Um níuleytið er gert kaffihlé. Tekið er á móti frjálsum framlögum í kaffisjóð. Dagskrá lýkur ekki seinna en klukkan 22:00.