Hátíðardagskrá í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju hefst formlega föstudagskvöldið 7. desember kl. 20:00 með opnun sýningar á verkum handverkskonunnar og ljósmyndanemans Díönu Bryndísar. Díana Bryndís alias Mamma Dreki leggur stund á nám í ljósmyndun við New York Institute of Photography en er búsett í dag ásamt fjölskyldu sinni norðan ár á Akureyri.
Að eigin sögn hefur hún lengi haft áhuga á ljósmyndun og verið að leita leiða til að lyfta þeim upp, gefa þrívíddinni í þeim aukið rými og sýnileika. Á meðan á námi hennar í VMA stóð (en hún er stúdent af listnámsbraut) komst hún í kynni við ýmsa tækni sem hún notar í dag við vinnslu á ljósmyndum sínum. Ljósmyndirnar vinnur hún á ýmiss efni, t.d. grófan hör eða fínan bómull og beitir svo mismunandi aðferðum til þess að ná upp þrívíddinni í verkum sínum.
Hér til vinstri má sjá eina af þeim 16 myndum sem verða til sýnis í anddyri kirkjunnar en sjálf talar Mamma Dreki um að þetta sé hennar uppáhalds sjálfsmynd, því að ef vel er að gáð sést hvernig ljósmyndarinn speglast í augum barnsins. Í þessu verki valdi listakonan að sauma út í auga barnsins og gefa þannig spegilmynd listakonunnar aukið vægi í verkinu.
Sýning Díönu Bryndísar er opin alla virka daga í Glerárkirkju frá 11:00 til 16:00 fram í febrúar 2013 auk þess sem hægt er að skoða verkin þegar aðrir viðburðir eiga sér stað í Glerárkirkju. Einnig hefur kennurum í skólum norðan ár á Akureyri verið sent bréf þar sem þeim er boðið að koma og skoða sýninguna með nemendum sínum og að sjálfsögðu eru nemendahópar úr öðrum skólum einnig velkomnir, en Díana Bryndís er mörgum nemendum kunn þar sem hún er ein þeirra sem leiðbeina á handverksnámskeiðum fyrir grunnskólabörn í Punktinum á Akureyri.
Sem fyrr segir markar opnun sýningar Díönu Bryndísar formlegt upphaf að afmælisdagskrá Glerárkirkju. Við það tækifæri mun Gunnhildur Helgadóttir, formaður afmælisnefndar flytja ávarp. Að því loknu gefst gestum tækifæri á að skoða sýningu Mömmu Dreka auk þess sem kvenfélagið Baldursbrá verður með veitingar á vægu verði í safnaðarsalnum þar sem lifandi aðventutónlist gleður sýningargesti.
Smellið hér til að skoða dagskrá í tilefni af 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju.
Sýningarskrá (PDF-skjal)
Díana Bryndís hefur stofnað viðburð á Facebook í kringum sýninguna. Þau sem eru notendur á Facebook geta smellt hér til að skoða þá síðu og deila viðburðinum með öðrum.