Can‘t help falling in love! - Þessi klassíski ástaróður í flutningi Presley hringómaði í andyri og á göngum kirkjunnar í dag, starfsfólkið getur vottað að lagið er þeim töfrum gætt að ekki er hægt að fá leið á því.
Tilefnið voru drop-in athafnirnar og sú stemning ástar og einlægni sem sveif yfir hér í húsi þegar pör, börn þeirra, vinir, foreldrar og aðrir fylgifiskar komu til að eiga hér fallegar og látlausar athafnir. Hjón dagsins voru á öllum aldri en áttu það flest sameiginlegt að hafa ætlað að láta af þessu verða í einhvern tíma en ekki fundið rétta daginn. Því var upplagt að láta slag standa.
Eftir athafnirnar staldraði fólk við, skálaði í Töst, lék sér í myndabásnum og nýgiftu hjónin fengu brúðkaupstertu með sér heim. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið frábær dagur.
Prestar Akureyrarkirkju og Glerárkirkju stóðu saman að stundinni og þegar upp er staðið gáfum við saman og báðum Guðs blessunar yfir 16 pörum í dag.
Það er ljóst að það þarf að endurtaka leikinn að ári, svo þið sem misstuð af getið tekið frá 14.feb 2026.