Næsta málþing um fátækt á miðvikudaginn 12. mars kl. 20

Fyrsta málþingið um mannréttindi og réttlæti er nú hægt að skoða hér á vefnum. Hugvekja sr. Örnu Ýrr Sigurðardóttur, prests í Glerárkirkju, og erindi Margrétar Steinarsdóttur, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands. Næsta miðvikudag 12. mars kl. 20 mun Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimilia Akureyrar, fjalla um fátækt og misskipting auðs. Hann er einn af höfundum skýrslunnar Farsæld sem nálgast má að vef Hjálparstarfs kirkjunnar á help.is. Hana má nálgast hér. Spurningarnar sem hann mun fást við eru: 

  • Hvernig skilgreinum við fátækt?
  • Er fátækt óumflýjanleg?
  • Hvernig berjumst við gegn misskiptingu í samfélaginu?
Ragnheiður Sverrisdóttir djákni mun vera með hugvekju í upphafi þar sem komið verður inn á trúarlega þætti varðandi fátækt en jafnframt mun hún koma inn á framkvæmdinni á Jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Þá mun fulltrúar frá stjórnmálaflokkum á Akureyri taka þátt í pallborðsumræðum en dr. Hjalti Hugason leiðir umræðurnar.
 
Efni frá síðasta miðvikudegi 5. mars um Mannréttindi og réttlæti má skoða hér.
 

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir flutti hugvekju um mannréttindi og réttlæti.

Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir gekk út frá réttlætisvitund barnsins í hugvekju sinni eftir að hafa lesið sæluboðun Jesú í Fjallræðunni. Hún benti á að réttlætið væri eitt af stóru viðfangsefni manneskjunnar og hvernig við sköpun réttlátt samfélag og umgöngumst hvert annað. Hún benti á að mikið er talað um réttlæti í Biblíunni.  Spámenn Gamla testamentisins hefðu verið samfélagsrýnar síns tíma. Vitnaði hún í spámanninn Sakaría í því sambandi:

9... Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
10Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar. (Sak. 7, 9-10)

Forsendan sem Biblían gefur er sú að Guð sé réttlátur og gerir þá kröfu til manna. Réttlætið er ástand sem menn eiga að stefna að, Guðs ríki. Réttlætið felur í sér frið, velgengni og heilbrigði. Og að ekkert skyggi á tengsl manna á milli og tengsl þeirra við Guð.

Jesús endurspeglar þessar áherslur í Fjallræðunni. Raunverulegt réttlæti gengur inn í heim synda og illsku til þess að lækna og endurreisa tengsl. Jesús ætlast til þess að menn ástundi réttlætið með gullnu reglunni: "Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra." Þetta er verknaðarregla sem kallar okkur til framkvæmda, ekki aðeins að láta eitthvað ógert.

En hann gengur lengra. Mælikvarðinn er ekki við sjálf eins og gullna reglan gerir ráð fyrir heldur að við eigum að elska Guð og náungann, sem felur í sér mælikvarða annan en við sjálf. Það leiðir til auðmýktar og virðingar gagnvart öðrum, umhverfinu og sjálfum sér. Hún vildi líta á Jesús sem mannréttindafrömuð. Allur hans boðskapur gekk út á það að hver einasta manneskja hefur grundvallargildi sem enginn má fótum troða.

Að lokum vísaði hún aftur til reynslunnar af óréttlæti. Í sumum tilfellum gerum við okkur ekki grein fyrir þeim órétti sem við beitum og við lítum mismunandi augum á málin. Þess vegna er samræðan mikilvæg, bæði að hlusta á aðra og vilja til að breyta og það er ástæða þess að boðað er til þessa málþings ef það mætti verða til að bæta samfélag okkar, að það verði réttlátara.

 Margrét Steinarsdóttir flutti erindi um mannréttindi og réttlæti

Í erindi sínu gerði Margrét grein fyrir mannréttindum almennt en í síðara hluta erindisins fékkst hún við efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Hún skilgreindi mannréttindi út frá Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna:

“Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.”

Þau fjalla um mannlega reisn. Eru réttindi sem menn eiga á þeim eina grundvelli að vera manneskjur, meðfædd, óafsalanleg, ódeilanleg, háð innbyrðis og samtvinnuð. Þau eru algildar reglur, gilda fyrir alla, alls staðar. Það er skylda stjórnvalda sem aðilar eru að sáttmálanum um mannréttindi að fylgja þeim eftir en ekki einstaklinga.

Margrét greindi á milli annars vegar borgaralegra og stjórnmálalegra mannréttinda sem fjallað er um í 1-21. greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar, og hins vegar efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda sem fjallað er um í 22-28. greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þetta er reyndar mjög umdeild aðgreining og réttindin samtvinnuð.

Hún rakti rætur mannréttinda til frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar sem kom í kjölfar frönsku byltingarinnar og mannréttindayfirlýsingar Bandaríkjanna. En eftir hörmungar síðara heimsstyrjaldarinnar hafi Sameinuðu þjóðarnar verið stofnaðar á grundvelli þessara hugmynda sem hún taldi tæmandi talningu í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Þá fór hún í þau vandkvæði og áherslumun sem hefði komið fram við gerð bindandi mannréttindasáttmála og í umræðunum var það tekið til umfjöllunar að sumar þjóðir hafa ekki skuldbundið sig og aðrar telja mannréttindi menningarbundin. Þá fjallaði hún um þrjár kynslóðir mannréttinda og tók mörg raunveruleg dæmi þegar hún fjallaði um framkvæmd mannréttindi í raun eftir efnahag þjóðanna t. d. þegar tímabundin kreppa hefur takmarkað möguleika þjóða að framfylgja efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, en óháð efnahag ber stjórnvöldum að tryggja grundvallarmannréttindi.

Pallborðsumræður með fulltrúum stjórnmálaflokkanna

Fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum á Akureyri voru í pallborðsumræðum sem dr. Hjalti Hugason, guðfræðingur, leiddi. Það voru þau Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum, Preben Pétursson, fyrir Bjarta framtíð en hann skipar 3. sæti hjá þeim, Logi Einarsson, sem skipar 1. sæti fyrir Samfylkinguna, Sólveig Björk Stefánsdóttir, 1. sæti hjá Vinstri-grænum, og Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-listans og formaður bæjarráðs.  Umræðurnar snérust um nauðsyn þess að móta samfélagið eftir mannréttindum, spurt var hvort mannréttindabrot ættu sér stað á Íslandi, hvernig mannréttindi væru í framkvæmd á sveitarstjórnarstíginu en undir lokin var rætt um alþjóðlega vídd þeirra t.d. um rétt til vatns. Hér má hlusta á umræðurnar á hljóðskrá.

Hljóðskrá: Umræða um mannréttindi og réttlæti