Þann 19.nóvember verður Eydís Ösp Eyþórsdóttir, verkefnastjóri fjölskyldu- og fræðslumála Glerárkirkju, vígð til djákna í Hóladómkirkju. Það eru gleðileg tíðindi þegar djáknar vígjast til þjónustu því þessi fámenna en mikilvæga fagstétt innan kirkjunnar hefur það hlutverk að sinna kærleiksþjónustu innan safnaðarins.
Hvað gera djáknar?
Kærleiksþjónusta er í raun náungakærleikur í verki, birtingarmyndirnar því ótalmargar og auðvitað er það eitt af kjarnaverkefnum hverrar kirkju. Í Glerárkirkju hafa starfað djáknar frá árinu 2005, þá var Pétur Björgvin Þorsteinsson ráðinn til safnaðarins, árið 2013 kom Ragnheiður Sverrisdóttir til starfa sem djákni við kirkjuna og árið 2014 var Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir vígð til djáknaþjónustu við Glerárkirkju.
Sú kærleiksþjónusta sem djáknar kirkjunnar hafa sinnt hefur tengst barna- og æskulýðsstarfi, eldriborgarastarfi, fræðslu og hjálparstarfi kirkjunnar.
Hver er nýi djákninn okkar?
Eydís Ösp Eyþórsdóttir lauk BA prófi í félagsráðgjöf frá HÍ og tók svo viðbótardiplómu í djáknafræðum frá Guðfræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem svæðisstjóri KFUM&K á Akureyri, setið í stjórn sumarbúðanna Hólavatns, í stjórn KFUM&K á Akureyri, í stjórn Sorgarsamtakanna Samhygðar og leitt stuðningshópastarf á þeirra vegum. Hún er í viðbragðshópi Rauðakrossins á Akureyri, auk þess sem hún hefur verið starfsmaður Hjálparstarfs Kirkjunnar undanfarin ár samhliða því að gegna stöðu verkefnastjóra fjölskyldu- og fræðslumála við Glerárkirkju.
Eydís Ösp býr í Hörgársveit ásamt manni sínum, Hjalta Steinþórssyni og fjórum börnum.
Verið velkomin til vígslunnar!
Vígslan fer fram kl.14:00 þann 19. nóvember við hátíðarguðsþjónustu í Hóladómkirkju í tilefni af 260 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Hr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum leiðir athöfnina en vígsluvottar verða sr. Helga Bragadóttir, sr. Magnús M. Gunnarsson, sr. Oddur Bjarni Þorkelsson og sr. Guðmundur Guðmundsson. Þar sem starfandi prestar Glerárprestakalls verða við athöfnina er viðbúið að einhver breyting verði á auglýstu helgihaldi hjá okkur, við auglýsum það þegar nær dregur.
Vígsluathöfnin og hátíðarguðsþjónustan er öllum opin og hvetjum við áhugasamt fólk í sókninni til að gera sér ferð á Hóla til að taka þátt í stundinni.
Við vitum og trúum því að þetta verði til blessunar fyrir kirkjustarfið hér í þorpinu.
Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur.