Heil og sæl!
Þetta bréf er sent á þau í 2011 árganginum í Glerárþorpi sem skráð eru í þjóðkirkjuna til að kynna fermingarfræðsluna hjá okkur í Glerárkirkju.
Sum ykkar eru búin að taka ákvörðun um það hvort þið ætlið að fermast hér í kirkjunni á næsta ári, önnur eru kannski ekki viss. Það er allt í góðu lagi að taka sér tíma í að velta þessu fyrir sér og það sem meira er þá er allt í lagi að taka þátt í fræðslunni hjá okkur þótt þú sért ekki viss um það hvort þú viljir fermast.
Upphaf fræðslu
Við stefnum á að byrja með fræðsludögum í vikunni áður en skólinn hefst í ágúst.
Mánudagurinn 12.ágúst – Glerárskóli kl.13:00-15:00
Þriðjudagurinn 13.ágúst – Síðuskóli kl.13:00-15:00
Miðvikudagurinn 14. ágúst – Giljaskóli kl.13:00-15:00
Við viljum hafa þetta skólaskipt en ef einhver komast ekki með sínum skóla eða vilja frekar mæta með öðrum skóla er velkomið að koma þann dag sem hentar best.
Þarna er markmiðið að kynnast hópnum og leyfa þeim að kynnast kirkjunni og okkur sem verðum með fræðsluna, við förum í leiki og skoðum fræðsluefni vetrarins.
Fermingarfræðslan
Í september hefst svo hefðbundin fræðsla og lykilorðin hjá okkur verða fjarfræðsla og val.
Þrjá þriðjudaga fyrir áramót og þrjá eftir áramót er gert ráð fyrir að þau mæti í fræðslu.
Tvo laugardaga á hvoru misseri verður vinnustofa (workshop) með krökkunum og þau velja hvorn laugardaginn þau mæta á, sem sagt einn á hvoru misseri.
Þá verða þrjár valfrjálsar þriðjudags fræðslustundir á hvoru misseri sem þau taka aðeins þátt í ef þau vilja og hafa áhuga á.
Auk þess fá þau myndbönd og biblíusögur heim sem þau horfa á og svara spurningum í verkefnahefti.
Næsta vor er gert ráð fyrir ferð á Hólavatn með þau úr fermingarhópnum sem vilja.
Endanlegar dagsetningar á fræðslu vetrarins munu liggja fyrir í byrjun ágúst.
Í fræðslunni vinnum við með kristna trú og lífsgildi, hvað það er sem skiptir okkur máli í lífinu, hvernig samfélag við viljum skapa og megin fræðsluefnið okkar er unnið út frá hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði. Við munum kynnast íhugun og bæn, gömlu góðu biblíusögunum og markmiðið með fermingarfræðslunni er auðvitað að gefa grundvöll til að geta tekið upplýsta ákvörðun þegar það kemur að fermingunni.
Fermingardagar í Glerárkirkju vorið 2025 eru:
13.apríl – pálmasunnudagur kl.11:00
3.maí – laugardagur kl.10:30 og kl.13:00*
17. maí – laugardagur kl.10:30 og kl.13:00*
25.maí – sunnudagur kl.11:00
*með þeim fyrirvara að ef báðar stundir eru fámennar verður þeim slegið saman í eina athöfn kl.11:00
Þið getið farið að velta fyrir ykkur hvaða dagur hentar ykkur best – það er hægt að ferma 22 börn í hverri athöfn. Skráning í fermingarfræðslu og á fermingardaga hefst 3. maí inni á glerarkirkja.is
Facebook hópur fyrir foreldra og forráðamenn
Við reynum að vera í góðu tölvupóstssambandi við foreldra og forráðamenn yfir veturinn, en það hefur líka reynst vel að nýta Facebook til þess, því hvetjum við ykkur til að finna hópinn „Fermingarhópur Glerárkirkju 2025“ og sækja um aðgang að honum.
Smá fundur og spjall 28.apríl kl.12:00
Tilvonandi fermingarbörn og foreldrar/forráðamenn eru velkomin á fund hér í kirkjunni
eftir messu þann 28.apríl – um er að ræða stuttan fund þar sem við förum yfir
skipulag fræðslunnar og svörum spurningum.
Messan er kl. 11:00 og má reikna með að fundur hefjist í framhaldi af henni. Þið eruð auðvitað velkomin til messu til að leyfa krökkunum að fá smá tilfinningu fyrir því sem við erum að gera komandi vetur.
Allar upplýsingar um fermingarfræðsluna og fermingarnar verða undir hnappinum „Fermingar“ á heimasíðunni okkar, glerarkirkja.is. Þær upplýsingar sem hér koma fram um skipulag fræðslu eru birtar með fyrirvara um mögulegar breytingar.
Bestu kveðjur
Sindri, Helga og Eydís í Glerárkirkju.