Fjórar leiðir til að nálgas Guð. Lestur, hugleiðsla, íhugun og bæn

Á síðustu áratugum hefur orðið mikil endurnýjun á alls konar andlegri iðkun bæði innan kirkju og í samfélaginu almennt. Fjölbreytileikinn er mikill. Bænaikun og hugleiðsla í klaustrum hefur verið gerð aðgengileg fyrir almenningi sem dæmi má nefna Kyrrðarbænina. Sumir hafa farið í ferðalag milli þessara hefða og ein þeirra er Anna Ramskov Laursen, prestur í Noregi, sem hefur skrifað bók um kynni sín af mismunandi aðferðum, Veier til helhet. Verður fjallað um nokkrar þeirra á námskeiðinu. 

Námskeiðið verður á miðvikudagskvöldum í Glerárkirkju í október kl. 20-21:30. Námskeiðið er byggt þannig upp að fyrst er innlegg, þá samtal milli leiðbeinenda um reynslu þeirra yfir kaffiveitingum og almennar umræður. Kvöldin enda svo með iðkun aðferðarinnar sem kennd hefur verið.

Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu í boði kirkjunnar og prófastsdæmisins en þeir sem áhuga hafa er beðnir að skrá sig í netfangið glerarkirkja@glerarkirkja.is eða gudmundur.gudmundsson@kirkjan.is eða í síma 464 8800 milli kl. 11-12 eða 897 3302 hjá Guðmundi eftir kl. 15.  Tekin eru frjáls framlög fyrir kvöldkaffinu. Allir eru hjartanlega velkomnir öll kvöldin eða einstaka kvöld.

Miðvikudaginn 9. október

Bænahendur yfir Bibliu, Dürer

Lestur – Lectio Divina – Andlegur lestur

Leiðbeinandi: María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir

Biblíuna er hægt að lesa á margan hátt sem sagnfræði eða bókmenntir en sú aðferð sem verður kynnt þetta kvöld snýst um að hlusta á Guð í bæn. Þetta er aldagömul hefð og stundum hefur verið talað um að “jortra” á orði Guðs og fara þannig með það út í daglegt líf. Lectio divina mætti þýða sem andlegan lestur. Einnig verður aðferð Ignatiusarhefðarinnar kynnt sem svipar til andlegs lesturs þar er áherslan á að lifa sig inn í textann með hugmyndarflugi. Jesúbænin er biblíuleg bæn sem einnig verður fjallað um.

 

 

Miðvikudaginn 16. október

Þrenningin eftir Rublev

Hugleiðsla – Meditatio
– Heimfærsla á lífið

Leiðbeinandi: Guðmundur Guðmundsson

Annað kvöldið verður lögð áhersla á heimfærslu Guðs orðs á daglegt líf. Orðin hugleiðsla í kristinni trúarhefð hefur verið notað um að hugleiða orð Guðs og tileinka sér það meðan íhugun er meira orðalaust samband við Guð. Heilög þrenning er miklu meira en kenning í kristinni túarhefð. Íkon Rublevs er myndræn framsetning á hvernig þríeinn Guð býður fólki til samfélags við sig. Íkonin verður skoðaður með það í huga. Aðferðin sem verður kennd þetta kvöld er Bænaband Lönnebo, sem var sænskur biskup og listamaður. Það er hugleiðing sem rammar inn daglegt líf á hlutlægan hátt.

Miðvikudaginn 23. október

Kyrrðarbæn

Íhugun – Contemplatio
– Innra líf

Leiðbeinandi: María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir

Þriðja kvöldið verður áhersla á innra líf. Hin orðlausa bæn er ein leið kristinnar íhugunar, þegar hugurinn hljóðnar og hjartað tekur við. Kyrrðarbænin, Centering Prayer, er sú leið sem hvað best hefur verið kynnt hérlendis síðustu árin. Hún miðar að því að leyfa nærveru Guðs að verka innra með okkur og býður upp á einfaldar leiðbeiningar sem hjálpa okkur á þeirri vegferð.

 

 

Miðvikudaginn 30. október

Lúther á bæn, viðarrista

Bæn – Oratio – Bæn fyrir sjálfum sér og öðrum

Leiðbeinandi: Guðmundur Guðmundsson

Síðasta kvöldið verður áhersla á þjónustu við aðra. Þá verða aðferðirnar dregnar saman í meginatriðið að kristin bænaiðkun byggist á tengslum við Guð, menn og náttúru. Bæn er skilgreind sem ákall til Guðs í neyð en hefur að geyma aðra djúpar tilfinningar eins og gleði, angist og þakklæti. Í trausti til Guðs tengjast manneskjur Guði og Guð þeim. Skoðaðar verða bænir í sálmabókum, bænabókum og víðar sem sýna þessi tengsl og hvernig má rækta þau út af fyrir sig og með öðrum.