Þriðjudaginn 6. nóvember munu fermingarbörn Glerárkirkju ganga í hús í hverfinu til þess að safna fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Krakkarnir fengu kynningu um þróunaraðstoð og hjálparstarf í fræðsluferðum á Löngumýri og nú eru þau hvött til að ganga í hús og vonumst við til þess að íbúar í sókninni taki þeim vel. Á foreldrafundum í lok október verður bréfum varðandi þetta dreift til foreldra, en bréfið er birt hér líka til upplýsingar.
Kæru foreldrar og forráðamenn fermingarbarna.
Meðal þess sem fermingarbörnin fengu að kynnast í ferðinni á Löngumýri var þróunar- og hjálparstarf á vegum þjóðkirkjunnar og þar á meðal Glerárkirkju. Við njótum samstarfs við starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefur útbúið efnið sem við notum, myndir og upplýsingar um líf munaðarlausra barna í Úganda í Afríku. Fermingarbörnin fengu að kynnast erfiðleikum sem þau glíma við. Við ræddum ábyrgð okkar á því að allir jarðarbúar fái lifað mannsæmandi lífi.
Nú er ætlunin að fermingarbörnin gangi í hús og safni framlögum til verkefna sem kynnt hafa verið. Mörg hafa reynslu af því að ganga í hús úr íþrótta- og félagsstarfi. Fyrir söfnunina fá þau leiðbeiningar frá okkur um framkomu, öryggi og að gleyma ekki að vera vel klædd. Þau fara alltaf tvö og tvö saman. Ykkur foreldrum er velkomið að ganga með þeim og við þiggjum gjarnan aðstoð við að koma þeim af stað með baukana og taka á móti þeim aftur hér í kirkjunni. Það væri vel þegið.
Söfnunardagur okkar hér í 603 Akureyri er þriðjudagurinn 6. nóvember. Þeir krakkar sem eru í fermingarfræðslu þann dag geta tekið baukana með sér að fræðslu lokinni, aðrir sækja bauka (muna tvö og tvö saman eða fermingarbarn með foreldri/systkini) milli kl. 15:00 – 17:00. Við vonumst til að fá sem flesta sjálfboðaliða í þetta verkefni. Baukunum á svo að skila til baka í kirkjuna milli 20:30 og 21:30 og verður þá boðið upp á smá ”kvöldkaffi”.
Við teljum að þessi blanda fræðslu og verklegrar þátttöku geri fermingarbörnunum frekar kleift að upplifa boðskap Krists á áþreifanlegan hátt. Hér skapast mótvægi við síbylju neikvæðra frétta og tækifæri til að skynja að öll getum við lagt eitthvað af mörkum. Á unglingsárum þegar skilningur vex og ungt fólk er að móta sér lífsstíl er mikilvægt að fá að setja sig í samhengi við aðra í heiminum og skynja kraft sinn til þess að breyta rétt og hafa áhrif. Um leið metum við meira þá gæfu sem við njótum hér á Íslandi.
Verkefni þetta var fyrst unnið fyrir fjórtán árum og gafst mjög vel. Fermingarbörn meira en 60 sóknum um land allt taka þátt nú. Við vonum að þið takið undir með okkur í þessu, ræðið við og hvetjið börnin ykkar.
Með bestu kveðjum úr Glerárkirkju
Prestar og starfsfólk kirkjunnar.