Á haustönn 2014 stendur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi í samstarfi við Glerárkirkju fyrir samræðukvöldum eins og undanfarin misseri. Tilgangurinn með þeim er að skapa vettvang til samtals um kirkju og kristni og er öllum sem áhuga hafa velkomið að taka þátt í samtalinu. Fræðslukvöldin eru á miðvikudagskvöldum kl. 20:00 - 22:00. Að loknu inngangserindi málshefjanda er kaffihlé og síðan taka við umræður og eru þátttakendur hvattir til virkrar þátttöku, þó vissulega sé líka velkomið að sitja hljóður og hlusta.
Í október og nóvember verður viðfangsefnið: Leiðsögn um Nýja testamentið.
Fræðslukvöldin eru samstarfsverkefni Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju. Umsjón með kvöldunum hafa sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur og Jón Ómar Gunnarsson, prestur í Glerárkirkju. Aðgangur er ókeypis, óþarfi að skrá sig og velkomið að sækja stök kvöld en fólk hvatt til að mæta eins oft og það hefur tök á. Hin síðustu ár hafa konur og karlar úr hinum ýmsu söfnuðum, trúað fólk og efasemdamenn, ungir og gamlir, já fólk af öllum gerðum sótt fræðslukvöldin í Glerárkirkju og vonumst við til þess að hópurinn í vor verði litríkur og fjölbreyttur. Gaman væri að sjá þig í þeim hópi!