Nú erum við skriðin inn í vorið og ekki seinna vænna að horfa til ferminga 2026. Hér að neðan er bréf sem við sendum í bréfpósti á öll börn fædd 2012 sem eru í félagatali okkar í Glerárkirkju, þ.e. börn sem eru skráð í þjóðkirkjuna. Ef þitt barn fékk ekki bréf mæli ég með að skoða trúfélagaskráninguna á island.is.
Sama hvort þið eruð í kirkjunni eða ekki eruð þið velkomin á kynningarfundinn okkar 6.maí og velkomin í fræðsluna komandi vetur.
-
Hæ!
Þetta bréf er sent á ykkur í 2012 árganginum í Glerárþorpi sem skráð eru í þjóðkirkjuna til að kynna fermingarfræðsluna hjá okkur í Glerárkirkju.
Sum ykkar eru búin að taka ákvörðun um það hvort þið ætlið að fermast hér í kirkjunni á næsta ári, önnur eru kannski ekki viss. Það er allt í góðu lagi að taka sér tíma í að velta þessu fyrir sér og það sem meira er þá er allt í lagi að taka þátt í fræðslunni hjá okkur þótt þú sért ekki viss um það hvort þú viljir fermast.
Upphaf fræðslu – helgarferð í Vatnaskóg 22.-24.ágúst
Við byrjum fræðsluna af krafti með helgarferð í Vatnaskóg þar sem verður fjör og fræðsla frá morgni til kvölds. Staðurinn er algjör paradís, hægt að fara á bátum út á vatnið, það eru hoppukastalar í íþróttahúsinu og fræðslan gefur góðan grunn fyrir það sem við ætlum að gera í vetur.
Þegar nær dregur fáið þið ítarlegri upplýsingar um kostnað og skipulag.
Fermingarfræðsla
Sunnudagurinn 7. september kl.13:00 – Útskýringarmessa : allur fermingarhópurinn mætir.
14/15. október kl.18:00-21:00 – fermingarfræðsla í Glerárkirkju
11/12. nóvember kl.18:00-21:00 – fermingarfræðsla í Glerárkirkju
Sunnudagurinn 30.nóvember kl.18:00 – aðventukvöld
9/10. Desember - kl.18:00-21:00 – fermingarfræðsla í Glerárkirkju
-
10/11.febrúar - kl.18:00-21:00 – fermingarfræðsla í Glerárkirkju
1.mars – æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar – kl.11:00: allur fermingarhópur tekur þátt.
6-7. mars 14:00-14:00 – sólarhrings dansmaraþon til styrktar hjálparstarfi kirkjunnar
Messur
Við stefnum á breytingar og nýsköpun í helgihaldinu okkar komandi vetur.
Kl.11:00 á sunnudögum verða fjölskyldu og ungmenna miðaðar messur með miklu uppbroti – við reiknum með að fermingarbörnin taki þátt í 10 slíkum messum yfir veturinn.
Kl. 12:00 verður matur í kirkjunni og kl.13:00 verða hefðbundnari messur ýmist með Kirkjukórnum eða Gospelkórnum.
Síðasta miðvikudag í mánuði verður kvöldmessa kl.20:00 með óhefðbundnu sniði – við munum hvetja fermingarhópinn til að taka þátt í þeim messum í einhver skipti.
Algjörlega ný nálgun á fermingarfræðslu
Komandi vetur verður öll fermingarfræðslan byggð upp á samveru, tengslum og nánd foreldra og ungmenna, þ.e.a.s. að börnin koma aldrei ein í fræðsluna, það er alltaf einhver fullorðinn með þeim, hvort sem það eru amma/afi eða foreldri. Þetta verða fjórar svona fræðslustundir yfir veturinn og þær byggjast upp á því að við borðum saman og svo vinna foreldrar og börn saman að verkefnum sem snúa að lífsviðhorfum, gildum, spurningum um tilgang, glímurnar í lífinu og samskipti.
Af hverju að gera þetta svona?
Í æskulýðsrannsókn frá 2020 kemur skýrt fram að unglingar vilja meiri tíma með foreldrum sínum. Í fermingarfræðslunni erum við að tækla tilvistarspurningar og ræða hluti sem eru ekkert endilega ræddir annarsstaðar. Það að þið takið þátt í þessu með börnunum er til þess gert að styrkja tengsl. Allt í allt er þessi nálgun lýðheilsueflandi á tímum þegar rannsóknir sýna rauð flögg varðandi aukið ofbeldi ungmenna og minnkandi samkennd.
Fermingardagar í Glerárkirkju vorið 2026 eru:
29.mars – pálmasunnudagur kl. 10:30 / 12:30
2.apríl – skírdagur kl.10:00 / 12:30
18.apríl – laugardagur kl. 10:30 / 12:30
Þið getið farið að velta fyrir ykkur hvaða dagur hentar ykkur best – það er hægt að ferma 22 börn í hverri athöfn. Skráning í fermingarfræðslu og á fermingardaga hefst kl.18:00 þann 6. maí inni á glerarkirkja.is
Facebook hópur fyrir foreldra og forráðamenn
Við reynum að vera í góðu tölvupóstssambandi við foreldra og forráðamenn yfir veturinn, en það hefur líka reynst vel að nýta Facebook til þess, því hvetjum við ykkur til að finna hópinn „Fermingarhópur Glerárkirkju 2026“ og sækja um aðgang að honum.
Fundur og spjall þriðjudaginn 6.maí kl. 16:30
Tilvonandi fermingarbörn og foreldrar/forráðamenn eru velkomin á fund hér í kirkjunni þar sem við förum yfir skipulag fræðslunnar og svörum spurningum.
Allar upplýsingar um fermingarfræðsluna og fermingarnar verða undir hnappinum „Fermingar“ á heimasíðunni okkar, glerarkirkja.is. Þær upplýsingar sem hér koma fram um skipulag fræðslu eru birtar með fyrirvara um mögulegar breytingar.
Bestu kveðjur
Eydís Ösp, Hildur Björk og Sindri Geir í Glerárkirkju.
eydisosp@glerarkirkja.is / hildurbjork@glerarkirkja.is / sindrigeir@glerarkirkja.is