Það hefur mikið verið um að vera í Glerárkirkju undanfarnar vikur. Við hófum aprílmánuð með fjölbreyttu helgihaldi um bænadagana og páskana og þá mættu fjölmargir til kirkjunnar sinnar. Undanfarnar þrjár helgar hafa 79 ungmenni verið fermd í kirkjunni og biðjum við þeim Guðs blessunar, en í ár fermast 100 fermingarbörn í Glerárkirkju. Framundan er vorferð æskulýðsfélagsins fimmtudaginn næstkomandi, héraðsfundur Eyjafjarðar - og þingeyjarprófastsdæmis 2. maí, vorhátíð kirkjunnar 3. maí, kvöldmessa með biskupi og biskupsvísitasía.
Vorferð æskulýðsfélagsins UD Glerár verður 30. apríl - 1. maí og er ferðinni að þessu sinni heitið á Hólavatn í Eyjafirði. Vorhátíð kirkjunnar verður sunnudaginn næst komandi kl. 11. Hátíðin hefst með fjölskylduguðsþjónustu, eftir guðsþjónunstuna verður sannkölluð karnival stemmning á kirkjutorginu töframaður sýnir listir sýnar, hoppukastalar og grillaðar pylsur verða í boði. Dagana 3. - 4. maí mun biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, heimsækja söfnuðinn. Biskup mun eiga fundi með sóknarnefnd og vígðum þjónum kirkjunnar ásamt því að heimsækja Öldrunarheimili Akureyrar að Hlíð og Lögmannshlíð. Þann 3. maí verður kvöldmessa þar sem biskup predikar og að lokinni messu verður veglegt messukaffi. Allir eru hjartanlega velkomnir.