Hæfileikakeppni NorðAusturlands

HÆNA - Hæfileikakeppni NorðAusturlands verður haldin laugardaginn 5. febrúar kl. 19:00 í Egilsstaðaskóla. Keppnin er opin ungu fólki á aldrinum 13 til 17 ára úr kirkjustarfi og stefnir æskulýðsfélagið Glerbrot á þátttöku. Einnig er vonast eftir þátttöku frá fermingarbörnum úr Glerárkirkju Keppt er í þremur flokkum og er um bæði einstaklings og hópakeppni að ræða. ÆSKEY og samstarfsfélagar standa nú í fimmta sinn fyrir þessum viðburði.

 

HÆNA er árlegur viðburður þar sem unglingar koma fram og sýna hæfileika sína. Að þessu sinni verður keppt í þremur flokkum:

  • Söngur og tónlist (annars vegar einstaklingskeppni og hins vegar hópakeppni).
  • Dans og líkamstjáning (annars vegar einstaklingskeppni og hins vegar hópakeppni).
  • Frjáls flokkur, t.d. upplestur á eigin smásögu eða flutningur á eigin kvæði, spuni, töfrabrögð … (hér er bara um einstaklingskeppni að ræða).

Dómnefnd velur bestu atriðin úr hverjum flokki og veittir eru verðlaunapeningar fyrir sæti 1 -3.

Öllum unglingum úr fermingarfræðsluhópum á Norður- og Austurlandi er velkomið að senda þátttakendur. Einnig er HÆNA opin öllum eldri unglingum (13 til 17 ára) sem eru virkir í kirkjustarfi eða starfi á vettvangi annarra kristinna safnaða eða KFUM og KFUK.

Áhugasamir eru minntir á að gott er að byrja á því að ákveða hvort að það er hópur sem ætlar að skrá sig eða einstaklingur (athugið að það getur verið að keppandinn sé einstaklingurinn en hann hefur með sér þjálfara og annað aðstoðarlið). Eins er mikilvægt að ákveða atriðið og æfa það vel. Þá má ekki gleyma að skrá sig en skráning fer fram á netfangið petur@glerarkirkja.is og þarf að skrá sig fyrir 1. febrúar 2011. Við skráningu þarf að taka fram hvaða atriði er flutt, hver flytur (fullt nafn og listamannanöfn ef það á við), hvernig hægt er að ná í umboðsmann hópsins (sími, netfang) og úr hvaða kirkjustarfi, fermingarstarfi eða KFUM og KFUK starfi hópurinn kemur.

Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin djákni í Glerárkirkju, s. 864 8451.