Helgihald um páska.

Helgihald Glerárkirkju í kyrruviku verður fjölbreytt.

Skírdagskvöld í Glerárkirkju kl.20:00

Að kvöldi skírdags komum við saman til messu, eins og Jesú og vinir hans komu saman til kvöldmáltíðar göngum við að borði Drottins og deilum máltíð.
Altarissakramentið sprengir öll landamæri, tíma og rúm - við göngum að borðinu með systkinum okkar á öllum tímum og öllum stöðum sem taka þátt í þessari máltíð og göngumst við því hlutverki okkar að við erum börn Guðs, systkini alls samferðafólks okkar.
Í lok stundar er altarið afskrýtt og kirkjurýmið ber þess merki að myrkur föstudagsins langa nálgast.
Leyfðu þér að taka þátt í þessari merkingarþrungnu stund með okkur og fara í gegnum atburði kyrruviku í gegnum helgihald kirkjunnar.
Sr. Sindri Geir leiðir stundina, Valmar Väljaots leikur á orgel og félagar úr kór Glerárkirkju leiða söng.
 
Að kvöldi föstudagsins langa í Glerárkirkju kl.20:00
Að kvöldi föstudagsins langa leiðir sr. Magnús Gunnarsson rólega stund þar sem píslarsagan er lesin og litanían sungin.
Kyrkjan verður dimm og í gegnum helgihaldið, bæn, söng og lestur tökum við á móti merkingu þessa dags.
Valmar Väljaots og Kór Glerárkirkju sjá um tónlistarflutning.
 
Páskavaka í Glerárkirkju kl.23:00
Aðfaranótt páska komum við saman í kirkjunni, kveikjum bál fyrir utan kirkjuna og tendrum páskaljósið sem skín í myrkrinu og fær að lýsa okkur fram að aðventu.
Í stundinni íhugum við út frá ritningarlestrum og tökum með táknrænum hætti þátt í þeirri endurnýjun sem páskadagur boðar.
Við förum frá myrkrinu inn í ljósið og undirbúum okkur undir það að taka á móti páskamorgni. Stundinni sjálfri lýkur um eða fyrir miðnætti.
Sr. Sindri Geir og sr. Guðmundur leiða stundina með góðum hópi meðhjálpara og Valmari Väljaots organista.
 
Páskamorgunn í Glerárkirkju kl.9:00
Gleðilega páska!
Verið velkomin til hátíðarmessu að morgni páskadags, Kristur er upprisinn.
Kl.9:00 eigum við ljúfa hátíðarstund þar sem við fögnum uppristunni.
kl.10:00 er morgunverður í safnaðarheimili kirkjunnar.
Kl.10:15 er páskasunnudagaskóli með páskaeggjaleit.
Sr. Guðmundur og sr. Sindri Geir leiða hátíðarmessuna með Valmari Väljaots og Kór glerárkirkju. Eydís Eyþórsdóttir er með sunnudagaskólann.