Aðalfundur Hjálparstarfsins var haldinn í safnaðarheimili Grensáskirkju 24. september 2016. Í stjórn voru kosin: Ingibjörg Pálmadóttir formaður, Lóa Skarphéðinsdóttir og Páll Kr. Pálsson. Varamenn Hörður Jóhannesson og Gunnar Sigurðsson. Auk venjulegra aðalfundarstarfa, ávörpuðu gestir frá Eþíópíu, Million Shiferaw og Ahmed Nur Abib fundinn, en þau voru komin til að heimsækja fermingarbörn um allt land. Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfsins fjallaði um tveggja ára verkefni Hjálparstarfsins, Virkni og vellíðan ? taktu ábyrð á eigin lífi sem standa mun yfir til september 2018.
Innanlandsaðstoðin
Markmið innanlandsstarfsins er: Að stuðla að virkni, rjúfa einangrun og vítahring fátæktar, að efla einstaklinga til sjálfstæðis og til þátttöku í samfélaginu.
Efnislegur stuðningur: Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins veittu efnislega aðstoð í samvinnu við presta, djákna, félags- og námsráðgjafa um land allt. Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að fólk fær inneignarkort í matvöruverslanir. Á höfuðborgarsvæðinu eru inneignarkortin að mestu einskorðuð við barnafjölskyldur og er einstaklingum vísað á önnur samtök sem bjóða mataraðstoð. Á þeim stöðum sem öðrum hjálparsamtökum er ekki til að dreifa fá allir inneignarkort. Auk inneignarkorta var tekjulágu fólki veitt fjárhagsaðstoð vegna lyfjakostnaðar og við kaup á gleraugum sem og vegna skólagöngu, tónlistarnáms og frístunda barna og ungmenna. Ráðgjöf: Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins veittu ráðgjöf og vísuðu fólki á úrræði í samfélaginu. Fjármálaráðgjöf var í boði alla föstudaga. Sálusorgun og sáttamiðlun er einnig í boði. Fatasöfnun og ?úthlutun: Sjálfboðaliðar unnu ötullega við fataúthlutun á þriðjudögum og tóku fatnað upp úr pokum, flokkuðu og settu í hillur á miðvikudögum. Mikil aukning hefur orðið í úthlutun fata á þessu starfsári, lang stærsti hluti aukningarinnar eru hælisleitendur. Í desember og janúar síðastliðnum fengu 371 fjölskylda (um 1000 einstaklingar) notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu.
Sjálfstyrkingarnámskeið og hópastarf: Sérstakt markmið Hjálparstarfsins er að stuðla að bættri sjálfsmynd skjólstæðinga og efla þá til þátttöku í samfélaginu. Í haust hófst aftur námskeiðið Heilsueflandi samvera í samstarfi við Hjálpræðisherinn. Það mun standa fram í apríl og er ætlað konum utan vinnumarkaðar. Markmiðið er að efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu þátttakendanna. Matreiðsla, sjálfstyrking, föndur og líkamleg hreyfing er hluti af námskeiðinu.
Í september hófst tveggja ára verkefni Virkni og vellíðan ? Taktu ábyrgð á eigin lífi. Verkefnið snýr að því að undirbúa einstæðar mæður á örorkubótum sem eru með ungling á heimilinu undir þau tímamót þegar barnið verður 18 ára og fjárhagslegt umhverfi mæðranna breytist skyndilega til hins verra. Þessu fylgir einnig að þar sem börnin eru orðin sjálfráða þá upplifa margar mæður að þær séu án hlutverks.
Í febrúar hófst verkefnið Breiðholts brúin. Verkefniðer samstarfsverkefni Fella- og Hólakirkju, Félags- og fjölskyldumiðstövarinnar í Gerðubergi, Hjálparstarfs kirkjunnar, PEP (People Experiencing Poverty) á Íslandi og sjáfboðaliða úr hverfinu. Opið hús verður í Fella og Hólakirkju fyrsta og þriðja mánudag í hverjum mánuði kl 11:30-14:00. Tilgangurinn er að fólk hittistt, eldi mat og borði saman og eigi góða stund. Hópurinn mun síðan sjálfur móta dagskránna.
Talsmaður fátækra: EAPN er evrópskur samræðuvettvangur fyrir fólk sem býr við fátækt. Félagsráðgjafar og skjólstæðingar Hjálparstarfsins taka þátt í störfum Íslandsdeildar EAPN.
Hópurinn PEP á Íslandi (People Experiencing Poverty) sem var stofnaður í tengslum við EAPN á Íslandi og Hjálparstarfið stóðu fyrir viðburði á Fundi fólksins í Norræna húsinu 2. september. Yfirskriftin var Er fátæktarklám í fjölmiðlum? Fulltrúar fjölmiðla tóku þátt í fundinum þar sem fólk sem býr við fátækt/hefur búið við fátækt lýsti því hvernig þau upplifðu umfjöllun fjölmiðla um fátækt. Félagsráðgjafar Hjálparstarfins taka virkan þátt í starfi Velferðarvaktar Velferðarráðuneytisins og samráðshóps um málefni utangarðsfólks. PEP stóð í samstarfi við Velferðarvaktina fyrir morgunverðarfundi á Grand hótel 21. október, þar sem fjallað var um mataraðstoð á Íslandi, umfang og leiðir til fjölbreyttari þjónustu.
Jólaaðstoð: Alls nutu 1471 fjölskylda (um 3900 manns) um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól. Gott samstarf um jólaaðstoð var milli Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálparæðishersins, Mæðrastyrksnefndar og Rauða krossins á Eyjafarðarsvæðinu og í Árnessýslu. Orð þeirra sem til okkar hafa leitað segja meira en flest annað, hér koma nokkur dæmi:
?Ég veit ekki hvar við værum án ykkar stuðnings.?
?Að geta notað kortið frá ykkur og valið sjálf í matinn, breytir öllu, nú geta börnin valið með mér hvað við borðum. ?
?Samtalið og ráðgjöfin sem ég fæ hjá Hjálparstarfinu hefur gefið mér kjark og bjartsýni á ný. Nú hef ég trú á sjálfri mér. ?
?Ykkar stuðningur hefur komið mér á fæturnar á ný, eftir þetta vona ég að ég geti bjargað mér sjálf. ?
Breytendur: Breytendur, Changemaker á Íslandi, er ungliðahreyfing sem hefur það að markmiði að gera heiminn að sanngjarnari og réttlátari stað með jákvæðum aðgerðum. Hreyfinging er stofnuð að norskri fyrirmynd og starfar undir verndarvæng Hjálparstarfs kirkjunnar. Starf Breytenda hefur verið í daufara lagi í vetur sökum þess að margir af virkustu meðlimum eru komnir á aldur, en vonandi tekst að blása lífi í starfið á næstu misserum. Fyrir jól seldu Breytendur Friðarljós og gjafabréf á Laugaveginum með góðum árangri. Heimasíða Breytenda er www.changemaker.is og þau halda einnig úti Facebooksíðu.
Verkefni erlendis:
Úganda: Í janúar byrjaði Hjálparstarfið með nýtt verkefni í samstarfi við Lútherska heimssambandið í Kampala höfuðborg Úganda og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link). Verkefnið snýr að þrem fátækrahverfum í höfuðborginni og varir í 3 ár. Mikill straumur fólks liggur til höfuðborgarinnar í von um betra líf. Því miður bíður flestra þeirra atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum borgarinnar. Mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi. Markhópurinn er 1500 ungmenni (60% stúlkur) á aldrinum 13-24 ára. Markmiðin eru að þau fái aukna verkkunnáttu og geti nýtt sér hana til að sjá sér farborða, taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmynd þeirra og séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Þau reka verkmenntamiðstöðvar þar sem unglingarnir geta valið sér ýmis konar svið til að öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði eins og hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun og fleira.
Verkefni sem snýr fyrst og fremst að börnum sem misst hafa foreldra sína úr alnæmi og búa ein hélt áfram á síðast ári. Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði með því að reisa íbúðarhús með grunnhúsbúnaði, kamri, eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum. Reist voru tvö hús með öllu sem þeim tilheyrir fyrir tvær fjölskyldur.
Eþíópía: Á árinu 2016 náði verkefni Hjálparstarfsins í harðbýlu Sómalífylki í Austur-Eþíópíu til tæplega 35.000 sjálfsþurftarbænda (47% eru konur). Samstarfsaðilar eru Lúterska heimssambandið. Markmið númer eitt er að bæta aðgang að hreinu vatni og auka fæðuval og -öryggi fólksins. Markmið númer tvö er að efla völd og auka ákvörðunarrétt kvenna yfir efnahagslegu öryggi sínu. Árið 2016 voru 3 vatnsþrær (birkur) grafnar en úr þeim fá 2.640 manns og 4.500 skepnur vatn. 2 handgrafnir brunnar voru byggðir og gert við 4 gamla brunna sem þýðir hreint drykkjarvatn fyrir um 8.000 manns og 7.000 skepnur.
106 konur fengu lán úr sjóði sem endurnýjast þegar konurnar greiða til baka. Lánsupphæðin er um 22.000 krónur á hverja konu. Þriggja daga vinnustofa var haldin fyrir 40 skoðanaleitoga um leiðir til að afnema skaðlegar venjur eins og limlestingar á kynfærum kvenna og að gefa stúlkur barnungar í hjónaband. 160 bændur tóku þátt í námskeiðum um bættar ræktunarleiðir, þurrkþolnari korntegundir og hunangs ræktun. Fjömargt annað er gert í verkefninu til að bæta lífsafkomu, heilsu og aðstæður þeirra sem verkefnið nær til en ekki farið nánar út í það hér.
Indland: Hjálparstarf kirkjunnar og 300 íslenskir fósturforeldrar styrkja alls 302 börn til skólavistar hjá Sameinuðu indversku kirkjunni (UCCI) í Andhra Pradeshfylki. 67 þeirra eru í grunnskóla og 235 eru í bóklegu eða verklegu
framhaldsnámi. Við skólann er einnig rekin sjúkrastofa fyrir nemendur jafnt sem fátæka íbúa í nágrenni.
Neyðarhjálp: Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT Alliance, Alþjóðahjálparstarfi kirkna og kirkjutengdra samtaka. Í desember s.l. samþykkti Utanríkisráðuneytið tvær umsóknir Hjálparstarfsins um stuðning við mannúðaraðstoð. Hjálparstarfið þakkar góðan stuðning frá ráðuneytinu en samkvæmt verklagsreglum leggur Utanríkisráðuneytið fram 95% á móti 5% framlagi Hjálparstarfsins. Veittur var 20 milljón króna styrkur til neyðaraðstoðar á Haítí til fólks sem misst hefur allt sitt í fellibylnum Matthíasi sem reið yfir Haíti 4. október 2016. Sendar voru 21.150.000 krónur sem fara í starf til að tryggja öruggt skjól, drykkjarvatn og hreinlætis aðstöðu fyrir 16.700 manns. Einnig styður ráðuneytið neyðaraðstoð í Úganda með 10 milljón króna framlagi en sendar voru 10.540.000 krónur sem fara í að bregðast við neyð flóttafólks sem streynir til Norður-Úganda frá Suður-Súdan en mikill ófriður og valdabarátta ríkir þar. Um 350.000 flóttamenn frá Suður-Súdan eru í Úganda. Með neyðaraðstoðinni á að tryggja 27.348 flóttamönnum í Adjumani héraði aðgang að hreinu vatni, skjól, hreinlætisaðstöðu og lífsviðurværi.
Safnanir og kynningarstarf
Fermingarbarnasöfnun: Fermingarbörn um allt land gengu í hús dagana 31. október ? 3. nóvember 2016 með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. Þátttaka í söfnuninni var mjög góð en 62 prestakall var með nú. Söfnunin gekk mjög vel og söfnuðust 8.234.000 krónur til vatnsverkefna Hjálpartarfsins. Prestar, annað starfsfólk kirkna, foreldrar og börnin lögðu á sig mikla vinnu í tengslum við söfnunina og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir! Í tengslum við fermingabarnasöfnunina komu góðir gestir frá Eþíópíu, þau Million og Ahmed Nur í október og fræddu tilvonandi fermingarbörn vítt og breytt um landið um aðstæður heima fyrir.
Jólasöfnun: Í jólasöfnuninni 2016 var safnað fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins í Eþíópíu og Úganda. Heildarsöfnunarfé til verkefna erlendis og innanlandsaðstoðar í desember og janúar að gjafbréfum meðtöldum var 76.6 milljón króna þar af voru 30.9 milljónir eyrnamerktar innanlandsaðstoð. Einstaklingar, fyrirtæki og samtök standa að baki þessum gjöfum.
Fréttablaðið Margt smátt: Fréttablað Hjálparstarfsins Margt smátt? kom út í október 2016, fjallað var um fjölbreytt verkefni Hjálparstarfsins heima og að heiman. Blaðið kom út sem fylgiblað með Fréttablaðinu í lok nóvember og fór á heimili landsmanna í upphafi jólasöfnunar með áherslu á vatnsverkefni Hjálparstarfsins.
Framlag.is og gjofsemgefur.is: Vefsíðan framlag.is auðveldar fólki að styrkja verkefni Hjálparstarfsins heima og að heiman. Gjafabréfasíðan gjofsemgefur.is er mjög vinsæl en mismunandi gjafabréf eru í boði til stuðnings verkefnum á Íslandi, Indlandi og í Afríku. Verð eru frá 1.600 upp í 180.000 krónur. Geiturnar eru vinsælastar, en hænur og hlutdeild í brunni er einnig mjög vinsælt.
www.Help.is og Facebooksíða Hjálparstarfsins
Minnum á vefsíðuna Hjálparstarfsins og facebook: Læka og deila!