Við ætlum að hlaupa, skokka eða rölta milli kirknanna í bænum sunnudaginn 25. Ágúst.
Það eru þrjár leiðir sem við leggjum upp með að valið sé á milli.
14km – Akureyrarkirkja, Lögmannshlíðarkirkja, Glerárkirkja, Akureyrarkirkja.
9km – Akureyrarkirkja – Glerárkirkja - Akureyrarkirkja
4km – Akureyrarkirkja - Minjasafnskirkjan -Akureyrarkirkja.
Nánari leiðarlýsing hér að neðan.
Hvert og eitt okkar fer á sínum hraða og lýkur á sínum tíma, en við hefjum stundina á 15 mínútna samveru í Akureyrarkirkju, með smá tónlist og góðu orði. Andleg og líkamleg heilsa haldast í hendur, og það að leggja rækt við andlega lífið er vel hægt að gera á hlaupum eða á göngu.
Verið velkomin til góðrar stundar á ferð milli kirknanna í bænum.
Það má reikna með að hægt verði að fá sér vatnssopa við Glerárkirkju og við Akureyrarkirkju að hlaupi loknu.
14km – Akureyrarkirkja, Lögmannshlíðarkirkja, Glerárkirkja, Akureyrarkirkja.
Við förum upp Gilið og förum eftir Þingvallastræti þar til við komum að hringtorginu við Hlíðarfjallsveg. Þar förum við upp í áttina að Lögmannshlíðarkirkju og beygjum inn í hesthúsahverfið, förum fram hjá kirkjunni og áfram norður hlíðina í áttina að hverfinu við Lónsá. Við förum eftir nýja göngustígnum sem liggur meðfram þjóðveginum, niður Austursíðu, inn Bugðusíðu, að Glerárkirkju og að Borgarbraut.
Við förum niður Borgarbrautina, yfir Hlíðarbraut og niður að Glerárgötu. Við fylgjum Glerárgötu niður að Kaupvangsstræti og endum á planinu við Akureyrarkirkju.
9km – Akureyrarkirkja – Glerárkirkja – Akureyrarkirkja
Við förum upp Gilið og förum eftir Þingvallastræti þar til við komum að hringtorginu við Hlíðarfjallsveg. Förum eftir göngustígnum meðfram Hlíðarbraut framhjá Glerárkirkju og að Austursíðu, förum þar upp og beygjum inn Bugðusíðu sem við fylgjum að Borgarbraut.
Við förum niður Borgarbrautina, yfir Hlíðarbraut og niður að Glerárgötu. Við fylgjum Glerárgötu niður að Kaupvangsstræti og endum á planinu við Akureyrarkirkju.
4km – Akureyrarkirkja - Minjasafnskirkjan -Akureyrarkirkja.
Förum upp Eyrarlandsveginn, fylgjum honum framhjá Listigarðinum og beygjum niður Spítalastíg. Förum eftir Aðalstræti að Minjasafnskirkjunni, þaðan í átt að Skautahöllinni og niður á göngustíginn sem liggur meðfram Drottningarbraut. Fylgjum stígnum í átt að miðbænum þar til við getum beygt upp í Kaupvangsstræti og endum á planinu við Akureyrarkirkju.