Pistill sem sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir ritaði í lok vikunnar og birtur er á trú.is hefur vakið verðskuldaða athygli, tæplega 3.000 manns hafa lesið pistilinn á tveimur dögum. Sólveig Halla býr ásamt fjölskyldu sinni á Þverá í Reykjahverfi. Í pistlinum gefur hún lesandanum innlit inn í lífið í sveitinni fyrstu dagana eftir óveðrið. Hún skrifar meðal annars:
Það hafa ekki farið framhjá neinum, þær hörmungar sem bændur og búalið á norðurlandi hafa gengið í gegnum á undanförnum dögum. Fréttir berast af björgunarsveitarfólki og öðrum sjálfboðaliðum sem reyna ásamt bændum af fremsta megni að leita að fé og bjarga því. Óvissan er mikil. Þetta eru undarlegir dagar og verða öllum sem að málum koma ógleymanlegir. Ég finn mig knúna í svefnleysinu til að rita nokkur orð, í von um að kyrra sálartetrið og koma nokkru af því sem í brjóstinu býr, á framfæri.