Suma daga er ótrúlega erfitt að vera til. Stundum mætti halda að það væru bara fullkomnu manneskjurnar sem fá að vera með í því sem er skemmtilegt. Við hin sem erum ekki fullkomin verðum útundan. Þau okkar sem berjast við veikindi eða búa við varanlega fötlun þekkja þetta mjög vel. Í smá tíma fær viðkomandi að upplifa að honum er vorkennt, en svo ekki söguna meir. Mörg okkar þekkja það að sagt er: ,,Nei, þú ert ekki nógu góð(ur) í … og þess vegna getur þú ekki verið með.” Það sem er verst, er að við förum að trúa þessu sjálf. Við látum dómhörku annarra hafa þau áhrif á okkur að við förum að tala svona við okkur sjálf. Hver þekkir ekki setningar eins og ,,Ég kann þetta ekki …” ,,Ég er of ung …” ,,Ég er of lítill …” ,,Ég hef aldrei gert þetta …” Ef við bætum annarri setningu við slíkar setningar og segjum: ,,en mig langar til að læra” sýnum við strax að við berum virðingu fyrir sjálfum okkur. Þau sem lesa í Biblíunni hafa kannski rekist á það að Jesús tók sér gjarnan tíma til að tala við þau sem fannst erfitt að vera til, við þau sem voru útundan, við þau sem leið illa. Í eitt skiptið sagði hann: ,,Náð mín nægir þér” Hvað átti hann við með því? Á helgistundum, í fræðslunni og í guðsþjónustunni á mótinu ætlum við að ræða um það.
Dagskráin hefst á föstudagskvöldi klukkan 19:00 og lýkur með guðsþjónustu í Svalbarðsstrandarkirkju á sunnudeginum klukkan 11:00. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Meðal annars kemur hópur IceStep-þjálfara frá Reykjavík sem mun kenna áhugasömum þátttakendum IceStep-dansa. Mikilvægur hluti helgarinnar er svo HÆNA, þ.e. Hæfileikakeppni Norður- og Austurlands sem haldin hefur verið um árabil og verður að þessu sinni í safnaðarsal Akureyrarkirkju á laugardagskvöldinu.