Á sýningunni er lögð áhersla á að gefa innsýn í söfn viðkomandi safnara. Söfnin eru mjög misjöfn að uppbyggingu. Þannig flokkaði Björn kortin í sínu safni eftir ártölum, þar sem hann lagði persónulegt mat á það hvaða ár kortin hefðu komið út. Oftast virðist það mat hafa verið byggt á því sem stóð aftan á kortunum, enda aðallega um kort í safni hans að ræða sem höfðu verið send til einstaklinga um ákveðin jól. Gerður flokkar aftur á móti kortin í sínu safni meira eftir þemum eða höfundum myndanna á kortunum og hefur hún lagt sig fram við að eiga seríur eða heilu flokkana af eins kortum. Mjög mörg af kortunum í hennar safni hafa ekki verið send sem jólakort, heldur ratað "ónotuð" í safn hennar.
Starfsmenn Íslandspósts á Akureyri voru svo vinsamlegir að þeir lánuðu einnig nokkra muni á sýninguna, póstvog, gamla póstberatösku og gamlan póstkassa. Þá hefur verið komið fyrir í kirkjunni nokkrum veggspjöldum með fróðleiksmolum um tilurð jólakorta og sögu póstsendinga. Þar segir meðal annars:
Sagan segir að í desember 1843 hafi einn af málsmetandi íbúum Lundúnaborgar,Sir Henry Cole, verið kominn í þær vandræðalegu aðstæður að sjá fram á að ná ekki að senda jólakveðju til viðskiptavina sinna. Hann hafi því fengið John Callcott Horsley til að hanna jólakort eftir sinni hugmynd. Búin voru til 1000 eintök af kortinu, þau voru prentuð og handmáluð af manni sem vann við þá iðn og hét Mason. Í framhaldinu voru búin til fleiri kort og seld á 1 skilding stykkið sem verk listamannsins Felix Summerly, en það var listamannsnafn Henry Cole. [...] Þess má geta að Sir Henry Cole var stofnandi Victoria og Albert safnsins, sem er í dag eitt virtasta listasafn í heimi.
Sýningin stendur yfir til og með 8. janúar og er opin almenningi fyrir og eftir auglýstar helgiathafnir í kirkjunni. Hópar geta einnig pantað leiðsögn um sýninguna í síma 464 8800.