Sunnudaginn 13. nóvember er kristniboðsdagurinn. Þá mun Karl Jónas Gíslason heimsækja Akureyri og taka þátt í helgihaldi, samkomum og fundum. Hann var í Eþíópíu í sumar og mun segja frá heimsókn sinni í máli og myndum. Hann verður í Akureyrarkirkju kl. 11 og á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð kl. 14 og Dvalarheimilinu Hlíð á mánudaginn kl. 14. Þá verður samkoma í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð á Akureyri kl. 17 þar sem hann mun prédika og segja frá kristniboðinu í Eþíópíu í máli og myndum. Þá verður boðið upp á þjóðarrétt Eþíópíu og rennur ágóði og samskot til kristniboðsins. Það er Kristniboðsfélag Akureyrar sem stendur fyrir þessari heimsókn og SÍK.
Upplýsingar um kristniboðið má lesa hér
Kristniboðsdagurinn 2016
Stutt kynning sem má taka að hluta eða öllu leyti inn í kynningu eða prédikun dagsins.
Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar hefur nú verið haldinn í 80 ár til að minna safnaðarfólk, sóknarnefndir, presta og annað starfsfólk kirkjunnar á kallið til að flytja boðskapinn um kærleika Guðs í Jesú Kristi út um allan heim.
Allt hófst þetta með starfi íslenskra kristniboða í Kína á ofanverðri síðustu öld. Eftir að Kína lokaðist var farið til Eþíópíu og síðar til Keníu eftir að starfsskilyrði urðu ótrygg í Eþíópíu. Í Eþíópíu og Keníu er boðunin að mestu í höndum heimamanna sem Kristniboðssambandið styrkir til starfa. Menntamál eru áberandi í kærleiksþjónustu kristniboðsins. Um það ber fjöldi skóla og lestrarverkefni í Eþíópíu og Keníu vitni.
Á síðustu tveimur áratugum hefur starfið verið víkkað út enn frekar með þátttöku í útvarpskristniboði til Kína og sjónvarpskristniboði til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku Þetta eru góðar leiðir til að ná til svokallaðra lokaðra landa, þar sem kristniboðar eru ekki leyfðir.
Frá árinu 2010 hafa kristniboðarnir Katsuko og Leifur Sigurðsson starfað í Vestur Japan, nú á Rokko-eyju, úthverfi Kobe. Þar vinna þau að því að boða trúna á Jesú Krist og mynda tengsl við unglinga, ungt fólk og venjulega Japani á svæðinu sem starfsmenn lútersku kirkjunnar í Japan.
Aðeins um 1% Japana þekkir fagnaðarerindið og játar trú á Jesú Krists. Japanir eru ekki sérlega opnir fyrir fagnaðarerindinu. Ástæður geta verið margar, s.s. að gömlu trúarbrögðin hafi sterk ítök, tregða til breytinga og kynna sér eitthvað nýtt trúarlega og miklar annir, en Japanir vinna að jafnaði langan vinnudag. Samfélagið er í föstum skorðum.
Sjónvarpsstöðin Sat7 mun á nýju ári opna sjöttu rásina, skólasjónvarp til að ná til flóttabarna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku til þess að minnka líkur á brottfalli úr námi. Hér heima býður Kristniboðssambandið ókeypis íslenskukennslu fyrir nýbúa. Menntun fyrir alla er mannréttindi.
Kristniboðssambandið heldur áfram verki sínu ? í trú, von og kærleika. Allir geta verið með og lagt lið með einum eða öðrum hætti. Gjöfum til starfsins er veitt viðtaka hér og í öllum kirkjum, en einnig má millifæra. Upplýsingar þar um eru á vefsíðunni sik.is, sem stendur fyrir Samaband íslenskra kristniboðsfélaga ? eða í Kristniboðsalmanakinu sem finna má í flestum kirkjum. Hafið fyrirfram þökk fyrir.