Kirkjan taki virkan þátt í umræðu samfélagsins

Höskuldur Þórhallsson hélt erindi í Glerárkirkju í gærkvöldi, miðvikudagskvöldið 21. nóvember 2012. Erindið var hluti af fyrirlestraröð sem Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi stendur fyrir í samstarfi við Glerárkirkju um kristna trú og byggist umræðan á bók Halvor Moxnes "Hvað er kristin trú?" sem kom út í íslenskri þýðingu sr. Hreins Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni árið 2010. Í erindi sínu brýndi Höskuldur kirkjuna: Það væri mikilvægt að kirkjan tæki virkan þátt í umræðunni í samfélaginu og við samfélagið. Hennar hlutverk væri þó ekki að koma með látum og upphrópunum inn í umræðuna, heldur ætti hún að einbeita sér að hógværum og umburðarlyndum málflutningi þar sem hún héldi fyrirgefningunni og hverjum þeim góða málstað sem Jesús Kristur stóð fyrir á lofti. Hætt væri við að kirkjunni yrði einfaldlega ýtt út af sjónarsviðinu ef hún drægi sig út úr umræðunni.

Að mati Höskuldar varð tilhneiging kirkjunnar til að láta lítið fara fyrir sér í umræðunni augljós þegar til stóð að breyta lögum um skóla á Íslandi í þá veru að ekki kæmi fram að skólastarf byggði á kristnu siðgæði en mikil umræða fór fram um þann þátt í aðdraganda að setningu nýrra skólalaga á Alþingi á vordögum 2008. Sjálfur segist hann hafa upplifað það sem svo að kirkjan væri hætt að taka til varna. Sem betur fer hafi tekist að snúa ofan af þeirri stefnu sem kynnt hafi verið í frumvarpsdrögunum. ( Í grunnskólalögum nr. 91/2008 er nú talað um að starfshættir grunnskóla skuli m.a. byggja á: ,,kristinni arfleifð íslenskrar menningar". Sama orðalag er í leikskólalögum nr. 90/2008.)

Lifandi umræður um stjórnmál og kirkju

Kristin trú og stjórnmál

Til grundvallar umræðunni þetta kvöld lá sjöundi kafli bókar Moxnes en sá kafli ber yfirskriftina ,,Skapari jarðar" en í þeim kafla er fjallað um kristna trú og stjórnmál. Þar segir í íslenskri þýðingu á bls. 127 m.a.:

Margir hafa óskað sér þess að kristin trú léti sér nægja að tala um Guð sem ,,skapara himins." [...] Nú á dögum má heyra í stjórnmálamönnum sem halda því fram að skil milli trúar og ríkis geti komið í veg fyrir að trúin blandist inn í átök sem þeir telja einkum runnin af stjórnmála- og hagfræðilegum rótum.

En nú trúir kristið fólk því að Guð sé ,,skapari himins og jarðar", og það merkir að Guð hafi skapað heiminn og þar með náttúruna, mennina og samfélagið. [...] Kristin trú og játningar vekja sem sé máls á tilgangi og siðferði þegar um líf mannsins í heiminum er að ræða. Þetta er ástæða þess að kristin trú og önnur trúarbrögð sem láta sig þessi mál varða, verða að taka þátt í stjórnmálaumræðunni.

Höskuldur greindi frá því að þessi kafli hjá Moxnes hefði fengið hann til að velta enn frekar fyrir sér tengslum kristni og stjórnmála. Hér væri vekjandi texti á ferðinni, holl lesning hverjum þeim sem léti sig samfélagsmál einhverju varða. Þá væri mikilvægt að hugsa til baka til þess tíma þegar Jesú var uppi. Þar hafi aðstæður verið aðrar, engin skil verið á milli hins trúarlega og veraldlega og reglur samfélagsins verið byggðar á trúarlegu valdboði. Sjálfur segist hann upplifa að Jesús hafi storkað því valdi og þeim viðteknu venjum sem þá hafi verið uppi. Það umburðarlyndi og sú fyrirgefning sem Jesú hafi boðað hafi verið algerlega ný nálgun. Loksins hafi almenningur upplifað að fyrirgefningin væri líka eitthvað fyrir þau, að þau skiptu máli. Hér tók Höskuldur undir þau orð Moxnes að umræðan í dag væri aftur af örðum toga, gjarnan byggð á þeim skilning að stjórnmál og trú væru ólík svið í samfélaginu. Þetta væri nútímavandamál sem við þyrftum að takast á við, en ekki hörfa frá því. Frjálslynd kirkja sem aðlagi sig að breyttum samfélagsaðstæðum, átti sig á hlutverki sínu á tímum afhelgunar geti og eigi að blanda sér í pólítík. Það umburðurlyndi og sú fyrirgefnin sem Jesú hafi boðað þá geti enn þann dag í dag storkað valdinu og viðteknum venjum.

Umburðarlyndið er hér lykilatriði að mati Höskuldar og sagðist hann telja að á stundum hefði kirkjan farið út af sporinu, hætt að vera hún sjálf og leiðst út í álíka farvegi og bókstafstrúarmönnum hætti til að lenda í. Sem umburðarlynd kirkja sem heldur fyrirgefningunni á lofti þurfi og eigi kirkjan að taka þátt. Í stað þess að láta í minni pokann eigi kirkjan að halda því á lofti sem vel er gert. Hér minnir Höskuldur á þátttöku kirkjunnar um allan heim í baráttunni fyrir mannréttindum, hlutverki hennar varðandi baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku og lykilstöðu hennar á umbótatímum í Austur Evrópu. Að sama skapi þurfi kirkjan líka að læra af mistökum eins og þeim hvernig hún stóð til hlés í síðari heimsstyrjöldinni.Hér heima hefði hún t.d. átt að stíga miklu fyrr fram og á ærlegri hátt þegar umræðan hófst fyrst um réttindi samkynhneigðra. Til fyrirmyndar hefði verið ef hún hefði sagt: ,,Við þökkum þetta innlegg í umræðuna og ykkar góðu baráttu. Við höfum hlustað á rök ykkar og meðtekið þau. Í okkar röðum er ágreiningur um þessi rök og við ætlum okkur að ræða þessi mál á einlægan og opinskáan hátt." Og taka svo þátt í umræðunni frá A til Ö.

Kirkjan er eins og Framsókn

Það vakti mikla kátínu viðstaddra þegar Höskuldur greindi frá því að hans mat væri að á vissan hátt væri kirkjan svolítið eins og Framsóknarflokkurinn. Sjálfur sagðist Höskuldur hafa verið óánægður þegar flokkurinn fór að hafa þá tilhneigingu að vilja ekki tengjast bændastéttinni. Þar með hafi flokkurinn hætt að vera hann sjálfur. Framsóknarflokkurinn geti vel nútímavæðst og kannast á sama tíma við uppruna sinn. Að sama skapi hafi hann upplifað tilhneigingar innan kirkjunnar til að vilja gera kirkjuna hipp og kúl og kveðja hið gamla. Kirkja sem geri slíkt hætti að vera kirkja. Hún geti vel nútímavæðst en hún þurfi á sama tíma að halda í gömlu gildin, hún megi ekki gleyma hverju hún stendur fyrir.

Höskuldur nefndi líka aðra tengingu sem vakti ekki síður athygli viðstaddra þegar hann greindi frá þeirri vinnu sem Alþingismenn hafa lagt í eigin siðareglur. Benti hann á að þær siðareglur byggja fyrst og fremst á kristnu siðgæði og kristinni trú. Öll umræða sem eflir tiltrú fólks á kristnu siðgæði og kristinni trú hafi því áhrif á viðbrögð við og umræðu um siðareglur sem og á þingmennina sjálfa. Þannig megi segja að kirkjan beri líka ábyrgð á því að virðing Alþingis muni rísa á ný.

Umræða um máttleysi kirkjunnar

Lifandi umræður sköpuðust meðal viðstaddra í framhaldi af erindi Höskulds. Meðal annars bentu viðstaddir á að mörgum sem koma að starfi Gídeon samtakanna þyki sem að kirkjunnar þjónar hafi ekki staðið sig í því að vera bakhjarl Gídeonmanna í baráttu félagsins fyrir því að geta haldið áfram því góða starfi sem félagið hefur staðið fyrir um áratuga skeið. Þá var bent á að saga kirkjunnar væri henni ekki alltaf til framdráttar og spurt hvort verið gæti að svartir blettir í fortíð kirkjunnar væru henni fjötur um fót þegar kæmi að því að hún léti heyra í sér.

Sóknargjöldin komu líka til umræðu og sá mikli umframniðurskurður sem kirkjan hefur mátt þola í miklu meira mæli heldur en stofnanir sem heyra undir innanríkisráðuneytið. Bent var á í umræðunni að skoða þyrfti hvort hér væri ekki hreinlega um lögbrot að ræða. Þess má geta hér í þessu samhengi að árið 2008 voru sóknargjöld komin í kr. 872 á mánuði fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri og hefði átt að hækka um 6.1% í janúar 2009 eða í 925 krónur á mánuði. Sóknargjöldin voru hins vegar lækkuð með lagasetningu í byrjun árs 2009 í 855 kr. og aftur með annarri lagasetningu 1. júlí 2009 í 811 kr. á mánuði út árið. Sóknargjöld urðu því að meðaltali 833 kr. fyrir allt árið 2009. Árið 2010 voru sóknargjöldin 767 kr. á mánuði og lækkuðu enn í 698 kr. árið 2011. Samkvæmt fjárlögum 2012 eru sóknargjöld til þjóðkirkjunnar alls 1.680,0 m.kr. eða kr. 701 á mánuði fyrir hvern einstakling. Sóknargjöld hækka um 62,8 m.kr. árið 2013 eða 3,9% miðað við fjárlög 2012. Sóknargjald árið 2013 miðað við fjárlagafrumvarp 2013 er 727 kr. fyrir hvern gjaldenda. Ef miðað er við óskertan grunn sóknargjalda árið 2012 eru sóknir að taka á sig 840,7 m.kr. skerðingu eða 33,4% frá því ef sóknargjaldið hefði verið reiknað samkvæmt óbreyttum lögum nr. 91/1987 ætti því að vera 1.101 árið 2012. Þegar skoðuð er þróun fjárveitinga vegna annarra fjárlagaliða undir innanríkisráðuneytinu kemur í ljós að þar hafa fjárveitingar hækkað að meðaltali um rúmlega 5% á tímabilinu. Skýringin er að stofnanir innanríkisráðuneytisins hafa notið launa- og verðlagsbóta, en sóknargjöldin ekki.

Umræðukvöldin halda áfram miðvikudagskvöldið 28. nóvember en þá mun Jónas Þórisson frá hjálparstarfi kirkjunnar ræða þær áskoranir sem við sem trúfélag og trúað fólk stöndum frammi fyrir í tengslum við svonefnda hnattvæðingu.