Tveir blandaðir kórar frá Tékklandi, stúlknakórinn og blandaður kór frá Eistlandi, tveir karlakórar frá Finnlandi,
drengjakór frá Frakklandi, barna- og unglingakór frá Þýskalandi, blandaðir kórar frá Ungverjalandi, Indónesíu, Kasakstan og
Rússlandi, barnakór frá Suður-Kóreu og menntaskólakór frá Singapore eiga ásamt Kór Glerárkirkju og fjölda annarra
kóra það sameiginlegt að taka þátt í Franz-Schubert-Kórakeppninni sem fram fer í Vín í Austurríki dagana 13. til 17.
júní næstkomandi.
Keppt er í fimm mismunandi flokkum og hverjum flokki gjarnan skipt upp í þrjár deildir, þ.e. blandaðir kórar, karlakórar og kvennakórar.
Í lýsingu á síðu keppninnar má lesa að flokkarnir eru mis erfiðir og ólíkar kröfur gerðar til þeirra verka sem flutt eru,
allt eftir því um hvaða hluta keppninnar er að ræða. þannig keppa barna- og æskulýðskórar með þátttakendur upp að 16
ára aldri í sér flokki, stúlknakórar 19 ára og yngri, drengjakórar 25 ára og yngri og blandaðir eldri æskulýðskórar
25 ára og yngri. Þá er einn flokkurinn sérstaklega helgaður trúarlegri tónlist. Þar geta kórar skráð sig óháð
stærð og eiga að flytja þrjú tónverk sem taka samtals 15 mínútur, þar af má aðeins eitt verkið vera með undirleik.
Dómnefndin samanstendur af níu einstaklingum, þekktu fræðifólki úr heimi tónlistarinnar og kórstjórum frá Austurríki,
Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Rússlandi, Slóveníu og BNA. Þá heldur þriggja manna listræn stjórn utan um
keppninni. Í henni sitja prófessor dr. Ralf Eisenbeiss frá Þýskalandi, Gábor Hollerung frá Ungverjalandi og Christian Ljunggren frá
Svíþjóð.
Dagskráin hefst miðvikudaginn 13. júní með undirbúningi á staðnum og eru fyrstu prufur strax þennan dag. Prufur halda svo áfram á
fimmtudagsmorgninum en formlegt upphaf keppninnar er með opnunartónleikum í Votiv-kirkjunni klukkan hálf átta á fimmtudagskvöldinu, en keppnin sjálf
fer einnig fram í Wiener Konzerthaus og Schubert-kirkjunni sem og fyrrnefndri Votiv-kirkju. Fræðast má nánar um keppnina á heimasíðu hennar.
Í lok síðustu viku voru þær Kristín og Gunnhildur í viðtali á N4 þar sem þær sögðu frá þessari ferð: