Kristin trú

Fræðslukvöldin í Glerárkirkju í október og nóvember bera að þessu sinni yfirskriftina "Hvað er kristin trú?" og er fræðslan byggð á samnefndri bók eftir Halvor Moxnes sem kom út í þýðingu sr. Hreins Hákonarsonar hjá Skálholtsútgáfunni á síðasta ári. Fræðslukvöldin verða á miðvikudagskvöldum kl. 20:00 - 22:00. Að loknu inngangserindi málshefjanda er kaffihlé og síðan taka við umræður og eru þátttakendur hvattir til virkrar þátttöku, þó vissulega sé líka velkomið að sitja hljóður og hlusta.

Fræðslukvöldin eru samstarfsverkefni Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og Glerárkirkju. Umsjón með kvöldunum hafa sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur og Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju. Aðgangur er ókeypis, óþarfi að skrá sig og velkomið að sækja stök kvöld en fólk hvatt til að mæta eins oft og það hefur tök á. Hin síðustu ár hafa konur og karlar úr hinum ýmsu söfnuðum, trúað fólk og efasemdamenn, ungir og gamlir, já fólk af öllum gerðum sótt fræðslukvöldin í Glerárkirkju og vonumst við til þess að hópurinn í haust verði litríkur og fjölbreyttur. Gaman væri að sjá þig í þeim hópi!

Dagskráin verður sem hér segir:

JESÚS KRISTUR
10. október: Jesús sögunnar - Kristur trúarinnar
Málshefjandi: Sr. Hreinn Hákonarson, fangaprestur og þýðandi bókarinnar

  • Hvað einkenndi persónu Jesú?
  • Hvaða þýðingu hafa máltíðir og kraftaverk í starfi Jesú?
  • Hvað einkenndi samfélagið sem Jesús myndaði?

BIBLÍUTÚLKUN
17. október: Biblía: Texti og túlkun
Málshefjandi: Sr. María Ágústsdóttir, verkefnastjóri á Biskupsstofu

  • Hvaða áhrif hafa Biblíurannsóknir haft á kirkju og kristni?
  • Auka Biblíurannsóknir skilning á kirkju og samfélagi?
  • Hefur túlkunarfræðin breyst með tilkomu kvennaguðfræðinnar?

GUÐSHUGMYNDIR
24. október: Guðsmynd og mannskilningur
Málshefjandi: Þórgnýr Dýrfjörð, heimspekingur

  • Er manneskjan í Guðs mynd, eða Guð mótuð af manneskjunni?
  • Hvað verður um Guð í trúarbragðarýni síðustu alda?
  • Er boðun kirkjunnar dragbítur í mannréttindabaráttunni?

SJÁLFSSKILNINGUR
31. október: Siðfræði og sjálfsmynd
Málshefjandi: Frú Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal

  • Felur kall Krists um samfylgd við sig í sér siðferðislegar kröfur?
  • Eru helgiathafnir kirkjunnar burðastólpar í lífi okkar?
  • Er hægt að segja já við eigin trú og viðurkenna um leið aðra trú?

TRÚFÉLAGIÐ
7. nóvember: Sýn og skipulag
Málshefjandi: Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands

  • Eykur fjölbreytileiki guðsþjónustuformsins skilning á trú?
  • Hvað er það sem aðgreinir Gyðingdóm og Kristni?
  • Hvernig fara hugsjónir um kirkjuna saman við skipulag hennar?

KYNIN
14. nóvember: Kristin trú og kyn
Málshefjandi: Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir, sóknarprestur í Hrísey

  • Hver er boðskapur kristni inn í umræðuna um kyn í dag?
  • Hafði eða hefur meinlætalífið tilgang og innihald?
  • Hvaða hlutverki gegnir hjónabandið í kristinni trú?

SKÖPUNIN
21. nóvember: Kristin trú og stjórnmál
Málshefjandi: Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður

  • Hvernig má rökstyðja afskipti kirkjunnar af stjórnmálum í dag?
  • Hver er staða trúarbragða í umræðunni um sjálfbært samfélag?
  • Hverjar eru hinar biblíulegu forsendur fyrir sjálfbærni?

HNATTVÆÐINGIN
28. nóvember: Kristin trú í hnattvæddum heimi
Málshefjandi: Jónas Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar

  • Eru trúarbrögðin uppspretta átaka eða leið til sátta?
  • Þurfum við ný rök sem styðja útbreiðslu kristni?
  • Hvernig geta þvertrúarlegar samræður eflt samstöðu með þjáðum?

Eins og fyrr segir byggja kvöldin á bókinni "Hvað er kristin trú?". Bókin er til sölu í Glerárkirkju og kostar 3.000 krónur. Í kynningu á bókarkápu segir um bókina:

Vestræn samfélög byggja á kristnum gildum.
En hvaða gildi eru þetta annars?

Bókin Hvað er kristin trú? gefur mörg áhugaverð svör og sum hver kunna að ýta hressilega við lesandanum. Höfundur kynnir í stuttu máli sögu kristinnar trúar, siðfræði hennar og mannskilning, og ræðir umdeild mál sem snúast um kynferði, kynlíf og stjórnmál. Þetta er ekki hefðbundin útlegging á texta Biblíunnar, kirkjusögu eða trúfræði, heldur miklu fremur bók sem skorar á kristna trú sem og önnur trúarbrögð að horfast í augu við sögu sína og samtíð. Og sú áskorun kemur úr herbúðum þeirra sjálfra og frá öðrum. Hvernig á kristin trú að bregðast við öðrum trúarbrögðum og annarri menningu?

Höfundur bókarinnar, Halvor Moxness (f.1944) er prófessor við guðfræðideild háskólans í Osló. Hann hefur ritað fjölda bóka og greina og er einn fremsti nýjatestamentisfræðingur Norðurlanda. Sérsvið hans er Nýja testamentið, hinn sögulegi Jesús, biblíutúlkun og fjölskyldugerðir á fornum tíma, samskipti kynjanna og kynhlutverk á ólíkum tímum.

Auglýsing á pdf-formi um fyrirlestraröðina.