Kæri lesandi. Nú á jólaföstunni höldum við upp á 20 ára vígsluafmæli Glerárkirkju. Á þessum 20 árum hefur starf Glerárkirkju eflst og dafnað. Þrátt fyrir erfiðan efnahag hefur tekist að halda í horfinu og halda úti blómlegu starfi og fullri þjónustu við sóknarbörnin. Það er helst að þakka öflugu og góðu starfsfólki kirkjunnar. Það var mikill stórhugur að ráðast í byggingu kirkjunnar á sínum tíma, en með dugnaði og samstöðu tókst það. Með sama hætti er framtíð starfsins í Glerárkirkju á herðum okkar, sem búum í Glerárhverfi í dag.
Við sem sitjum í sóknarnefnd, prestar og allt starfsfólk kirkjunnar, viljum vinna að því að Glerárhverfið eigi fallega kirkjubyggingu sem nýtur ræktarsemi og lifandi starfs. Ég vil því hvetja þig lesandi góður til að kynna þér alla þá starfsemi sem fer fram í kirkjunni okkar. Vil ég benda á dagskrá í tilefni vígsluafmælisins. Föstudaginn 7. desember kl. 20:00 verður kaffihúsakvöld þar sem kvenfélagið Baldursbrá verður með veitingar á vægu verði og flutt verður lifandi tónlist með aðventuívafi. Díana Bryndís sem er íbúi í sókninni opnar listsýningu í anddyri kirkjunnar. Á laugardeginum 8. desember verður hátíðardagskrá í tali og tónum þar sem dr. Hjalti Hugason flytur erindi ásamt því að tónlist verður flutt og á eftir verða kaffiveitingar.
Sunnudaginn 9. desember hefst hátíðardagskráin með sunnudagaskólanum þar sem fluttur verður leikþáttur ásamt því að börnin verða leyst út með glaðning frá jólasveininum í tilefni aðventunnar og afmæli kirkjunnar. Eftir hádegi, eða kl. 14:00 verður hátíðarmessa þar sem biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir prédikar og Kór Glerárkirkju flytur Krýningarmessu eftir W.A. Mozart. Eftir messu verður boðið í afmælismessukaffi. Vígsluafmælishelginni lýkur svo með bíókvöldi æskulýðsstarfsins þar sem boðið verður upp á viðeigandi veitingar með sýningunni.
Glerárkirkja er orðin ein af fegurstu kirkjum landsins með stórkostlegum listaverkum eftir Leif Breiðfjörð sem prýða alla glugga kirkjuskipsins. Framtiðarsýn og ósk margra velunnara og starfsmanna kirkjunnar er sú að í nánustu framtíð verði hægt að safna fyrir nýju orgeli og veglegri altaristöflu. Það er ósk okkar að sóknarbörn taki höndum saman og hlúi að kirkjunni sinni og njóti um leið alls þess sem kirkjan hefur upp á að bjóða.
Sóknarnefnd Lögmannshlíðarsóknar óskar öllum sóknarbörnum til hamingju með 20 ára vígsluafmæli kirkjunnar og biður að Guð gefi öllum gleðirík jól og farsæld á komandi ári. Megi boðskapur jólanna færa öllum frið og sanna gleði.
F.h. sóknarnefndar Lögmannshlíðarsóknar
Gunnar St. Gíslason
Fræðast má um dagskrá afmælishátíðarinnar með því að smella hér eða velja hér til vinstri þar sem stendur "Glerárkirkja 20 ára"