Kynslóðir mætast

Kynslóðir mætast heitir samstarfsverkefni Öldrunarheimila Akureyrar og Menntaskólans á Akureyri. Það er hluti af lífsleikniáfanga hjá nemendum fjórða bekkjar í MA og gengur út að leiða unga og aldna saman. Verkefninu sem er orðið sjö ára var ýtt úr vör af Glerárkirkju á sínum tíma að fyrirmynd úr Skálholtsskóla.

Verkefnið er fjórþætt. Fyrsti þáttur snýr að kynningu verkefnisins og skráningu þátttakenda en mikill áhugi hefur verið meðal nemenda MA á verkefninu og færri komast að en vilja. Að sama skapi hefur áhuginn verið mikill hjá vistfólki á Hlíð og ýmsum öðrum hópum eldri borgara sem tengjast Hlíð eða vinaheimsóknum Eyjafjarðarprófastsdæmis á einn eða annan hátt. Um 40 þátttakendur úr hvorum aldurshópi geta tekið þátt hverju sinni.

Annar þátturinn snýr að framkvæmd síðdegissamverunnar sem fer fram í dag. Byrjað er á að sýna menntskælingum Hlíð og segja frá starfsemi öldrunarheimilanna. Því næst er haldið í samkomusalinn. Menntskælingar skipta sér síðan niður í þessa hópa. Samveran hefst með tónlistarflutningi menntskælinga. Að því loknu verður verkefni dagsins lagt fyrir en að þessu sinni á hver hópur (MA-nemar og 2 eldri borgarar) að bregða sér í hlutverk starfsfólks á ferðaskrifstofu.

Þriðji þáttur verkefnisins byggist á því að hver hópur (2 MA-ingar og 2 eldri borgarar) hittist a.m.k. tvisvar sinnum og gerir eitthvað skemmtilegt saman. Iðulega hafa skapast afar gefandi umræður um hagsmunamál eldri og yngri borgara sem er liður í að auka skilning á milli hópanna og oftar en ekki er það áskorun að rekja ættirnar saman. Á meðan að eldri borgararnir eru vanir slíkri iðju er hún ný fyrir yngra fólkinu sem þykir gott að geta gripið til þess ráðs að nota islendingabok.is. Oft heimsækja MA-ingar eldri borgarana við þessi tækifæri en einnig er nokkuð um að farið sé í bíltúr, á kaffihús, í gönguferð, Menntaskólinn skoðaður eða annað það til gamans og gagns gert sem hver hópur hefur ákveðið.

Fjórði þáttur verkefnisins snýr svo að því hvernig þátttakendum þykir hafa tekist til. Frá upphafi hafa nemendur haft málstofur í skólanum í tengslum við verkefnið þar sem þau hafa greint frá því hvernig sýn þeirra á samskipti og aðstæður kynslóðanna er að verkefni loknu. Fyrir tveimur árum var svo tekin upp sú nýbreytni að eldri borgararnir sem þátt tóku í verkefninu hittast á svipuðum matsfundi.


Verkefnið á uppruna sinn í kirkjustarfi, fyrirmynd þess er verkefnið ,,Arfur kynslóðanna” sem Bernharður Guðmundsson, þá rektor í Skálholti, ýtti úr vör uppúr aldamótunum síðustu.


Kynningarefni um verkefnið á ensku vegna kynningar í Tallinn í apríl 2010 (pdf-skjal)