Verkefnið er fjórþætt. Fyrsti þáttur snýr að kynningu verkefnisins og skráningu þátttakenda en mikill áhugi hefur verið meðal nemenda MA á verkefninu og færri komast að en vilja. Að sama skapi hefur áhuginn verið mikill hjá vistfólki á Hlíð og ýmsum öðrum hópum eldri borgara sem tengjast Hlíð eða vinaheimsóknum Eyjafjarðarprófastsdæmis á einn eða annan hátt. Um 40 þátttakendur úr hvorum aldurshópi geta tekið þátt hverju sinni.
Annar þátturinn snýr að framkvæmd síðdegissamverunnar sem fer fram í dag. Byrjað er á að sýna menntskælingum Hlíð og segja frá starfsemi öldrunarheimilanna. Því næst er haldið í samkomusalinn. Menntskælingar skipta sér síðan niður í þessa hópa. Samveran hefst með tónlistarflutningi menntskælinga. Að því loknu verður verkefni dagsins lagt fyrir en að þessu sinni á hver hópur (MA-nemar og 2 eldri borgarar) að bregða sér í hlutverk starfsfólks á ferðaskrifstofu.
Þriðji þáttur verkefnisins byggist á því að hver hópur (2 MA-ingar og 2 eldri borgarar) hittist a.m.k. tvisvar sinnum og gerir eitthvað skemmtilegt saman. Iðulega hafa skapast afar gefandi umræður um hagsmunamál eldri og yngri borgara sem er liður í að auka skilning á milli hópanna og oftar en ekki er það áskorun að rekja ættirnar saman. Á meðan að eldri borgararnir eru vanir slíkri iðju er hún ný fyrir yngra fólkinu sem þykir gott að geta gripið til þess ráðs að nota islendingabok.is. Oft heimsækja MA-ingar eldri borgarana við þessi tækifæri en einnig er nokkuð um að farið sé í bíltúr, á kaffihús, í gönguferð, Menntaskólinn skoðaður eða annað það til gamans og gagns gert sem hver hópur hefur ákveðið.Verkefnið á uppruna sinn í kirkjustarfi, fyrirmynd þess er verkefnið ,,Arfur kynslóðanna” sem Bernharður Guðmundsson, þá rektor í Skálholti, ýtti úr vör uppúr aldamótunum síðustu.
Kynningarefni um verkefnið á ensku vegna kynningar í Tallinn í apríl 2010 (pdf-skjal)