Í tilefni alþjóðlegs dags sjálfsvígsforvarna verður haldin kyrrðarstund í Glerárkirkju þriðjudaginn 10. september kl. 20:00.
Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir leiðir stundina, aðstandandi segir frá reynslu sinni og Valmar Väljaots og Þórhildur Örvarsdóttir sjá um tónlistarflutning.
Í lok athafnarinnar gefst kostur á að kveikja á kertum til minningar um þau sem fallið hafa fyrir eigin hendi.
Eftir stundina verður kynning á starfi Samhygðar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð og LIFA, landsamtaka aðstandenda eftir sjálfsvíg.
Margir þjást árlega vegna sjálfsvíga ástvina, vina, skóla- eða vinnufélaga. Stund sem þessari er ætlað að mæta þeim einstaklingum. Hér komum við saman, heyrum af reynslu aðstandanda, sitjum í ró undir fagurri tónlist og leyfum huganum að reika til hans eða hennar sem við syrgjum.
Með því að kveikja á kerti minnum við okkur á lífið eilífa og ljósið sem skín þrátt fyrir að myrkrið sé dimmt.
Við komum saman og minnum okkur á að við erum ekki ein í sorginni, það eru fleiri sem búa yfir sömu reynslu. Hjá sumum er stuttur tími frá andláti ástvinarins, hjá öðrum er lengri tími liðinn. Þegar við komum saman þiggjum við bæði og veitum stuðning.
Við leggjum lið öllum þeim sem vinna á vettvangi sjálfsvígsforvarna með því að vekja athygli á þörfinni fyrir það starf í voninni um að hægt sé að fækka sjálfsvígum, styðja þau sem líður illa og fækka um leið þeim sem syrgja vegna jafn ótímabærra og oft óskiljanlegra dauðsfalla og sjálfsvíg eru.