Nýung í starfi Glerárkirkju þetta haustið er að verðandi fermingarbörnum er boðið í gistiferð á Hólavatn. Þar dvelur hver hópur frá síðdegi fyrra daginn til hádegis næsta dag við leik og hópefli. Með ferðinni vill Glerárkirkja kynna það æskulýðsstarf sem fram fer á vegum kirkjunnar og samstarfsaðila hennar KFUM og KFUK. Nú þegar formlegri skráningu er lokið hafa tæplega 50% árgangsins skráð sig í ferðirnar, en þær eru valkostur til viðbótar við fermingarfræðsluna. Fyrsti hópurinn fer af stað í dag kl. 16:30 frá Glerárkirkju. Ef einhver hefur óvart gleymt að skrá sig er sá hinn sami / sú hin sama beðin að hringja í 864 8451.
Á Hólavatni er mjög góð aðstaða fyrir hópa sem þessa og því mun tíminn líða hratt. Væntanlega blotna einhverjir í fæturnar af því að bátsferðin varð aðeins ævintýralegri en gert var ráð fyrir og útsofnir verða þátttakendur væntanlega ekki þegar heim er komið. En til þess er leikurinn gerður, að gera sér glaðan dag í áhyggjulausu, heilbrigðu umhverfi.
Umsjón með ferðunum hefur Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju og gefur hann nánari upplýsingar í síma 864 8451. Til upplýsingar látum við einnig fljóta hér að neðan minnisblað sem sent var þátttakendum:
Ágætu viðtakendur, þessi póstur inniheldur smá minnisblað vegna ferðar á Hólavatn. Pósturinn er sendur til þeirra sem hafa skráð sig (barn sitt) í ferð æskulýðsstarfs Glerárkirkju á Hólavatn nú í vikunni. Ef einhverjar spurningar vakna þá endilega hafið samband símleiðis. Farsíminn minn er 864 8451 en farsímasambandið á Hólavatni er misgott og því einnig hægt að hringja í síma 463-1271 sem er síminn í eldhúsinu á Hólavatni.
Þátttökugjald er aðeins 3.000 krónur. Vinsamlegast greiðið við brottför í seðlum þar sem við erum ekki með posa.
Hver og einn þarf að taka með lak og sæng eða svefnpoka, handklæði, sundföt eða þess háttar (fyrir þau sem vilja busla í vatninu) og fatnað til útiveru (veðurspáin er reyndar mjög góð en einhver rigning í kortunum), íþróttaskó (fyrir þau sem vilja fara í fótbolta) og að sjálfsögðu má ekki gleyma fötum til skiptanna og tannbursta!
Halla Marie Smith verður ráðskona á Hólavatni þessa dagana. Auk hennar verða Pétur Ragnhildarson og Hreinn Pálsson starfsmenn á Hólavatni ásamt undirrituðum. Þá mun Marína Ósk Þórólfsdóttir einnig verða á staðnum að hluta sem og sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir.
Kær kveðja
Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju
petur@glerarkirkja.is