ATH: Því miður er Aðalsteinn Bergdal forfallaður!
Tveggja manna tal á miðvikudagskvöldum í Glerárkirkju heldur áfram 19. október. Nú er röðin komin að sr. Hauki Ágústssyni
presti og kennara og Aðalsteini Bergdal leikara. Yfirskrift kvöldsins er: ,,Leikhúsið og helgihaldið" en þeir munu m.a. fást við eftirfarandi
spurningar:
Eru guðspjöllin vel til þess fallin að leika þau á sviði? Hvers vegna (ekki)?
Hvað er sérstakt við form guðspjallanna?
Hvernig tengjast guðspjöllin helgihaldi kirkjunnar?
Dagskráin hefst kl. 20:00 með stuttri helgistund og tveggja manna tali þeirra Hauks og Aðalsteins. Að loknu kaffihléi um níuleytið tekur við samtal
við almenna þátttakendur. Allir velkomnir - aðgangur ókeypis.
Til hliðsjónar þetta kvöld er sem fyrr bók páfa ,,Jesús frá Nasaret“ og þá sérstaklega bls. 79 til 136.
Í þessu samhengi setur páfi fram tesu sem verður að teljast í senn, skörp, vægðarlaus og spámannleg:
Mest ber þó á því að Guð er horfinn: Maðurinn er eini leikandinn sem eftir er á sviðinu. Virðingin, sem þeir sem
hugsa svona segjast bera fyrir “trúarlegum” hefðum, er aðeins sjónarspil. Sannleikurinn er sá, að litið er á þær sem einhverja
siði sem leyfa ætti fólki að viðhalda, jafnvel þótt þeir séu þegar allt kemur til alls merkingarlausir. Trú og
trúarbrögðum er beint í átt að pólitík. Ekkert skiptir máli nema skipulag heimsins. Trúarbrögð skipta aðeins máli
að því leyti sem þau geta þjónað þessum tilgangi. Þessi eftir-kristna-sýn á trú og trúarbrögð minnir
ónotalega á þriðju freistinguna sem lögð var fyrir Krist. (JfrN. Bls. 70-71).
Íhugunartexti úr Markúsarguðspjalli 2. og 3. kafla v. 2.23-3.6:
Drottinn hvíldardagsins
2 23Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx
á leiðinni. 24Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á
hvíldardegi?“
25Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði
og menn hans? 26Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema
prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“
27Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. 28Því
er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“
Á hvíldardegi
3 1Öðru sinni gekk Jesús í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd 2og höfðu þeir nánar gætur
á Jesú hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann. 3Og Jesús segir við manninn með visnu höndina:
„Statt upp og kom hér fram!“ 4Síðan spyr hann þá: „Hvort er heldur leyfilegt að gera gott eða gera illt á hvíldardegi, bjarga
lífi eða deyða?“
En þeir þögðu. 5Og Jesús leit á þá með reiðisvip, hvern á eftir öðrum, sárhryggur yfir
harðúð hjartna þeirra og sagði við manninn: „Réttu fram hönd þína.“ Hann rétti fram höndina og hún varð heil.
6Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð
lífi hans.
Yfirlit yfir umfjöllun fyrri kvölda.