Leikritið ?Upp, upp mín sál? verður sýnt í Glerárkirkju, mánudaginn, 12. október kl 17:00.
Fermingarbörnum og fjölskyldum þeirra er sérstaklega boðið á þetta leikrit, en sýningin er öllum opin. Leikritið tekur 45 mínútur í flutningi. Leikarar eru þrír: Eggert Kaaber, Katrín Þorkelsdóttir og Valgeir Skagfjörð sem er jafnframt leikstjóri.
Stoppleikhópurinn sýnir leikritið sem segir frá uppvaxtarárum Hallgríms Péturssonar. Verkið byggir að mestu á bókinni ?Heimanfylgju? eftir Steinunni Jóhannesdóttur en leikgerðin er eftir Valgeir Skagfjörð.
Verkið er sniðið að ungum áhorfendum og miðar að því að gefa grunnskólabörnum innsýn inn í lífsbaráttu Íslendinga á 17. öld og hvaða merkingu það hafði fyrir ungan dreng eins og Hallgrím Pétursson að alast upp í Skagafirði á þeim tíma. Hvaða áhrif hafði það á hann að dvelja á biskupssetrinu að Hólum í Hjaltadal og ganga í skóla á æðsta menntasetri landsins og kynnast því merka fólki sem þar bjó. Stórviðburðir sögunnar á borð við Kötlugos, farsóttir, hamfaraveður, galdrabrennur, Tyrkjarán og dauðsföll allt um kring settu svip sinn á uppvöxt þessa mesta stórskálds þjóðarinnar.
Sagan er sögð á einfaldan en skemmtilegan hátt með aðferðum leikhússins, söng og hljóðfæraslætti.