Þessa dagana stendur yfir sýning á verkum handverkskonunnar og ljósmyndanemans Díönu Bryndísar í Glerárkirkju. Díana Bryndís, einnig þekkt sem Mamma Dreki, leggur stund á nám í ljósmyndun við New York Institute of Photography en er búsett í dag ásamt fjölskyldu sinni norðan ár á Akureyri. Sýning hennar var opnuð á afmælishátíð Glerárkirkju í desember og stendur sýningin fram í febrúar. Sýningin er opin alla virka daga frá 11:00 til 16:00 sem og þegar viðburðir eru í kirkjunni.
Að eigin sögn hefur hún lengi haft áhuga á ljósmyndun og verið að leita leiða til að lyfta þeim upp, gefa þrívíddinni í þeim aukið rými og sýnileika. Á meðan á námi hennar í VMA stóð (en hún er stúdent af listnámsbraut) komst hún í kynni við ýmsa tækni sem hún notar í dag við vinnslu á ljósmyndum sínum. Ljósmyndirnar vinnur hún á ýmiss efni, t.d. grófan hör eða fínan bómull og beitir svo mismunandi aðferðum til þess að ná upp þrívíddinni í verkum sínum.
Viðtal sem tekið var við Díönu Bryndísi og birtist í þættinum Matur og Menning á sjónvarpsstöðinni N4 er aðgengilegt hér fyrir neðan, þökk sé vefTV hjá N4: