Sunnudaginn 29. maí kl. 14:00 verður hátíðarmessa vegna 150 ára afmælis þeirrar kirkju sem nú stendur í Lögmannshlíð.
Vígðir þjónar kirkjunnar þjóna, Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum prédikar. Að messu lokinni er boðið til
messukaffis í safnaðarheimili Glerárkirkju. Allir velkomnir.
Þegar ekið er sem leið liggur upp í Hlíðarfjall í átt að skíðasvæði Akureyringa blasir Lögmannshlíðarkirkja
við á hægri hönd stuttu eftir að beygt hefur verið út af hringtorginu. Þar stendur kirkjan á hól og blasir austurstafn hennar við með
Hlíðarfjall í baksýn. Ekið er að kirkjunni og kirkjugarðinum um veg sem liggur framhjá hesthúsasvæði. Bílastæði er vestan
við kirkjuna.
Frá upphafi byggðar - jafnvel frá því snemma eftir kristnitöku - hefur kirkja staðið syðst í Kræklingshlíð þar sem
Lögmannshlíðarkirkja stendur nú en þar var aldrei prestssetur, heldur var jörðin og þar með talið kirkjan, bændaeign. Það var svo
á fyrri hluta 16. aldar að jörðin ásamt nærliggjandi jörðum (saman kölluð Lögmannshlíðartorfan) komst í eigu Jóns
Arasonar biskups. Helga dóttir hans varð svo eigandi að jörðinni og hélst Lögmannshlíð í eigu afkomenda hennar fram á 17. öld.
Þegar núverandi kirkja var byggð árið 1860 var jörðin í eigu Þorsteins Daníelssonar á Skipalóni.
Á um 100 ára tímabili fram til 1981 þjónuðu prestar Akureyrarkirkju einnig Lögmannshlíðarkirkju. Á því tímabili
hafði átt sér stað nokkur umræða um framtíð kirkjunnar, sérstaklega í tengslum við ný prestakallalög frá 1907.
Sérstaklega var horft til þess að byggja nýja kirkju miðsvæðis í Kræklingahlíðinni. Ekkert varð af þeirri framkvæmd og
ákveðið að gera við Lögmannshlíðarkirkju sem var ekki í góðu ástandi. Frá árinu 1981 hefur
Lögmannshlíðarkirkju verið þjónað af prestum Glerárprestakalls, en aðalkirkja þess prestakalls er Glerárkirkja.
Lögmannshlíðarkirkja er lítið notuð og messað að jafnaði einu sinni á önn í kirkjunni, auk þess sem prestar Akureyrarkirkju og
Glerárkirkju nýta kirkjuna stöku sinnum fyrir athafnir þegar þess er óskað og veður leyfir.
Uppgjöri vegna byggingar kirkjunnar lauk 31. ágúst 1866. Samkvæmt því kostaði bygging kirkjunnar 1.157 ríkisdali og 11 skildinga. Sú kirkja var
með timburþaki, án forkirkju og turns, svartbikuð að utan en gluggar og hurð hvítmáluð, opið var upp í rjáfur og kirkjuklukkunum
komið þar fyrir til bráðabirgða.
Ítarlega er gerð grein fyrir Lögmannshlíðarkirkju í tíunda bindi ritsins Kirkjur Íslands og er framangreindur texti byggður á
frásögn í þeirri bók. En einnig má finna ítarlega samantekt hér á
vef
Glerárkirkju.