Safnaðarblað Glerárkirkju: Pdf-formi
Hugvekja úr safnaðarblaðinu eftir sr. Gunnlaug Garðarsson:
Framundan er sú hátíð sem veigamestan sess hefur í þjóðarsálinni. Hún er grípandi og alltumlykjandi þegar hún gengur í garð. Þetta gildir um þjóðfélagið allt, fjöl- skyldur og einstaklinga. Sögur, tónlist og söngur eru meiri um jólin en tölu verður á komið. Hvað er það sem veldur og knýr þessa miklu hljómkviðu fram, og það árlega?
Svarið er nú sem fyrr fagnaðarerindið um Guðs ríki, fagnaðarerindið um Jesú Krist.
Jólin segja: Skaparinn – höfundur heims og lífs vitjar mannanna. Hann gerði það forðum í Betlehem þegar Jesús Kristur fæddist í þennan heim. Hann gerir það enn í hvert sinn sem tekið er við honum sem Guðs syni hér á jörðu. Hann gerir það svo sannarlega enn er við tökum á móti nýju lífi – nýju barni hér í heimi. Minnumst því orða Drottins til lærisveina sinna: „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni (heilög skírn), tekur við mér og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“ (Mark. 10. 17).
Þannig megum við fyrir náð og trú líta ásjónu Guðs í ásjónu sakleysingjanna sem okkur er trúað fyrir. Ásjóna sakleysisins opnar hjörtu okkar með sérstökum hætti og hjálpar okkur að sjá og skynja hin sönnu andlegu verðmæti lífsins. Ásjóna sakleysisins ætti því að hjálpa okkur að taka á móti hvert öðru sem Kristur væri. Þetta boða jólin og einmitt þess vegna fáum við fyrir náð skynjað nánd hins heilaga um jól og í návist barna.
Óskum hvert öðru gleðilegra og helgra jóla með hinni ævafornu blessunarbæn kirkjunnar:
„Drottinn blessi þig og varðveiti þig! Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur! Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!“
(IV Mós 6:24-26)
Gunnlaugur Garðarsson sóknarprestur