21.07.2010
Um árabil hafa Glerárkirkja og KFUM og KFUK á Akureyri átt í mjög góðu samstarfi við æskulýðsstarf kirkjunnar í
Reutlingen í Þýskalandi, en þau voru meðal annars samstarfsaðili Glerárkirkju í ungmennaskiptaverkefninu ,,We're Human, right?"
síðastliðið vor (sjá hópmynd). Þessi samtök, Evangelisches Jugendwerk, Bezirk Reutlingen
(skammstafað EJR) stóðu einnig fyrir því að senda vinnuhóp á Hólavatn til að hjálpa við að reisa leiktæki þar
á lóðinni og hafa sent fjölda sjálfboðaliða til starfa í æskulýðsstarfi Glerárkirkju, meðal annars þær Yvonne og Jule svo dæmi séu nefnd. Næsti sjálfboðaliði frá þeim er svo hún
Maike.
En nú gefst íslenskum ungmennum á aldrinum 18 til 27 ára tækifæri til þess að gerast sjálfboðaliðar hjá þessum
samstarfssamtökum okkar. Nákvæma lýsingu á verkefninu má lesa
á vef ungmennaáætlunar Evrópusambandsins, en hér á eftir fer útdráttur á íslensku með skýringum og
viðbætum.
EJR eru frjáls félagasamtök sem starfa á vettvangi evangelísku kirkjunnar í prófastsdæminu Reutlingen í nágrenni Stuttgart.
Þessi félagasamtök hafa í gegnum sérstakan samning við prófastsdæmið ýmsum skyldum að gegna varðandi barna- og unglingastarf
í söfnuðunum í prófastsdæminu, en samtökin standa líka fyrir ýmsum viðburðum og ferðum, ýmist ein sér eða í
samstarfi við félög og skóla svo dæmi séu nefnd.
Skrifstofa samtakanna og miðpunktur daglegrar vinnu þeirra er í Brenzstrasse í Reutlingen. Skrifstofan er íslensku krökkunum sem tóku
þátt í ungmennaskiptaverkefni Glerárkirkju og EJR nýverið að góðu kunn, en stór hluti dagskrárinnar fór fram þar
(þetta er semsagt meira en ,,bara" skrifstofa).
Í starfi sínu leggur liðsfólk EJR áherslu á trúna. Í stefnumótun þeirra segir í lauslegri þýðing:
,,Við trúum fyrirheitum guðspjallanna og hvetjum ungt fólk til að skapa lífi sínu umgjörð sem byggir á traustinu til Jesú Krists.
Hlutverk okkar er að þróa form og innihald sem gerir kleift að lifa trúnni í daglegu lífi.
Í starfi sínu leggur liðsfólk EJR áherslu á að allir eru velkomnir. Í stefnumótun þeirra segir í lauslegri
þýðingu: ,,Öll vinna okkar byggir á þeirri fullvissu að Guð elskar og umvefur hvern einstakling. Því er viðmót okkar allt
það sama í garð stúlkna og drengja, barna, unglinga og ungs fólks eins og þau koma okkur fyrir sjónir með því sem þau hafa fram
að færa og því sem takmarkar þau, óháð uppruna þeirra og trú."
Í starfi sínu leggur liðsfólk EJR áherslu á að taka ungu manneskjuna alvarlega. Í stefnumótun þeirra segir í lauslegri
þýðingu: ,,Við komum orðum að aðstæðum unga einstaklingsins. Við hlustum á tjáningu unga fólksins um tökum þrár,
þarfir og spurningar alvarlega. Við erum samfylgdarfólk í leit þeirra að gildum og markmiðum lífsins."
Í starfi sínu leggur liðsfólk EJR áherslu á að unga fólkið sé virkt. Í stefnumótun þeirra segir í lauslegri
þýðingu: ,,Hlutverk okkar er að gera kirkjuna áhugaverða fyrir ungt fólk og við leggjum okkur fram við að gefa ungu fólki
tækifæri til að taka virkan þátt í því að gera kirkjuna áhugaverða og koma breytingum áleiðis. Hlutverk okkar er að
skapa rými þar sem hin unga manneskja getur frjáls skapað í samræmi við eigin hæfileika og styrkleika.
Fleira kemur fram í þessari stefnumótun, meðal annars að í gegnum starfið vill liðsfólk EJR einnig bæta eigin kunnáttu, þ.e.
læra af því sem vel gengur og af mistökum, auka samvinnu og hveta til sjálfboðins starfs og ábyrgðar ungs fólks.
Hér er á ferðinni áhugavert tækifæri sem um er að gera að kynna sér. Sjálfboðaliðinn mun taka þátt í
fjölbreyttu starfi samtakanna, fara á þýskunámskeið, hafa mentor sér við hlið sem og takast á við hinn evrópska veruleika eins og
hann birtist Íslendingnum 2.500 kílómetrum sunnan við Ísland.
Nánari upplýsingar gefur Pétur Björgvin í síma 864 8451, eða á netfangið petur (hjá) glerarkirkja.is
-----
Evrópu Unga Fólksins verkefnin er fjármögnuð með styrk frá framkvæmdastjórn
Evrópusambandsins. Þær upplýsingar sem hér koma fram lýsa aðeins viðhorfum höfundar, Péturs Björgvins Þorsteinssonar.
Framkvæmdastjórnin tekur ekki ábyrgð á hvernig upplýsingar sem hér er að finna eru notaðar.