Í dag, 23. desember, er Þorláksmessa, nánar tiltekið Þorláksmessa að vetri. Hún heitir svo því að aðra Þorláksmessu er að finna í dagatali kirkjunnar á sumri. Sr. Flóki Kristinsson, sóknarprestur á Hvanneyri hefur tekið saman áhugaverðan pistil um Þorlák helga, sem var sjötti biskup á Skálholtsstóli, fæddur á Hlíðarenda í Fljótshlíð 1133. Það er okkur gleðiefni að gefa birt þennan pistil með góðfúslegu leyfi sr. Flóka, en pistillinn er fjársjóður fyrir fróðleiksfúsa og hefst hann á tilvitnun í texta sem Sigurður Pálsson víglsubiskup birti í Lesbók Morgunblaðsins í desember 1965, bls. 1-2:
Þorlákur helgi Þórhallarson var hinn sjötti biskup á Skálholtsstóli. Hann var bóndasonur fæddur á Hlíðarenda í Fljótshlíð 1133. Foreldrar hans „voru bæði góðrar ættar og göfugra manna fram í kyn". Sakir féleysis brugðu foreldrar hans búi meðan hann var enn á barnsaldri. „Þá réðust þau mæðgin í hinn æðsta höfuðstað, Odda, undir hönd Eyjólfi presti Sæmundarsyni, er bæði hafði höfðingsskap rnikinn og lærdóm góðan, gæzku og vitsmuni gnægri en flestir aðrir".
Þar nam Þorlákur prestleg fræði en ættvísi og mannfræði nam hann af móður sinni. „Eyjólfur virti hann mest allra sinna lærisveina". Eftir nokkurra ára prestskap fór hann til frekara náms til Parísar. Þaðan fór hann til Lincoln á Englandi, sem þá var höfuðstaður kristninnar þar í landi. „Þar nam hann enn mikið nám og þarflegt sér og öðrum". Eftir sex ára nám í löndum þessum kom hann heim og fór hið mesta orð af siðum hans góðum og helgiþjónustu ágætri. Árið 1168 var hann ráðinn til að veita forstöðu nýju klaustri í Þykkvabæ í Veri. Þar starfaði hann með mikilli prýði í 7 ár. Þá var hann kjörinn biskup. Hann var vígður í Niðaróss dómkirkju hinn 1. júlí 1178. Eftir vígsluna sagði Eysteinn erkibiskup um hann að „hann hefði engan þann biskup vígt, er honum þótti jafn gerla með sér hafa alla þá hluti, er biskupi er skylt að hafa". Þó margt væri honum mótdrægt í biskupsdómi, naut hann fyllsta trausts og virðingar sökum hreinlífis hans, staðfestu og hófsemi. Hann andaðist í Skálholti hinn 23. des. 1193.
Skömmu eftir andlát hans dreymdi Gissur Hallsson lögsögumann, að hann sá Þorlák biskup sitja á kirkjunni í Skálholti í biskups skrúða og blessa þaðan fólkið. Draum þennan réð Hallur svo, að Þorlákur mundi enn vera yfirmaður sinnar kristni. Segja má að sú ráðning reyndist rétt, því að fjöldi annarra vitrana og jarteina gerðist, er leiddi til þess að helgi Þorláks var lögtekin á Alþingi 1198. Þá var messudagur Þorláks settur 20. júlí. Sá dagur var síðan kirkjulegur þjóðhátíðardagur Íslendinga í hálfa fjórðu öld. Á þeim degi streymdi fólk til Skálholts. Þar tók það þátt í hinum dýrlegustu helgihöldum. Fjöldi kraftaverka gerðist og trúarleg endurnýjun barst með Skálholtsgestum út um byggðir landsins. Þannig hélt Þorlákur biskup áfram að blessa sína kristni eins og Gissur dreymdi. Helgi Þorláks mun aldrei hafa að fullu gleymzt, og enn er til fólk sem á hann heitir.
Fjöldi kirkna átti myndir af Þorláki helga, en engin þeirra hefur varðveitst, svo vitað sé. [Tilvitnun lýkur]
Fyrir 20 árum frétti ég að mynd hans væri í kirkjuglugga í Lincoln á Englandi, þar sem helgur Þorlákur stundaði nám. Hafði ég hinn mesta hug á að sjá myndina. Svo var það sumarið 1961 að ég dvaldi um tíma í Oxford og ætlaði þá endilega að sjá rnyndina. Öll atvik samverkuðu þó að því að hindra að það gæti orðið.
Þegar ég átti aðeins fáa daga eftir var ég farinn að hugsa um að sleppa þessu. Þá dreymdi mig draum, sem var þannig að ekki var gott að átta sig á hvort hann boðaði vandræði eða velgengni. Þó hafði draum- urinn þau áhrif að ég tók mig upp frá Oxford og hélt til London án þess að vera ráðinn í hvað ég ætlaðist fyrir. Þegar ég kom á járnbrautar- stöðina í London, spurði ég um ferðir til Lincoln. Mér var sagt að lestir þangað færu frá allt annarri stöð og sýnd var mér neðanjarðar- lest er þangað færi. Ég fór í þá lest og var þó enn óráðinn hvort ég ætlaði til Lincoln. Þegar ég kom á umrædda stöð, fann ég enga afgreiðslu þar og sneri mér því til st arfsmanns og spurði um ferðir til Lincoln. Maðurinn tók mig þegar undir hönd og leiddi mig inn í lest, sem var að leggja af stað til Lincoln, og nú var ekki um neit t að velja. Þegar til Lincoln kom, hófst ævint ýri, sem hér er ekki rúm fyrir. Það hófst á því að ég rakst alveg óvitandi inn í íbúð æðsta manns prestaskólans á staðnum, og þaðan voru mér allar dyr opnar. Eg dvaldi framar. í Lincoln heilan sunnudag. Hann skipt ist á milli helgihalda í hinni miklu og fögru dómkirkju og mót t öku lærðra manna, sem unun var að. Mér var tekið sem langþráðum pílagrími og það því fremur sem þeir vissuekkert um helgan Þorlák.
Það er af myndinni að segja, að hún er í glugga kapellu prest askólans ásamt myndum annarra frægra manna, er þar hafa numið helg fræði. Þó ég kæmi þarna eins og hálfóvart og að öllum óvörum, var því líkast sem koma mín hefði verið rækilega undirbúin af hinum æðstu kirkjuhöfðingjum. Hefi ég aldrei farið skemmtilegri ferð á ævi minni. Vissulega naut ég þarna hinnar óviðjafnanlegu gestrisni Englendinga, en hins er og að minnast, að ég naut dvalar heilags Þorláks á þessum stað, þó síðan séu runnin í aldanna skaut átta hundruð ár.
Getur ekki skeð, að enn megi stórmenni fyrri alda verða oss að liði ef minning þeirra væri rækt?
-------
Fyrir siðskipti voru meira en fimmtíu íslenskar kirkjur helgaðar heilögum Þorláki. Hin elsta þeirra mun hafa staðið á Stóra-Hofi á Rangárvöllum, og vígsla hennar tengist jartein, sem fólk áleit vera. Kauptúnið Þorlákshöfn í Árnessýslu dregur nafn af biskupinum. Sagt er, að þar hafi áður verið bærinn Elliðahöfn, en í sjóhrakningi hafi bóndinn heitið á Þorlák að breyta nafninu, ef skip hans næði landi. Hitt kann þó að vera eldra, að bærinn hafi fengið nafn af kirkjunni á þeim stað, sem var helguð Þorláki. Enn ber guðshús þjóðkirkjunnar í Þorlákshöfn heiti hans.
Heilagur Þorlákur þótti vera dýrlingur alls almennings og bera fram árnaðarorð fyrir snauða ekki síður en ríka, eins og hann í jarðlífinu "lagði mikla stund á að elska fátæka menn. Klæddi hann kalna en fæddi hungraða... lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir, tólf eða níu eða sjö, og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerraði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu, áður á brott færi." Sagt er, að sums staðar í Noregi hafi fátækt fólk átt jafnvel auðveldara með að snúa sér til hans en heilags Ólafs konungs. Og í færeyskri þjóðtrú varð heilagur Þorlákur að nokkurs konar jólasveini. Þar var, eins og á Íslandi, venja að kalla 23. desember Þorláksmessu.
Jóhannes Páll páfi II. útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands 14. janúar 1984.
Á biskupsárum sínum bjó Þorlákur við „margfalda vanheilsu", og síðast langaði hann til að „gefa upp biskupsdóminn og ráðast aftur undir hina sömu kanokareglu. En allsvaldandi Guð lét þetta því eigi framgengt verða, að hann sá hreinlífi hans og góðlífi vel nægjast honum til heilagleika, þó að hvergi minnkaði hans tign fyrir manna augum, sú er hann hafði honum gefið“.
Þorlákur lauk haustið 1193 við að vísitera þann landsfjórðung, sem næstur honum var. En í ferðinni tók hann þá sótt, sem dró hann til bana. Hann „lá þrjá mánuði í rekkju og hafði þunga sótt, en aldrei svo harða verki, að hann mætti eigi fyrir öllu ráð gera og skipa, sem hann vildi“. Meðal annars kom til hans Þorvaldur Gissurarson, og reiknaði þá „Þorlákur fyrir kennimönnum og höfðingjum fjárhagi staðarins, og hafði allmikið græðst, meðan hann hafði fyrir ráðið. Sjö náttum fyrir andlát sitt kallar hann til sín lærða menn og lét olea sig, og áður hann væri smurður talaði hann langt erindi, þó honum væri málið erfitt…“ Hann lauk ræðu sinni með þessum orðum: „Harmið eigi, þó að skilji vorar samvistir, því að eg fer eftir mínum forlögum. Hefi eg jafnan til lítils fær verið, ef eigi hefðu aðrir mér hjálpað. Er yður lítill skaði að mér, en næst eftir mig mun koma mikill höfðingi. Vil eg yður í því hugga, að eg þykjumst víst vita, að eigi mun Guð mig helvítismann dæma." Síðustu orð Þorláks voru þau, að hann beiddist að drekka. Eftir dauðann þóttu ásjóna hans og augu mjög björt. Hann hafði haft mörg sár stór og smá á líkamanum, en þau voru öll gróin.
Lík biskups var borið til kirkju og látið standa í kór í þrjár nætur.
Til gamans má bæta við lýsingu á heilögum Þorláki úr sögu hans í Hungurvöku. Þar segir m.a. svo um hann:
Sá var ljóður á Þorláki biskupi að hann stamaði og það svo mjög, að erfitt var að skilja hann. Þess vegna var það vani hans að syngja bænir fremur en að mæla þær fram, enda verður stams síður vart í söng en mæltu máli. Segir svo um þetta í sögu hans: „Þorlákur biskup kenndi oft kenningar (þ.e. prédikaði, eins og nú er jafnan sagt), og var það af því mikil mannraun, að honum var málið stirt og óhægt, en svo voru orðin sæt og vel saman sett, að ávallt mátti þeim í hug koma, er hans kenningum hlýddu, sem Davíð segir í psaltara, at „sætari eru mál þín dróttinn, í kverkum,“ segir hann, „heldur en seimur ok hunang í munni mínum.“ Þau in sömu bar Þorlákur byskup fram guðs mál með svo fögrum dæmum síns lífs að þau máttu í einskis manns lífi honum jafndýrðleg finnast.
„Þorlákur biskup vakti löngum um nætur, þá er aðrir sváfu, og baðst fyrir rækilega, at hann skyldi það öðlast, er Guð mælti: „Sæll er sá þræll“ segir hann, „er dróttinn finnur vakanda, þá er hann vitjar kemur að hans. “
„Heilagur Þorlákur byskup fastaði mjög, þá er hann var heima að stól sínum, ok minntist hann á þat í því, er dróttinn sagði sjálfur í guðspjalli, að þat væri sumt kyn fjanda, at eigi mætti sigra nema með föstu og bænahaldi, og lét hann þat því saman fara í lífi sínu, at hann vildi yfirstíga alla fjanda freistni.“
Nú er at segja frá hversdagsháttum ins sæla Þorláks byskups, hve jafnlyndr hann var í góðum hlutum. Hann mælti aldri þat orð, er eigi kæmi til nökkurrar nytsemdar, ef hann var at því sóttr. Hann var svá varr í sínum orðum, at hann lastaði aldri veðr, sem margir gera, ok enga þá hluti, er eigi váru lastandi ok hann sá, at eftir guðs vilja váru. Hann langaði til engra dægra. Hann kvíddi engum mjök nema alþingi ok imbrudögum; af því alþingi, at honum þótti margr maðr þar verða villr vega um sín málaferli, sá er mikils var virðr ok honum þótti mikit við liggja, en af því imbrudögum, at honum þótti þat ábyrgðarráð mikit at vígja menn, er til þess sóttu langan veg ok hann sá þá mjök vanfæra til, bæði sakir lítils lærdóms ok annarra hátta sér óskapfelldra, en hann nennti þó varla at níta, bæði s.akir fátækis þeira sjálfra ok fyrir sakir þeirra manna, er þeim höfðu kennt eða sínar jarteinir höfðu til sent. En sagði hann hverjum þeirra greiniliga, hvat hverri vígslu fylgdi til vanda, ok fal þeim sjálfum ábyrgð á hendi ok þeim, er þá sendu til.
Þorlákr lét oft kenna kenningar,af því at hann sá þat, þótt eigi yrði oft hlýtt svá skynsamliga sem skyldi bóksögum, at þó dvaldi þat þá ónýtar gerðir fyrir mörgum mönnum. Hann var svá jafnlyndr í föstum sínum, þá hann var heima, en í vökum ok bænahaldi, hvárt sem hann var heima eða eigi, at til ins sama var ey at ætla.
Hann neytti svá lítt fæðslu, at eigi mátti annat líkara þykkja en hann myndi þá oftar við skiljast, er honum þótti mest fyrir. Svá var honum um drykk farit, at aldri mátti finna, at á hann fengi, þó hann hefði þess kyns drykk. En hann var svá drykksæll, at þat öl brást aldri, er hann blessaði ok hann signdi sinni hendi, þá er gerð skyldi koma. Hann var svá óvandlátr ok vinveittr at þeim veizlum, er drykkr var, at hann sæmdi við allt þat, er eigi samdi illa. En þá Þorlákr byskup drakk vatn eða óáfenginn drykk, þá fór hann svá stilliliga með ok svá mikilli bindandi, at hann saup á þrjá sopa eða fimm eða sjau, en náliga aldri matmála á milli ósjúkr, ef eigi váru almennings drykkjur"
„Hann henti skemmtan at sögum ok kvæðum ok at öllum strengleikum ok hljóðfærum ok at hygginna manna ræðum ok draumum ok at öllu því, er góðra manna skemmtan var, utan leikum, því at honum þótti slíkt dvelja ónýtar sýslur vándra manna.