Hver er staðan á
þjóðgildunum sem viska fjöldans valdi á Þjóðfundinum 14. nóvember 2009? Eru hugtök eins og heiðarleiki, virðing,
réttlæti og lýðræði bara orðin tóm? Umræðan um þjóðgildin heldur áfram á mánudagskvöldum kl. 20:00
í Glerárkirkju.
Næsta umræðukvöld verður mánudagskvöldið 21. febrúar, en þar mun Hlín Bolladóttir frá Lista fólksins fjalla um
heiðarleika og traust. Helgistund kvöldsins er í umsjón Fjalars Freys Einarssonar, kennara. Til undirbúnings eru áhugasamir hvattir til að lesa samnefnda
kafla úr bók Gunnars Hersveins ÞJÓÐGILDIN.
Mánudagskvöldið 7. febrúar síðastliðinn hófust umræðukvöld kirkju og samfélags í Glerárkirkju um
þjóðgildin. Þar steig Gunnar Hersveinn, höfundur bókarinnar Þjóðgildin á stokk og minnti áheyrendur á mikilvægi
þess að efla samræðuna um hvaða samfélag við viljum vera og hvernig við getum ræktað það.
Gunnar benti á mikilvægi jákvæðninnar, en hann telur að jákvætt hugarfar ásamt gagnrýninni hugsun sé það sem endurskapar
einstaklinginn, gerir hann að betri manneskju en hún var í gær. Þannig sé þetta jákvæða hugarfar í raun galdurinn á bak
við allan árangur. Verið geti að jákvæðnin sé meðfædd á stundum en flestir þurfi að temja sér þetta
jákvæða hugarfar.
Mánudagskvöldið 14. febrúar var svo komið að fulltrúa Sjálfsstæðisflokksins, en flest kvöldin er framsögufólk frá
þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa í Bæjarstjórn Akureyrar. Baldur Dýrfjörð fjallaði um þjóðgildin
ábyrgð og frelsi. Hann taldi slíka umræðu ekki geta átt sér stað nema að við beindum sjónum okkur líka að hruninu og
tímanum fyrir hrun. Erindi hans kallaðist á við hugleiðingu sem sr. Svavar Alfreð Jónsson flutti í upphafi kvöldsins þar sem sr. Svavar
lagði út frá fossunum í Myrkárbotnum, þar er Kálfafoss einn. Saga er til af kálfum sem sleppt var lausum að vori og frelsinu feignir hlupu
þeir í gljúfrið og heitir fossinn því þessu nafni.
Baldur tók undir ræðu sr. Svavars að frelsinu yrði að setja skorður. Og lagði ríka áherslu á ábyrgð einstaklingsins á
gerðum sínum. Þa fjallaði hann á athyglisverðan hátt um samband þessarra hugtaka frelsis og ábyrgðar. Í því sambandi
rifjaði hann upp orð skólameistarans Þórarins Björnssonar: “Manndómur skapast ekki án ábyrgðar og ábyrgð ekki án
frelsis.”
Vert er að nefna að bókin Þjóðgildin var tilnefnd ásamt níu öðrum bókum frá liðnu ári til viðurkenningar
Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslubóka. Viðurkenningarráð Hagþenkis gaf bókinni eftirfarandi umsögn:
”Hógvær en beitt rökræða um þau kjölfestuhugtök og gildi sem íslensk menning þarfnast við uppbyggingu þjóðar.
Sjá nánar á vef prófastsdæmisins:
www.kirkjan.is/naust